Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. 

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara. 

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun.

Hönnunarverðlaunin hafa frá upphafi verið veitt þvert á ólíkar greinar hönnunar og arkitektúrs. Með því að fjölga verðlaununum skapast tækifæri til að verðlauna ólíkar áherslur og um leið fjölga tilnefningum og verðlaunahöfum. Breytingin er unnin í nánu samstarfi við bakland Miðstöðvarinnar.

Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin þurfa að endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.  

Hönnunarverðlaun Íslands - flokkar

Vara no. kvk. varningur sem er framleiddur og gengur kaupum og sölum*

Með verðlaunaflokknum vara er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem hafa verið framleidd. Til greina koma margvíslegir hlutir úr ólíkum efnum, flíkur, húsgögn, prentgripir, leir, textíll, skart eða þjónusta.

Staður no. kk. staðsetning í rúmi þar sem eitthvað er*

Með verðlaunaflokknum staður er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem eiga sér sinn stað í rúmi. Til greina koma fjölbreytileg rými, byggingar, hverfi, torg, garðar og áningarstaðir. 

Verk no. hk. eitthvað sem unnið er eða framkvæmt, viðfangsefni, iðja*

Með verðlaunaflokknum verk er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem hafa verið framkvæmd. Til greina koma margvíslegar hugmyndir, miðlun, upplifun, sýningar og lausnir.

*Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn 2015 og er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands voru veitt í fyrsta skiptið árið 2019 og er viðurkenning veitt einstaklingi sem hefur náð einstökum árangri í starfi, verið mjög áhrifamikill á sínu fagsviði eða hefur skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. 

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn ÍslandsListaháskóla ÍslandsÍslandsstofu, Samtök iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Hönnunarverðlaun Íslands

Plastplan

Starf hönnunarstofunnar og plastendurvinnslunnar Plastplans hefur frá stofnun þess árið 2019 einkennst af sköpunargleði, tilraunamennsku, úrræðasemi og óbilandi hugsjón. Plastplan hefur á þessum þremur árum tekist á við að raungera hringrás plastefna með því að taka það sem til fellur af plasti frá fyrirtækjum innanlands og þróa og framleiða úr því ný og falleg verk, ýmist fyrir sína eigin vörulínu, eða nytjahluti fyrir fyrirtækin sem Plastplan er í samstarfi við. Innviða- og húsgagnahönnun þeirra fyrir Höfuðstöðina, sem er listasafn og menningarsetur byggt í kringum Chromo Sapiens, verk Shoplifter Art / Hrafnhildar Arnardóttur, er einstaklega vel heppnað í viðleitni sinni til að skapa fjölnota umgjörð sem hvorttveggja endurspeglar verk Shoplifters og flæðir samhliða þeim á eftirtektarverðan hátt.

Áhrif Plastplans mælast ekki aðeins í afköstum véla þeirra því það er hugsjón þeirra sem leiðir för og hefur áhrif á starf fyrirtækja og hönnuða vítt og breitt. Plastplan hefur lagt ríka áherslu á samfélagsfræðslu og sífellt fleiri samstarfsaðilar verða til fyrir vikið, sem hafa nú tileinkað sér endurvinnslu í eigin ranni. Allir vilja gera betur og breyta rétt.  Oft hefur skort staðfærð, innlend úrræði þegar endurvinnsla og framleiðsla er í sívaxandi mæli í höndum aðila eða fyrirtækja erlendis, og ferlið þannig úr höndum neytandans og þar af leiðandi að stórum hluta ósýnilegt. 

Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands veitir Plastplan Hönnunarverðlaun Íslands 2022 fyrir hugsjón sína, hönnun og stuðning við efnahringrásina. Ekki aðeins fyrir það sem er gert vel, heldur einnig það sem er gert rétt.

