Hanna Dís á Helsinki Design Week

7. september 2022
Hanna Dís og Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki

Hönnuðurinn Hanna Dís Whitehead tók þátt í Design Diplomacy viðburði á Helsinki Design Week í íslenska sendiráðinu í Helsinki. Samhliða viðburðinum var sýning á verkum Hönnu Dísar í nýju galleríi, Gallerie Käytävä, í sendiráðsbústaðnum. Hanna Dís mætti finnska rýmishönnuðinum Kaisa Karvinen fyrir fullum sal gesta í þar tilgerðum spurningarleik. 

Design Diplomacy er viðburður þar sem gestum gefst tækifæri til að hlusta á hönnuði frá sitthvoru landinu bera saman bækur sínar og ræða hönnunartengd málefni út frá sérsniðnum spurningarspjöldum, sniðin að því að kveikja forvitnilegar umræður. Konseptið hefur einnig tengt anga sína til Íslands þar sem það hefur verið á dagskrá HönnunarMars hátíðarinnar síðustu ár.

Viðburðurinn fór fram í íslenska sendirráðsbústaðnum í Helsinki sem var hannaður af Lars Sonck og Onni Törnqvist og hefur verið heimili íslenska sendiherrans frá árinu 1999. Þar hefur nú verið opnað lítið mini gallerý þar sem listafólki og hönnuðum sem eiga leið um býðst að sýna. Sýningarstjóri er Ásthildur Jónsdóttir en Hanna Dís er sú fyrsta í röðinni til að sýna í galleríinu og stendur sýning hennar fram yfir Helsinki Design Week. 

Dagsetning
7. september 2022