Borghildur og Greipur ný í stjórn Hönnunarsjóðs

Breytingar hafa orðið í stjórn Hönnunarsjóðs. Borghildur Sturludóttir arkitekt hefur verið skipuð stjórnarformaður Hönnunarsjóðs og Greipur Gíslason ráðgjafi er skipaður stjórnarmaður sjóðsins af ráðherra menningar, nýsköpunar og háskóla Loga Einarssyni.
Borghildur er að hefja störf sem arkitekt hjá Skipulagsstofnun á sviði stefnumótunar og miðlunar. Hún útskrifaðist sem arkitekt frá Arkitektaskólanum í Árósum árið 2004 og starfaði hjá Batteríinu arkitektum um árabil en rak einnig eigin stofu í nokkur ár. Frá 2013 hefur hún starfað bæði hjá borg og ríki, með viðkomu á skipulagssviði Árósarborgar sem verkefnastjóri og arkitekt ásamt því að hafa bætt við sig gráðu í opinberri stjórnsýslu. Borghildur sat í stjórn Arkitektafélagsins og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs frá 2007 til 2012 ásamt því að vera formaður stjórnar Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs (þá Hönnunarmiðstöð Íslands) á árunum 2012 til 2013. Borghildur hefur tekið þátt í fjölda samkeppna og samstarfshópum m.a. um aukna fagþekkingu við uppbyggingu ferðamannastaða og er höfundur að leiðbeiningaritinu „Góðir staðir“ (2011).

Greipur Gíslason starfar sem sjálfstæður ráðgjafi en hefur um árabil verið einn reyndasti hátíðaskipuleggjandi landsins. Hann var fyrsti stjórnandi HönnunarMars og tók þátt í að byggja upp og stjórna hátíðinni fyrstu 6 árin og sat síðar í stjórn hennar. Greipur var einn þeirra sem kom að stofnun Aldrei fór ég suður - rokkhátíð alþýðunnar og var rokkstjóri hátíðarinnar fyrstu þrjú árin. Hann er stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið, framleiddi Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, starfaði við Listahátíð í Reykjavík og hefur komið að mörgum smærri og stærri viðburðum. Samhliða störfum sínum fyrir HönnunarMars kom Greipur að margvíslegum verkefnum hjá Hönnunarmiðstöð, meðal annars stofnun Hönnunarsjóðs.
Borghildur og Greipur eru boðin innilega velkomin til starfa og forverum þeirra, Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur fráfarandi formann og Steinunni Völu Sigfúsdóttur eru færðar bestu þakkir fyrir frábær störf fyrir Hönnunarsjóð og samfélag hönnuða og arkitekta.