HönnunarMars 2024 - Þar sem kaos er norm og jafnvægi list

8. febrúar 2024

Á hátíðinni í ár er ástand heimsins speglað í sirkusnum. Snúum öllu á hvolf með gleði, forvitni og hugrekki! Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir þenja mörk hins mögulega með spennandi sýningum, viðburðum, vinnustofum, leiðsögnum og opnunum um allan bæ á HönnunarMars 2024 dagana 24. - 28. apríl. Leikur að efnum, samspil náttúru við tækni, nýting annars flokks hráefna og nýjar skapandi lausnir fyrir samfélagið er meðal þess sem lítur dagsins ljós.  

Hátíðin hefst að venju á alþjóðlegu ráðstefnunni DesignTalks, sem að þessu sinni tekst á við öfgar og ójafnvægi. Í kosmísku kaosi er jafnvægis leitað með viðhorfi skapandi ævintýrafólks og skvettu af æðruleysi línudansarans, sem hugrakkur fikrar sig í land. Sirkus hringurinn er nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt! Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum hið óþægilega. 

Veislan springur út í opnunarhófi HönnunarMars í Hafnarhúsinu að DesignTalks loknu, miðvikudaginn 24. apríl og blómstrar í kjölfarið út um alla borg næstu 5 daga. Á dagskrá HönnunarMars í ár er að finna yfir 100 sýningar, 200 viðburði og eru þátttakendur hátt í 400 talsins. 

Verið öll hjartanlega velkomin í heim lita, gleði og kyngimagnaðs sköpunarkrafts!

Hér er pláss fyrir öll, allt er leyfilegt og fjölbreytnin ræður ríkjum. 

Við minnum á að forsala miða á DesignTalks er í fullum gangi en á næstu dögum hefjumst við handa til að kynna hverjir koma fram á ráðstefnunni í ár svo fylgistu með! 

Dagsetning
8. febrúar 2024
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög
  • HönnunarMars