Fréttir

Myndband

Tilnefningar

Dvergsreitur er blönduð byggð í hjarta Hafnarfjarðar sem nýverið var lokið við byggingu á. Reiturinn er höfundum sínum, verkkaupa og sveitarfélaginu, til mikils sóma og þar er þétting byggðar vel heppnuð. Í verkefninu er fallega unnið með umfang og form nærliggjandi húsa og haganlega sköpuð rými eru á milli bygginganna, þrátt fyrir mikinn þéttleika. Efnisval er nútímalegt, en vísar í nærliggjandi hús og minnkar sýnilega stærðarskölun með markvissri notkun breytileika í efnisvali. Þegar betur er að gáð er leikur að formum húsanna og jafnvel árekstur, sem gefur þeim kæruleysislegt, ef ekki hreinlega gamansamt yfirbragð.

 Áður stóðu verksmiðjuhús Dvergsins á reitnum. Lögð var áhersla á að nýbyggingar á lóðinni væru hannaðar með þeim hætti að þær féllu sem best að fíngerðara útliti nærliggjandi byggðar. Markmið hönnunarinnar var að skapa eins konar þorpsanda, ramma fyrir hlýlegt mannlíf, sem bæði íbúar sem hafa eigið viðverusvæði í skjólgóðum húsagarði fjær götunum og gestir sem sækja verslun og þjónustu á jarðhæðunum, geta notið.

Fréttir

Edda er nýtt hús íslenskunnar, sem stendur á Melunum í Reykjavík. Byggingin er einkennandi og áhrifamikil. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu. Bygging Eddu á sér langan aðdraganda og sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa mikilvægu og metnaðarfullu byggingu, sem markar tímamót fyrir miðlun menningararfs á Íslandi, rísa í borginni. 

Edda var vígð á vormánuðum og er ný lykilbygging í íslensku samfélagi, sem geymir handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings og ferðafólks að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.

Fréttir

Hlöðuberg er einstakt heimili og vinnustofa listamanns á Skarðsströnd við Breiðafjörð. Húsið er hannað með virðingu fyrir sögu, staðaranda, náttúru og umhverfi að leiðarljósi. Forsendur hönnunarinnar skína í gegnum allar lausnir í verkinu, svo úr verður hús með skýr útlitseinkenni sem skapar einstakan staðaranda. Endurnýting og hagkvæmnisjónarmið ráða öllu efnisvali, en verkefnið er mjög í anda nýjustu strauma í arkitektúr og byggingarlist þar sem endurnýting efna og umhverfissjónarmið eru allsráðandi.

Arkitektastofan Studio Bua endurhannaði steinsteypta hlöðu í bjart og nútímalegt heimili og vinnustofu á Hlöðubergi. Form hússins er bárujárnsklæddur skáli sem stendur á upprunalegri steinsteyptri neðri hæð. Einkennandi fyrir verkið er að veggir gamallar hlöðu hafa verið endurnýttir og efri hæð er byggð ofan á þá. Innra skipulag er einfalt, stílhreint og haganlega leyst svo úr verða fjölbreytt rými og hús sem er stærra að innan en það virðist að utan. 

Fréttir

Vegrún er nýtt íslenskt merkinga- og leiðakerfi sem er opið öllum til notkunar og sérstaklega hannað til að falla vel að náttúru Íslands. Vegrún er kerfi sem tekur mið af ólíkum þörfum og aðstæðum á hverjum stað, hvort sem um er að ræða lifandi vöktunar- og upplýsingakerfi í Reynisfjöru, aðgangsstýringu að Kirkjufelli eða sveigjanlegar merkingar fyrir eldgosin á Reykjanesi. Vegrún er er gott dæmi um afrakstur þaulhugsaðrar hönnunar, samræmt merkingakerfi innblásið af litbrigðum íslenskrar náttúru og veðurfari, sem fellur vel að fjölbreytilegu umhverfi landsins. Letrið er íslenskt og sérhannað og leitast er við að nýta íslenskan efnivið eins og kostur er. Vegrún er umfangsmikið og mikilvægt verkefni, leyst á næman og faglegan hátt, þar sem hugað hefur verið að hverju smáatriði sem skilar sér í fallegri, sannfærandi og heildstæðri lausn.

