Skýrslur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og HönnunarMars aðgengilegar

Skýrsla Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs fyrir starfsárið 2024-2025 er komin út og aðgengileg á netinu. Fjallað er um helstu verkefni Miðstöðvarinnar, HönnunarMars, Hönnunarsjóð, Hönnunarverðlaunin, Feneyjatvíæringinn í arkitektúr, alþjóðleg verkefni og ýmislegt fleira.
Í ávarpi frá Loga Einarssyni menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra í skýrslunni segir m.a. að aukin verðmætasköpun og samkeppnishæfi Íslands til framtíðar byggi ekki síst á því að okkur takist í auknum mæli að virkja hugvitið; finna leiðir til að skapa meiri verðmæti úr grunnauðlindum okkar en einnig að þróa nýjar og áður óþekktar lausnir. Slíkt krefjist náins samstarfs milli stjórnvalda, atvinnulífs, hönnuða og menntakerfisins.
„Það er hlutverk stjórnvalda að skapa ákjósanleg skilyrði fyrir skapandi greinar: með menntun, rannsóknum, fjárfestingu í nýsköpun, styrkjum og virku samtali við fagfólk. En einnig með stuðningi við Hönnunarmiðstöð Íslands. Hún gegnir stóru hlutverki í þessu gangverki; sem tengiliður, hreyfiafl og þekkingarsetur. Miðstöðin stuðlar að vitundarvakningu um mikilvægi hönnunar og eflir tengsl skapandi greina við samfélagið í heild,“ segir Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra m.a. í nýútkominni skýrslu um starfsemi Miðstöðvarinnar.
HönnunarMars 2025
Skýrsla um HönnunarMars 2025 er einnig komin út og aðgengileg á netinu. Fjallað er um helstu viðburði og sýningar hátíðarinnar, bakhjarla, kynningarmál, nýbreytni í ár og helstu atriði í framkvæmdinni en síðasti HönnunarMars var sá 17. í röðinni.
„Síðustu ár höfum við lagt mikla áherslu á að lykilviðburðir HönnunarMars njóti sín sem best. Við vonumst til þess að hátíðin veiti almenningi betri sýn inn í fjölbreyttan heim hönnunar og arkitektúrs, dýpki umræðu um þessi svið í samfélaginu og haldi á lofti dýrmætum tengingum hönnuða við atvinnulífið,“ segir m.a. í ávarpi Helgu Ólafsdóttur stjórnanda HönnunarMars.
„Hátíðin í ár var glæsileg, lifandi, litrík! Á heimsmælikvarða. Úrval fremstu hönnuða, arkitekta og skapandi hugsuða samtímans veittu bæði almenningi og gestum úr heimi hönnunar, tækni og viðskipta innblásturs,“ Salóme Guðmundsdóttir, fráfarandi stjórnarkona HönnunarMars.