Hanna Dis Whitehead sýnir í Greenhouse á Stockholm Furniture Fair

31. janúar 2024

Hanna Dís Whitehead, hönnuður sýnir nýjar vörur á Stockholm Furniture Fair 6. - 10. febrúar. Hún verður í þeim hluta sýningarinnar sem nefnist Greenhouse - og er stökkpallur fyrir upprennandi hönnuði. Hanna Dís er að fara frumsýna nýja seríu af ílátum úr blönduðum efnivið auk nýrrar útgáfu af keramík snögunum sínum sem hafa stökkbreyst og stækkað.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem ég sýni á Stockholm furniture fair eða almennt á svona alþjóðlegri vörusýningu eins míns liðs. Eitt af markmiðum mínum var bara að kynna mig og verk mín fyrir stærri markhópi. Því langaði mig að sýna mismunandi aðferðir sem ég hef við að þróa í gegnum árin ásamt smá innsýn inn í nýja efniviði sem ég er að byrja vinna með.”

Að vinna með leir eins og við

Áður hefur Hanna aðallega notað við í húsgögn. Fyrir sýninguna ákvað hún að vinna minni verk nokkurkonar ílát eða kassa. Það var ákveðin áskorun.

„Ég reyndi virkilega að leggja mig fram að passa upp á smáatriðin, vanalega hefur viðurinn verið í aukahlutverki og leirinn í aðalhlutverki. I svona ílátum urðu efniviðirnir jafnari og ég fór eiginlega að koma svoldið fram við viðinn eins og leir. Það gekk ekki alltaf upp og ég lærði mikið á þessu. En það er það sem ég elska við að nota nýja efniviði hver og einn kennir þér eitthvað nýtt og ég læri með mikilli ánægju”

Vasi sem brosir allan hringinn

Ílátin eru sem fyrr segir að mestu úr við með smáatriðum aðalega úr keramík en einnig handlitaðari þæfðri íslenskri ull eða lögð með íslenskum hafrastráum. Þau eru sýna samspil og leik á milli efna, forma og aðferða á óvæntan máta.

Á sýningunni má t.d sjá ílát úr þæfðri ull sem minni á bútasaum, Viðar körfu með keramík handfangi, ílát með keramík slaufum sem eru notaðar sem handföng, lítið ílát sem leirblóm vaxa úr og strálagður skælbrosandi vasi.

„Strávasinn brosir vegna þess að það hefur gefið mér svo mikla gleði að uppskera strá síðustu þrjú árin. Það er hefur alltaf verið svo fallegt veður enda ekki hægt að taka þau ef það er allt blautt. Bændurnir hafa látið mig vita þegar kornið er orðið nógu þroskað og gullið. Svo er ég á einum enda akursins að klippa röð fyrir röð af stráum á meðan þeir eru á gríðarstórri vél hinum megin að vinna”

Umvafinn jöklum og vannýttum efniviðum

Hanna vinnur á mörkum listar, hönnunar og handverks og leitar oft í það að fara á milli mismunandi efniviða innan sama viðfangsefnis. Nýlega hefur hún byrjað að einbeita sér að efniviðum sem vaxa í kringum hana á Hornafirði umvafinn jöklum þar sem hún býr. Hún býr til alla hlutina sjálf þar.

„Ég hef verið að nota strá af mismunandi korntegundum t.d hafra og byggstrá en einnig ull af kindum hér. Það sem ég kann svo vel við í sambandi við þessi efni er að þau vaxa í kringum mig dag og nótt. Það er auðvelt að nálgast þau og þau eru enn sem komið er mjög vannýtt. Það er svo frábært að þurfa ekki að panta þau frá Reykjavík eða að utan.”

Ullin og stráin í  verkefninu eru fengin frá bænum Akurnesi, sem er í um 3 fjarlægð frá vinnustofunni hennar. Hanna Dís litar hvoru tveggja og vinnur frá grunni í nýtanlegan efnivið.

Rauð blómahilla sem vex á vegg

Snagarnir eru gerðir úr leir sem er pressaður í gegnum einskonar mót. Mótin gefa þeim öllum svipað yfirbragð en í kjölfarið er hver og einn sangi hand beygður og glerjaður. Það gerir þá alla að einstaka. Snagarnir hafa líka þróast útí hillur en ein þeirra er sýnd á sýningunni, sú lítur út eins og stakt rautt blóm sem vex útur veggnum. 

„Það eru blóm útum allt þegar ég kíki út um vinnustofugluggann, heilu hrúgurnar af bláklukkum eða einhver blóðbergs klessa að því virðist nánast vaxa á steini” 

Viðurinn í litlu hillunni og snagabrettinu sem er hluti af sýningunni kemur frá Skógarafurðum á Egilstöðum. Gullfalleg ösp og lerki. Hanna á meira af við þaðan sem hún er að fara vinna með í vor. Allur annar viður er úr Húsasmiðjunni á Höfn. 

„Ég vona alltaf að verkin mín gleðji- það er þeirra meginhlutverk.”

Um hönnuðinn

Hanna Dís Whitehead (1982) útskrifaðist frá Design Academy Eindhoven árið 2011. Verk hennar eru staðsett á landamærum hönnunar, listar og handverks. Ferlinu er leyft að ráða ferðinni og farið er á milli mismunandi efna svo sem viðar, textíls og keramíkur innan sömu hugmyndar. Hanna Dís hefur sérstakan áhuga á að vekja upp samtal á milli hluta og áhorfenda þar sem hún vefur saman sögum, formi, litum og teikningu. Hún býr og starfar á Hornafirði.

Um Stockholm Furniture Fair
Stockholm Furniture Fair í Stokkhólmi stendur yfir dagana 6.-10. febrúar. Sýningin fer fram árlega og laðar að sér arkitekta, hönnuði, innanhúsarkitekta, kaupendur og áhugafólk frá öllum heimshornum. Stockholm Furniture Fair er vettvangur fyrir viðskipti og tengslanet sem og kynningu á vörum og nýjum nýjungum.

Opnunartímar
Þriðjudagur 6. febrúar – föstudagur 9. febrúar, 9:00-18:00 (aðeins fyrirtæki)
Laugardagur 10. febrúar, 10:00-17:00 (viðskipti og almenningur)

Hanna Dís er á bás C05:53.

Um Greenhouse
Greenhouse er alþjóðlegur vettvangur Stockholm Furniture Fair fyrir hönnunarstjörnur morgundagsins eins og kemur fram á heimasíðu þeirra. Þar koma saman upprennandi hönnuðir, bæði sjálfstæðir og nemendur í hönnunarskólum, til að sýna skapandi og nýstárlegar vörur og hitta framtíðarfélaga, framleiðendur og fjölmiðla.

Hönnuðum alls staðar að úr heiminum er boðið að sækja um Greenhouse. Allar umsóknir eru metnar af dómnefnd sem samanstendur af virtu fólki úr hönnunarbransanum. Dómnefnd vinnur eftir kríteríum á borð við forvitni og nýsköpunar.

Húsgagnasýningin í Stokkhólmi inniheldur mikið úrval vörumerkja og sýnenda, þar af 80 prósent skandinavískra. Það gefst hönnuðum tækifæri til að sýna í faglegu umhverfi sem er vel sótt af bæði framleiðendum og fjölmiðlum.

Hanna Dís Whitehead
Dagsetning
31. janúar 2024
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir
Ljósmyndir
Sunna Ben

Tögg

  • Greinar
  • Hanna Dís Whitehead
  • Stockholm Furniture Fair