Merkinga- og leiðakerfið Vegrún er þverfaglegt hönnunarverkefni unnið á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Verkið er unnið af hönnunarstúdíóinu Kolofon ásamt breiðum hópi hönnuða og sérfræðinga með það að markmiði að hvetja til góðrar umgengni við náttúru og auka öryggi ferðafólks með sveigjanlegu, samræmdu og gagnlegu leiðakerfi, sem er opið öllum til afnota alls staðar á landinu.

Fréttir

Jarðsetning er margslungið verk sem segir einstaka sögu byggingar og hvernig væntingar og módernísk sýn á borgarþróun öðlast nýja merkingu þegar fram líða stundir. Byggingin missir tilgang sinn, það mistekst að finna henni nýtt hlutverk í samtímanum og hún er dæmd úr leik. 

Höfundur miðlar efninu með gjörningi, innsetningu, kvikmynd og loks bók. Í kvikmyndinni mæta áhorfendur afli vélarinnar og horfa hjálparvana upp á niðurrif byggingarinnar og tilheyrandi sóun hráefna með hversdagslíf borgarinnar í bakgrunni. Endalok byggingar á endastöð hugmynda um einnota byggingar, jarðsetning.

Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu reis á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda en rúmlega hálfri öld síðar fær byggingin dóm um að víkja fyrir nýjum byggingum með annað hlutverk. Með Jarðsetningu hefur Anna María Bogadóttir, arkitekt náð að skapa einstakt og áhrifamikið verk sem hefur náð að skapa áhugaverðar umræður í samfélaginu og vekja fólk til umhugsunar um arkitektúr og hlutverk hans í nútímanum og þörf fyrir breyttar áherslur, líftíma bygginga, endurnýtingu, umhverfissjónarmið og hringrásarhugsun. Nálgunin er listræn og fagleg en á sama tíma persónuleg svo útkoman höfðar til mjög breiðs hóps.

Fréttir

Pítsustund er verk, gjörningur og mjög áhugaverð tilraun sem sýnir hvernig hægt er með aðferðum hönnunar og á mjög skemmtilegan og eftirtektarverðan hátt að varpa ljósi á  nýtingu afgangsafurða og verðmæti þeirra. 

Pítsustund verk hönnunarstúdíósins Fléttu og textílhönnuðarins Ýrúrarí var fimm daga gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023, þar sem hönnuðirnir þæfðu ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og seldu viðskiptavinum eins og um venjulegar pítsur væri að ræða. Sviðsmynd verksins var byggð í kringum nálaþæfingarvél sem var í hlutverki pítsuofns en hönnuðirnir brugðu sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Leikgleðin var allsráðandi í verkinu hvort sem það sneri að grafískri hönnun matseðla, klæðnaði, sviðsetningu eða vörunni sjálfri. Sýningarrýmið, búðarrými á miðjum Laugavegi var með stórum aðgengilegum gluggum sem gerði gestum kleift að fylgjast með öllu ferlinu, þannig að áhorfandinn fékk góða innsýn í framleiðsluna sem yfirleitt fer fram á bak við luktar dyr.

Með verkinu Pítsustund tókst hönnuðunum að skapa eftirminnilega upplifun og um leið áhugaverða félagslega tilraun, sem vakti mikinn áhuga og ánægju hjá gestum og gangandi. Ullarpítsurnar slógu í gegn, ruku út og langar biðraðir mynduðust við sýningarstaðinn. Svo fór að allt hráefni kláraðist og hönnuðirnir náðu ekki að anna eftirspurn á meðan á þessari mögnuðu fimm daga pítsustund stóð.

