Farmers Market hanna Mottumars sokkana 2022

1. mars 2022
Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson, Farmers Market. Mynd/Motturmars.is

Mottumars sokkarnir í ár eru hannaðir af Farmers Market, íslenskt hönnunarfyrirtæki, stofnað 2005 af hjónunum Bergþóru Guðnadóttur hönnuði og Jóel Pálssyni tónlistarmanni. Sokkarnir eru prýddir símynstri og vísar í mynstur í prjóni, vefnaði og útsaumi frá fyrri tímum.

Sjálfbærni, notagildi og virðing fyrir umhverfinu eru leiðarstef fyrirtækisins en fatnaðurinn hentar við fjölbreytt tilefni, útivist til jafns við borgarlíf.

„Við staðsetjum okkur á krossgötum, skurðpunkti þar sem fortíð mætir nútíð, hið þjóðlega mætir hinu alþjóðlega og sveitin mætir borginni. Okkur þykir spennandi að bræða saman þessa heima. Leiðarstefið í hönnun hjá okkur í Farmers Market - Iceland er tílvísun í norræna arfleið og rætur. Að þessu sinni fengum við að víkja aðeins frá hefðbundu björtu litunum sem einkennt hafa sokkana undanfarin ár og gera aðeins dempaðaðri útgáfu.“ segir Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður.

Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Í ár er sérstaklega verið að minna karlmenn á að kynna sér og þekkja hvaða einkenni geta bent til krabbameins og hvetja þá til að leita fljótt til læknis verði þeir varir við slík einkenni. Slagorð átaksins í ár er ,,Þú ert eldri en þú heldur“ og byggir á því sem margir karlar geta líklega tekið undir -nefnilega að upplifa að þeir séu enn það ungir að þeir þurfi ekki að huga sérstaklega að heilsufari sínu. 

Sokkarnir verða til sölu út marsmánuði og hér er hægt að sjá alla sölustaði víðsvegar um landið.

Mynstrið samanstendur af nokkrum mynsturborðum og eyðum inná milli sem mynda grunninn. Þessar eyður eru mikilvægur hluti af mynstrinu ekki ósvipað þögnum í tónlist. Ef vel er að gáð má sjá að í eyðunum leynist annað mynstur - hjörtu sem kallast skemmtilega á við hin norrænu stef og mynda mynstrin þannig eina samofna heild.

Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður

Dagsetning
1. mars 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fatahönnun
  • Mottumars