Hlöðuberg tilnefnt sem staður ársins - Hönnunarverðlaun Íslands 2023

12. október 2023

Hlöðuberg eftir Studio Bua er tilnefnt í flokknum staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.

Rökstuðningur dómnefndar:
Hlöðuberg er einstakt heimili og vinnustofa listamanns á Skarðsströnd við Breiðafjörð. Húsið er hannað með virðingu fyrir sögu, staðaranda, náttúru og umhverfi að leiðarljósi. Forsendur hönnunarinnar skína í gegnum allar lausnir í verkinu, svo úr verður hús með skýr útlitseinkenni sem skapar einstakan staðaranda. Endurnýting og hagkvæmnisjónarmið ráða öllu efnisvali, en verkefnið er mjög í anda nýjustu strauma í arkitektúr og byggingarlist þar sem endurnýting efna og umhverfissjónarmið eru allsráðandi.

Arkitektastofan Studio Bua endurhannaði steinsteypta hlöðu í bjart og nútímalegt heimili og vinnustofu á Hlöðubergi. Form hússins er bárujárnsklæddur skáli sem stendur á upprunalegri steinsteyptri neðri hæð. Einkennandi fyrir verkið er að veggir gamallar hlöðu hafa verið endurnýttir og efri hæð er byggð ofan á þá. Innra skipulag er einfalt, stílhreint og haganlega leyst svo úr verða fjölbreytt rými og hús sem er stærra að innan en það virðist að utan. 

Um:
Studio Bua er arkitektastofa staðsett í London stofnuð árið 2017 af arkitektunum Sigrúnu Sumarliðadóttur og Mark Smyth. Stofan hefur unnið að fjölbreyttum metnaðarfullum verkefnum á sviði arkitektúrs. 

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara. 

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands. 

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
12. október 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Arkitektúr