Fréttir

Svífandi stígar er sérhannað stígakerfi sem ver náttúru fyrir ágangi og opnar hjólastólanotendum aðgengi að útivist.

Hönnun stíganna svarar brýnu kalli um styrkingu innviða í ferðaþjónustu og er leið til að uppfæra malarstíga með umhverfis- og samfélagslega ábyrgum hætti. Verkefnið er marglaga, í því mætist algild hönnun og náttúruvernd. Greiðara aðgengi að náttúru landsins hefur í för með sér heilsubót og meiri lífsgæði fyrir alla sem þess njóta. Stígarnir eru hannaðir með viðkvæmustu svæðin í huga; svo sem hraun, hverasvæði og mýrlendi án þess að undirlag stíganna verði fyrir hnjaski. 

Náttúruvernd er höfð að leiðarljósi við hönnun stíganna og við uppsetningu er stefnt að lágmarksraski svo stígana megi setja upp og fjarlægja án nokkurra ummerkja. Þá fylgir smíði þeirra reglugerð um algilda hönnun og tryggir þannig fólki sem notar hjólastóla aðgengi að ósnortinni náttúru. Möguleikar þessa hóps til útivistar eru oft takmarkaðir og stígarnir bæði fjölga þessum möguleikum og einfalda þá.

Hönnuðir Birgir Þ. Jóhannsson og Laurent Ney, Alternance slf. hafa með Svífandi stígum búið til einfalda og auðvelda lausn til að auðvelda öllum aðgengi að náttúrunni.

Fréttir

RANRA x Salomon er samstarf hönnunarstúdíósins RANRA við alþjóðlega útivistarmerkið Salomon um hönnun umhverfisvæns skófatnaðar.

Hönnuðirnir nálgast verkefnið út frá hugmyndafræði umhverfisverndar og sjálfbærni sem leggur línurnar fyrir efnisval og framleiðslu. Skórnir eru mjög eftirsóttir, unnir í anda „gorpcore“ tísku sem liggur á mörkum útivistar- og tískufatnaðar og höfða jafnt til þeirra sem vilja leggja áhersla á umhverfið en ekki síður hinna sem eru ekki svo meðvitaðir um það. Nýstárleg efnisnotkun, faglegt og einstakt handbragð og fagurfræði RANRA skín í gegn með áherslu á náttúrulitun, endurunnin og endurnýtanleg hráefni. Kynningarefni vörunnar í vakti mikla eftirtekt en þar var skórinn settur fram á gamansaman hátt með skírskotun í Skandinavískar matarhefðir, jarðveg, menn og dýr. 

Ranra er hönnunarstofa Arnars Más Jónssonar og Luke Stevens í London og Reykjavík sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði sem er hannaður fyrir náttúruna og borgarumhverfið. Samstarf RANRA við útivistarmerkið Salomon hófst árið 2022 og hefur vakið heimsathygli. Þetta er í annað sinn sem RANRA hannar Cross Pro skóna sem Salomon framleiðir. 

Fréttir

Loftpúðinn er ný vara sem Stúdíó Flétta hannaði fyrir Fólk Reykjavík. 

Loftpúðinn er dæmi um nýsköpun þar sem hugað er að hringrásarhagkerfi við hönnun vörunnar. Rusli frá iðnaði sem áður var hvorki hægt að selja eða nýta er umbreytt í sterka, fjölnota púða. Púðarnir eru 96% endurunnir og eina nýja hráefnið er í reiminni og handfanginu. Flétta hugsar alla leið í endurvinnslunni - sem minnst er átt við efniviðinn og hægt er að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur.

