Védís Jónsdóttir hannar FO vettlinga í nýrri herferð UN Women

Prjónahönnuðurinn Védís Jónsdóttir hannar FO varning ársins sem eru vettlingar framleiddir af Varma. Vettlingarnir eru 100% merínóull og fara í sölu í dag. Í ár styrkir herferðin hinsegin verkefni UN Women út um allan heim. 

„UN Women er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem berst fyrir réttindum og málefnum hinsegin fólks um allan heim, enda verður jafnrétti ekki náð nema með jöfnum réttindum allra hópa. Mikið bakslag hefur orðið í réttindabaráttu hinsegin fólks á síðustu árum, þ.m.t. innan Sameinuðu þjóðanna, þar sem aðildaríki takast á um þessi málefni. Víða býr hinsegin fólk við gríðarlega mismunun, skert réttindi og ofbeldi sökum kyns og kynhneigðar. Það er því gríðarlega mikilvægt að UN Women standi áfram vörð um velferð og réttindi hinsegin fólks á tímum sem þessum,“ segir í tilkynningu. 

Védís lagði mikið upp úr því að engin hlið á vettlingunum væri eins, sem tákn fyrir fjölbreytileikann sem herferðin styður við. 

Vettlingarnir kosta 4.900 krónur, eru úr hundrað prósent merínó ull og koma í tveimur stærðum (S/M og M/L). Herferðin ór i loftið sem fyrr segir í dag með ljósmyndum eftir Önnu Maggý.

Tögg

  • Greinar
  • Textílhönnun