Þykjó tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2021

9. október 2021

Hönnunarverkefnið Þykjó eftir hönnuðina Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Sigurbjörgu Stefánsdóttir og Erlu Ólafsdóttur hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Nú er búið að tilkynna allar fimm tilnefningar til verðlaunanna í ár. Afhendinga og málþing því tengt fer fram í Grósku þann 29. október næstkomandi. Takið daginn frá!

Í umsögn dómnefndar segir: 

Þykjó er hönnunarverkefni, unnið af þverfaglegu teymi hönnuða sem samnýta ólíka sérþekkingu sína í textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnun. Hugmyndafræði þeirra gengur út á að búa til umhverfi, leikrými og upplifun sem örvar ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik. 

Í allri nálgun Þykjó er lagt upp með að nýta afgangsefni, innlenda fagþekkingu og tækjabúnað. Þar fer saman vel heppnuð samþætting rýmis, hönnunar og skynjunar og þverfaglegt samstarf milli skapandi fólks og sérfræðinga – hvort sem um er að ræða í handverki eða vísindum. Marglaga nálgun er unnin í samtali við börn og er ætlað að skapa umhverfi sem leikur með skynjun í víðum skilningi og er mótað á þeim skala sem börn geta skilið og tileinkað sér. 

Listræn stjórnun: Blóð Stúdíó

Um verkefnið

ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar. ÞYKJÓ er hópur hönnuða með fjölbreyttan bakgrunn sem samnýta ólíka sérþekkingu í teymisvinnu sinni. Innan vébanda ÞYKJÓ eru arkitekt, fatahönnuður og klæðskeri, leikmynda- og búningahönnuður. Hópurinn vinnur einnig náið með listafólki, vísindafólki og síðast en ekki síst - með börnum. 

Í vöruþróunar- og framleiðsluferli sínu, leggja hönnuðirnir upp úr að nýta innlenda fagþekkingu og tækjabúnað úr fjölbreyttum iðngreinum; allt frá fléttun tága, til neta- og burstagerðar. Allt þetta miðar að því að halda staðbundinni framleiðslu, nýta hráefni sem fellur til og viðhalda verkþekkingu. 

UM HÖNNUÐINA

Sigríður Sunna Reynisdóttir er stofnandi og listrænn stjórnandi ÞYKJÓ. Hún er með fjölbreyttan bakgrunn í hönnun, dagskrárgerð og verkefnastjórnun. Sigríður Sunna útskrifaðist vorið 2012 frá Royal Central School of Speech and Drama í London af sviðshöfunda og brúðleikhúsbraut (BA Theatre Practice), en áður hafði hún lokið prófi í Almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og Universitá Karlová í Prag. 

Ninna Þórarinsdóttir er barnamenningarhönnuður sem sérhæfir sig í myndskreytingum og leikfangahönnun. Ninna útskrifaðist með BA Honors í hönnun frá Design Academy Eindhoven í Hollandi árið 2006 og svo árið 2015 með MA í barnamenningarhönnun frá HDK í Gautaborg, Svíþjóð. 

Sigurbjörg Stefánsdóttir er fatahönnuður og klæðskeri. Sigurbjörg nam fatahönnun og sníðagerð við London Collage of Fashion, en áður hafði hún lokið sveinsprófi í Kjólasaum frá Tækniskólanum í Reykjavík. Hún hefur m.a. starfað við búningagerð fyrir Royal Opera House í London, Íslensku Óperuna og Þjóðleikhúsið. 

Erla Ólafsdóttir er arkitekt. Hún lauk MA námi í arkitektúr frá Det Kongelige Danske Kunstakademis Skoler for Arkitektur, Design og Konservering í Kaupmannahöfn árið 2016. Erla hefur síðan starfað sjálfstætt auk þess að vinna fyrir studiohring, dap arkitekta og fleiri teiknistofur.

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Á afhendingunni verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun ársins 2021. 

Hér fyrir neðan er hægt að kynna sér tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Afhending fer fram þann 29. október í Grósku ásamt málþingi tengt verðlaunum. Nánari upplýsingar síðar en takið daginn frá. 

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
9. október 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Vöruhönnun
  • Fatahönnun
  • Arkitektúr