Hönnunarstofan Flétta var stofnuð árið 2018 af vöruhönnuðunum Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur sem hafa frá stofnun einbeitt sér að hringrásavænni hönnun á einstaklega skapandi hátt. Púðarnir voru hannaðir í samstarfi við hönnunarfyrirtækið FÓLK árið 2020 fyrir vörulínu þeirra, Hringrásarvæn hönnun, og gerðir úr notuðum loftpúðum bíla sem að öðrum kosti hefðu farið til urðunar. Púðarnir eru fengnir frá Netpörtum, umhverfisvottaðri bílapartasölu. Fyllingarefnið er efni sem fellur til við dýnugerð og við framleiðslu á útivistarfatnaði 66° Norður. Púðarnir eru saumaðir hjá danskri saumastofu þar sem fólk sem á erfitt með að fóta sig í venjulegu starfsumhverfi vinnur. 

Loftpúðinn er gott dæmi um raunbirtingu nýs hugsunarháttar sem nú er að taka við í hönnunargeiranum og möguleikana sem þar leynast.

Fréttir

Besta fjárfesting í hönnun

Fólk Reykjavík

Fólk Reykjavík var stofnað árið 2017 með það að markmiði að leiða saman hönnun og framleiðslu með áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna. Fyrirtækið notar náttúruleg og endurunnin hráefni eins og stein, málm, gler, pappír, vottað timbur úr sjálfbært nýttum skógum, endurunnið stál og endurunnin textíl. Úr þessum hráefnum hafa meðal annars verið hönnuð og framleidd borð, hillur, vasar, kertastjakar og ljós.

Góð íslensk hönnun hefur frá upphafi verið leiðarljós í rekstrinum. Dómnefnd telur að fyrirtækinu hafi tekist vel að sýna hverju hægt er að áorka með því að skapa vel hannaða og nytsamlega muni með sjálfbærni í huga. Á meðan framleiðsluferli og markaðssetning hafa gjarnan verið þrándur í götu sjálfstætt starfandi hönnuða hefur Fólk Reykjavík átt í farsælu samstarfi við ýmsa íslenska hönnuði, og þannig aukið vöruúrval sitt. Í vöruþróuninni er horft til sjálfbærni í framleiðslu og að vörurnar séu endingargóðar.

Fyrirtækið hefur haft jákvæð áhrif með fjárfestingum sínum í hönnun auk þess að vera hvatning fyrir önnur fyrirtæki að koma auga á möguleikana sem felast í samstarfi við góða hönnuði og að vinna með sjálfbærni og endurunnin hráefni.

Fyrirtækið hefur lagt traust sitt á íslenska hönnun með eftirtektarverðum og góðum árangri og því hlýtur Fólk Reykjavík viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun þetta árið.

Fréttir

Myndband

Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands

Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt

Reynir er brautryðjandi í landslagsarkitektúr á Íslandi og spor hönnunar hans og áhrifa liggja víða. Hann er meðal allra fyrstu íslensku landslagsarkitektanna og eftir hann liggja fjölmörg verk, allt frá skipulagi íbúðahverfa og umhverfishönnun innan þeirra, görðum, útivistarsvæðum og  leiksvæðum  til stærri umhverfisverka eins og snjóflóðavarnargarða. Reynir er  næmur  á hvernig móta má byggt umhverfi og landslag svo úr verði ein samfelld heild. 

Reynir er fæddur í Reykjavík árið 1934. Hann lauk garðyrkjunámi frá Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi árið 1953 og framhaldsnámi við Det kongelige haveselskabs anlægsgartnerskole 1955. Árið 1961 lauk hann prófi í landslagsarkitektúr frá Det Kongelige Kunstakademis Arkitektskole í Kaupmannahöfn. Reynir starfaði um tíma í Danmörku og við skipulagsstörf á Grænlandi. Þegar Reynir snéri heim til Íslands stofnaði hann fljótlega eigin stofu, Teiknistofu Reynis Vilhjálmssonar, árið 1963 en árið 1989 hóf hann rekstur á stofunni Landslagsarkitektar Reynir Vilhjálmsson og Þráinn Hauksson og var síðar stofnandi teiknistofunnar Landslags árið 1999. Í starfi sínu í Danmörku kynntist Reynir þverfaglegu samstarfi arkitekta, landslagsarkitekta og verkfræðinga og tileinkaði sér það í störfum sínum alla tíð.  

