Hönnun - spegill á samtímann

28. janúar 2021

Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar — Stefnumótun og sjálfbærni hjá Landsvirkjun skrifar:

Það er nærtækt að hugsa um hönnun þegar kemur að mannvirkjagerð en hönnun er líka nýsköpun og aðferð til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs. Nýting náttúruauðlinda skiptir  velferð okkar Íslendinga miklu og fyrir vikið erum við ekki háð innfluttum orkugjöf til dæmis þegar kemur að húshitun. Annars staðar í heiminum er orkunotkun að mestu bundin við jarðefnaeldsneyti hvort sem að um ræðir samgöngur, húshitun, iðnað eða raforkuframleiðslu. Við vitum að aðgerðir í þágu loftslagsins eru aðkallandi og draga þarf úr losun kodíoxíðs  með öllum tiltækum ráðum. Þau nauðsynlegu orkuskipti sem fram undan eru gera nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda enn mikilvægari. Slík nýting getur gert mögulegt að framleiða vetni, og eða annað hreint eldsneyti, og finna þannig lausnir við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. 

Á hverjum tíma eru það aðstæður í samfélaginu, svo sem félagslegir, pólitískir og efnahagslegir þættir, auk landfræðilegra og veðurfarslegra þátta sem að hafa áhrif á ákvarðanatöku við mótun manngerðs umhverfis. Þannig verður hönnun eins konar spegill á strauma og stefnur sem ríkja í samfélaginu á þeim tíma sem  ákvörðun er tekin um staðsetningu, hönnun og útlit mannvirkis. Skilningur á mikilvæg hönnunar og arkitektúrs hefur vonandi aukist og þá meðvitund sem þarf að vera til staðar hvort sem að unnið er að útfærslu í þéttri byggð eða verndun menningar og náttúrlegs umhverfis.

Landsvirkjun hefur markað sér umhverfisstefnu og skilgreint mikilvæga þætti sem henni tengjast í starfseminni. Einn þessara umhverfisþátta tekur á áhrifum á ásýnd og náttúru: sjónrænum áhrifum og landmótun. Fyrir fimm árum var sett fram sérstök áhersla um landslags- og útlitshönnun mannvirkja sem nú er unnið  eftir og er einnig liður í  því að framfylgja stefnu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins. Í því felst að skapa sem best heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrulegs umhverfis. Við hönnun landslags og útlits verður að hafa marga þætti í huga. Samkvæmt áherslunni ber að líta til lykilþátta á borð við sköpunarmátt, list og samvinnu, hugmyndafræði, menningararf, landslagsgreiningar, vistvæna hönnun, fjölnýtingu og samþættingu.

Á sama tíma og fyrirtækið sett fram ofangreinda áherslu var gengið til samstarfs við Hönnunarmiðstöð Íslands, sem í dag heitir Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, um Hönnunarverðlaun Íslands. Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

*Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. janúar.

  • Jóhanna Harpa Árnadóttir

    Verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar — Stefnumótun og sjálfbærni hjá Landsvirkjun
Dagsetning
28. janúar 2021

Tögg

  • Greinar
  • Aðsent