Hátíðarviðburðir hjá hönnuðum næstu daga

15. desember 2023

Jólin nálgast óðfluga og framundan eru fjölda viðburða fyrir öll. Hér er yfirlit yfir hönnunartengda viðburðadagskrá næstu daga. Góða skemmtun og gleðilega hátíð.

Hringrás X Helicopter

Þyri Huld Árnadóttir ásamt góðum hóp listakvenna, stendur fyrir góðgerðarviðburði í Ásmundarsal, laugardaginn 16. desember. Helga Lilja Magnúsdóttir / Helicopter, hannaði bol útfrá ljósmynd sem Saga Sig tók fyrir dansverkið og verður bolurinn til sölu á staðnum. Nýtt óútgefið lag eftir Urði Hákonardóttur úr verkinu fylgir kaupum á bolnum á þessum viðburði eingöngu.
Allur ágóði af sölunni rennur til UN Women, til hjálpar konum á Gaza. Að staðaldri eru tvær palestínskar mæður drepnar á hverri klukkustund í árásum Ísraelshers. 50.000 konur eru barnshafandi á Gaza þar af munu 5.500 fæða börn í desember án öryggis og aðhlynningar. 
Viðburðurinn er unnin í samstarfi við vel valin hóp dansara út frá dansverkinu Hringrás, sem frumflutt var í febrúar á þessu ári. Verkið hlaut tilnefningu til fernra grímuverðlauna og hreppti tvenn þeirra. Danssýning ársins og dansari ársins.

Viðburðurinn í Ásmundarsal fer fram á milli 16:00-18:00. 

Hafnar.Haus Holiday Market

Hafnar.Haus er komið í hátíðarskap og opnar húsið fyrir gestum og gangandi til að skoða og jafnvel kaupa list og verk, allt frá bókum, prentverkum, keramik, tónlist ofl. skapað af fólkinu inni í Hafnar.Haus.

Viðburðurinn fer fram laugardaginn 16. desember frá 12:00-16:00.

Dagskrá í Epal

Það er margt um að vera í verslun Epal á Laugavegi 7 fram að jólum, m.a. kynningar á íslenskri hönnun frá Brákarey og Spa of Iceland, ásamt því að Hugleikur Dagsson, Lóa Hjálmtýsdóttir og Linda Ólafsdóttir eru með Jólabasar þar sem þau selja ýmsan varning.

Dagskrá

15. desember, kl. 16:00-18:00: LÓA teiknar í Passamyndakassanum.

16. desember, kl. 13:00-14.30: LINDA teiknar í Passamyndakassanum til styrktar neyðaraðstoðar Barnaheilla fyrir börn á Gaza.

16. desember: Kynning frá Brákarey. Handgerðar ullarvörur fyrir lítil kríli.

20. desember: LINDA áritar bækur og teiknar baráttubókamerki fyrir gesti og gangandi milli kl.17-18.

22. desember: Hulli teiknar sérteikningar milli kl. 17-20.

Jólagestir Gallery Port

Jóla-samsýningin í Gallery Port, Jólagestir, fer nú fram í áttunda skiptið. Í ár tekur fjöldi listafólks þátt, vinir og vandamenn Portsins, og má þar finna bæði fulltrúa grasrótarinnar og svo margreyndari og eldri í hettunni.

Sýningin stendur til 6. janúar.

Hátíð í Kiosk Granda

Hönnuðir Kiosk eru komnir í hátíðarskap og taka á móti gestum og gangandi með konfekti, kaffi frá Sjöstrand og jólakokteil Kiosk. 

Kynnt verða til leiks ný hátíðardress og skartgripir.

Hjörleifur og Rán árita Álfa

Höfundar Álfa, Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring, árita Álfa í Eymundsson um helgina.

Laugardaginn 16. desember í Kringlunni frá 15:00-16:00.
Sunnudaginn 17. desember í Smáralind frá 14:00-15:00.

Jólabóka ~ glögg í Ásmundarsal

Þriðjudaginn 19. desember fer fram Jólabóka ~ glögg í Ásmundarsal frá kl. 20:00-22:00 þar sem hægt er að spjalla við rithöfunda um bókmenntir, daginn og veginn. Frábært tækifæri til að grípa áritaða bók beint frá höfundi til að lauma í jólapakkann og gera sér glaða stund í skammdeginu.

Í Gryfjunni er jafnframt starfrækt tímabundin bókaverzlun þar sem áhersla er lögð á að kynna nýjar bækur í bland við gamlar og rótgrónar bókmenntir. Gestir og gangandi geta því sótt sér innblástur í bækur í Ásmundarsal í huggulegu umhverfi og góðum félagsskap.

Höfundar sem taka þátt í Jólabóka ~ glögginu á þriðjudaginn eru:

Margrét Tryggvadóttir
Tómar R. Einarsson
Sigríður Hagalín
Sirry
Ólafur Jóhann
Auður Jónsdóttir
Aðalheiður Halldórsdóttir
Kristinn Óli 
Þorgerður Ólafsdóttir

Jólamarkaður í Höfuðstöðinni

Jólamarkaður Höfuðstöðvarinnar fer fram á Þorkláksmessu frá kl. 16:00-21:00.  Spennandi gjafavara verður til sölu frá ýmsum aðilum og hægt verður að staldra við í ys og þys dagsins og njóta augnabliksins yfir bolla af heitu kakói, jólaglöggi, ostabökkum, kökum og fleira. 

Dagsetning
15. desember 2023
Höfundur
Klara Rún Ragnarsdóttir

Tögg

  • Greinar