Við heimkomuna var Reynir í hópi sérfræðinga sem lögðu grunn að aðalskipulagi Reykjavíkurborgar, sem þá var unnið í fyrsta sinn, og kom einnig að skipulagi Árbæjarhverfis og Bakkahverfisins í Breiðholti. Reynir hefur á ríflega fjörutíu ára ferli verið grundvöllur græna svæða Reykjavíkurborgar og manneskjulegu og skjólgóðu umhverfi þar. Hann hefur mótað nokkur af helstu útivistarsvæðum borgarinnar; Elliðaárdalinn, Laugardalinn og Klambratún. 

Reynir hefur alla tíð verið atkvæðamikill í félagsstarfi og árið 1978 stofnaði hann ásamt fleirum Félag íslenskra landslagsarkitekta, FÍLA, og var fyrsti formaður þess. Reynir hefur verið lærifaðir margra landslagsarkitekta og annarra þeirra sem móta manngert umhverfi.   

Í verkum sínum hefur Reynir ávallt  veitt athygli þeim fjölmörgu atriðum sem tryggja gæði   manngerðs umhverfis;  m.a. hugað að vindum og veðri, aðgengi barna að leik- og útisvæðum og tengslum einkasvæða við almenningssvæði. Í fyrstu skipulagsverkunum sem Reynir kom að var lagður grunnurinn að þeim grænu svæðum sem enn prýða borgina. Reynir hefur unnið með fjölda arkitekta að þróun garða og umhverfis bygginga og haft þar afgerandi áhrif á gæði þess umhverfis sem borgarlandslagið býður upp á. Þar hefur áherslan alltaf verið á bygginguna, landslagið og umhverfið sem eina heild, þar sem innra og ytra rými spila saman. Þá eru verk eins og Þjóðarbókhlaðan lifandi dæmi um hönnun Reynis, getu hans til að búa til áhugaverð og óvænt rými í stærra samhengi umhverfis sem mótað er úr grjóti, tröðum og gróðri. Á hinum enda skalans má nefna snjóflóðavarnargarðana á Siglufirði. Þeir eru  dæmi um landslagsinngrip, sem  sýna um leið bæði landi og aðstæðum virðingu og opna á nýja möguleika til að nýta landið og umhverfið. 

Reynir var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2010 fyrir frumherjastörf við skipulag og mótun umhverfis. Þá hafa verk hans unnið til verðlauna á alþjóðavísu, m.a. voru snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði tilnefndir árið 2003 til evrópskra verðlauna í landslagsarkitektúr, Barba Rosa-European Landscape Prize en garðarnir hlutu þar sérstaka viðurkenningu. 

Reynir er frumkvöðull á sviði landslagsarkitektúrs á Íslandi og hefur haft mikil áhrif á íslenskt borgarlandslag og skipulag sem við munum njóta um ókomna tíð. 

Fréttir

Myndband

Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2023

  • Sigríður Sigurjónsdóttir

    formaður dómnefndar Hönnunarverðlauna Íslands
  • Þorleifur Gunnar Gíslason

    grafískur hönnuður, FÍT
  • Margrét Kristín Sigurðardóttir

    Almannatengsla - og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins.
  • Eva María Árnadóttir

    Fatahönnuður og sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar við Listaháskóla Íslands
  • Guðrún Sóley Gestsdóttir

    Dagskrágerðakona og menningarýnir
  • Halldór Eiríksson

    Arkitekt og eigandi TARK
  • Erling Jóhannesson

    Gullsmiður og forseti BÍL
  • Tor Inge Hjemdal

    Arkitekt og framkvæmdastjóri DOGA