Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Orkustofnun og Umhverfisstofnun kynna NatNorth.is
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Orkustofnun og Umhverfisstofnun opna sameiginlega upplýsingasíðu NatNorth.is um fjölbreytileg verkefni sem hafa það að markmiði að auka þekkingu, gæði og sjálfbærni í ferðaþjónustu í hánorðri.
Á síðunni er fjallað um verkefni sem snúa að því auka þekkingu, efla gæði og við að ná yfirsýn yfir þær áskoranir og tækifæri sem Norðurlönd standa frammi fyrir gagnvart sjálfbærri ferðamennsku í hánorðri. Áherslurnar eru þrjár; Hönnun í náttúru, Hrein orka og Umhverfisvernd. Sjálfbær ferðamennska í norðri er hluti af Gagnvegum góðum, formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019.
Sameiginlegt markmið Norðurlanda er að vernda þau náttúru- og samfélagsgæði sem eru grundvöllur ferðamennsku í norðri og styrkja þannig stöðu sína og samkeppnishæfni. Með því að miðla á milli af reynslu og deila lausnum og hugmyndum má ná þessum sameiginlegum markmiðum. Markhópur síðunnar eru stefnumótandi aðilar á Norðurlöndum og er efni síðunnar á ensku.
Verkefni Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Hönnun í náttúru, snýr að kortlagningu, stefnumótun og þróun hönnunarferla við uppbyggingu, innleiðingu og viðhald innviða, með það að markmiði að vernda viðkvæma náttúru og greiða aðgengi að sterkri náttúrupplifun. Með því að safna, greina og bera saman norræn dæmi um innviðahönnun er markmiðið að bera kennsl á framtíðarlausnir og aðferðir sem stuðla í senn að náttúruvernd og náttúruupplifun. Afrakstur verkefnisins er Norrænn Atlas í innviðauppbyggingu sem sprettur úr samvinnu og þekkingarmiðlun þvert á Norðurlönd. Í honum verða fjölbreytt dæmi, allt frá staðbundnu handverki til nýstárlegra hönnunarlausna sem byggja á nýjum hugmyndum og nýrri tækni. Ennfremur verður varpað ljósi á aðferðir við skipulagningu, verndun, viðhald og fjármögnun sjálfbærrar innviðauppbyggingar í norrænni náttúru.
Verkefni Orkustofnunar, Hrein orka, snýr að því að greiða leiðina að kolefnishlutleysi í norrænni ferðaþjónustu. Haldnar verða vinnustofur með rekstraraðilum ferðaþjónustubáta, bílaleigubíla, langferðabíla og gististaða víða á Norðurlöndunum þar sem mótuð verður stefna um aukna notkun vistvæns eldsneytis og rætt með hvaða hætti stjórnvöld geta stutt þessa þróun. Afurð verkefnisins er hvítbók með tillögum að ívilnunum og öðrum aðgerðum sem hraðað geta orkuskiptum í ferðaþjónustu.
Verkefnahluti Umhverfisstofnunar snýr að stýringu gesta um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði. Þar er sérstaklega horft til hvernig nýta má gestastofur og aðra innviði svæðanna, menntun og reynslu landvarða, sjálfbærniviðmið og vöktun til að skila svæðunum til næstu kynslóða í eins góðu ásigkomulagi og hugsast getur. Sex vinnuhópar eru að störfum í jafnmörgum undirverkefnum og munu þeir allir koma saman á ráðstefnu sem haldin verður í mars 2021.
Verkefnið er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, Gagnvegir góðir, en markmið nefndarinnar er að vinna að sameiginlegum lausnum á sviðum þar sem Norðurlöndin geta náð betri árangri saman en í sitthvoru lagi. Frekari upplýsingar um formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni: GAGNVEGIR GÓÐIR
Einkenni og ásýnd verkefnisins er unnið af Vinnustofu Erlu & Jónasar.
Frekari upplýsingar um verkefnin og vefsíðuna veitir Gerður Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Miðstöð Hönnunar og arkitektúrs.
Gerður Jónsdóttir
Framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslandsgerdur@ai.is