Pítsustund er Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023

9. nóvember 2023

Pítsustund eftir Fléttu og Ýrúrarí er sigurvegari í flokknum Verk á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera frumlegt og gott dæmi um hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar með eftirminnilegri upplifun og áhugaverðri félagslegri tilraun. 

Rökstuðningur dómnefndar:
Pítsustund, verk Fléttu og Ýrúrarí er frumlegt og gott dæmi um það hvernig hönnun getur vakið fólk til umhugsunar um ábyrgð þess á umhverfinu með skemmtilegu og áhugaverðum hætti.

Pítsustund var fimm daga gjörningur haldinn á HönnunarMars 2023, þar sem hönnuðirnir þæfðu ullarpítsur úr afgöngum frá íslenskum ullariðnaði og seldu viðskiptavinum eins og venjulegar pítsur. Sviðsmynd verksins var byggð í kringum nálaþæfingarvél sem var í hlutverki pítsuofns en hönnuðirnir brugðu sér í hlutverk bakara og afgreiðslufólks. Leikgleðin var allsráðandi í verkinu; grafískri hönnun matseðla, klæðnaði, sviðsetningu og vörunni sjálfri. Sýningarrýmið var með stórum aðgengilegum gluggum sem gerði gestum kleift að fylgjast með ferlinu.

Hönnuðunum, Birtu Rós Brynjólfsdóttur, Hrefnu Sigurðardóttur og Ýr Jóhannsdóttur, tókst að skapa eftirminnilega upplifun og um leið áhugaverða félagslega tilraun, sem vakti mikinn áhuga og ánægju hjá gestum og um leið sýna fram á þá miklu möguleika verðmætasköpunar sem felast í betri nýtingu afgangsafurða og vekja máls á þeirri sóun sem á sér stað í textíliðnaði.

Ullarpítsurnar slógu í gegn, ruku út og langar biðraðir mynduðust. Allt hráefni kláraðist og hönnuðirnir náðu ekki að anna eftirspurn á meðan á þessari fimm daga pítsustund stóð.

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 9. nóvember er þetta er tíunda árið í röð sem verðlaunin eru veitt. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.   

Það var Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, sem veitti þeim Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Ýrúrarí, Ýr Jóhannsdóttur, verðlaunin. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.

Dagsetning
9. nóvember 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög
  • Hönnunarverðlaun Íslands