Loftpúðinn tilnefndur sem vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023

20. október 2023

Loftpúðinn eftir Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur fyrir Fólk Reykjavík er tilnefndur í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023. 

Rökstuðningur dómnefndar:
Loftpúðinn er ný vara sem Stúdíó Flétta hannaði fyrir Fólk Reykjavík. 

Loftpúðinn er dæmi um nýsköpun þar sem hugað er að hringrásarhagkerfi við hönnun vörunnar. Rusli frá iðnaði sem áður var hvorki hægt að selja eða nýta er umbreytt í sterka, fjölnota púða. Púðarnir eru 96% endurunnir og eina nýja hráefnið er í reiminni og handfanginu. Flétta hugsar alla leið í endurvinnslunni - sem minnst er átt við efniviðinn og hægt er að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur.

Hönnunarstofan Flétta var stofnuð árið 2018 af vöruhönnuðunum Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur sem hafa frá stofnun einbeitt sér að hringrásavænni hönnun á einstaklega skapandi hátt. Púðarnir voru hannaðir í samstarfi við hönnunarfyrirtækið FÓLK árið 2020 fyrir vörulínu þeirra, Hringrásarvæn hönnun, og gerðir úr notuðum loftpúðum bíla sem að öðrum kosti hefðu farið til urðunar. Púðarnir eru meðal annars fengnir frá Netpörtum, umhverfisvottaðri bílapartasölu. Fyllingarefnið er efni sem fellur til við framleiðslu á útivistarfatnaði 66° Norður. Púðarnir eru saumaðir hjá danskri saumastofu þar sem fólk sem á erfitt með að fóta sig í venjulegu starfsumhverfi vinnur. 

Loftpúðinn er gott dæmi um raunbirtingu nýs hugsunarháttar sem nú er að taka við í hönnunargeiranum og möguleikana sem þar leynast.

Um:
Birta Rós Brynjólfsdóttir
útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með B.A. í vöruhönnun árið 2016 en er nú stödd í mastersnámi í samtímahönnun við AAlto University í Helsinki. 

Hrefna Sigurðardóttir útskrifaðist frá Háskóla Íslands með B.S. í iðnaðarverkfræði árið 2013 og með B.A. í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Áður hafði hún stundað nám í keramiki við Myndlistaskólann í Reykjavík.  

Hönnunarstofan Flétta var stofnuð í byrjun árs 2018. Flétta leggur áherslu á endurnýtingu hráefna með handgerðum og vönduðum vörum. Umfjöllun um verk Fléttu hefur birst í fjölda hönnunarmiðla og tímarita eins og dezeen, Frame, Icon, Bobedre, Monocle, ElleDecor, Vogue Business og Design Wanted.

Hönnunarverðlaun Íslands 2023 og samtal þeim tengt fer fram þann 9. nóvember í Grósku. Taktu daginn frá!

Nú höfum við lokið við að tilkynna allar níu tilnefningarnar til Hönnunarverðlauna Íslands og óskum við höfundum þessara framúrskarandi - staða, verka og vara - innilega til hamingju. Kynntu þér tilnefningarnar hér. 

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara. 

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands. 

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
20. október 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun
  • Hönnunarverðlaun Íslands