Loftpúðinn er Vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023

9. nóvember 2023

Loftpúðinn eftir Fléttu fyrir FÓLK Reykjavík er sigurvegari í flokknum Vara á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 fyrir að vera nútímalegir, einstakit og fallegir auk þess að vera frábært dæmi um nýskapandi hönnun með áherslu á hringrás.

Rökstuðningur dómnefndar
Loftpúðinn frá Stúdíó Fléttu er frábært dæmi um nýskapandi hönnun með megin áherslu á hringrás. Iðnaðarrusli sem áður var hvorki selt né nýtt er breytt í fjölnota púða sem eru 96% endurunnir. Hugað er að öllu ferli endurvinnslu, lítið átt við efniviðinn og auðvelt að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur.

Stúdíó Flétta eru vöruhönnuðurnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sem vinna að hringrásavænni hönnun á einstaklega skapandi hátt. 

Loftpúðinn er hannaður í samstarfi við og fyrir FÓLK Reykjavík, gerðir úr notuðum loftpúðum bíla sem að öðrum kosti hefðu verið urðaðir. Púðarnir eru frá Netpörtum, umhverfisvottaðri bílapartasölu. Fyllingarefnið fellur til við dýnugerð og framleiðslu útivistarfatnaðar 66° Norður. Púðarnir eru saumaðir hjá danskri saumastofu þar sem starfar fólk sem á erfitt með að fóta sig í venjulegu starfsumhverfi.

Útlit púðanna er nútímalegt, einstakt og fallegt. Einstakt samstarf Fléttu og FÓLKS, gleður ekki bara augað heldur felst í því hvatning til að hugsa lengra og leita dýpra að möguleikum til endurnýtingar í heimi þar sem kallið eftir hringrásarvænni hönnun verður sífellt háværara.

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 9. nóvember er þetta er tíunda árið í röð sem verðlaunin eru veitt. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.   

Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.

Dagsetning
9. nóvember 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Fagfélög