Minn HönnunarMars - Andrea Róberts
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA - Félag kvenna í atvinnulífinu deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Andrea ætlar ekki að missa af í ár:
Ástarbréf til Sigvalda Thordarson
Ég hef verið að díla við form, sem lýsir sér meðal annars í því að ég átti erfitt með ósemitrísk hús fram á fullorðinsár. Svo á ég erfitt með gulan lit og það sem trompar þetta og gerir mig þrátt fyrir ofangreint að aðdáanda Sigvalda-húsa er abstrakt sökkerinn sem ég er – hann trompar allt. Ég held að um sé að ræða rútuferð til að skoða verk Sigvalda Thordarson, boðbera módernisma í íslenskri húsagerðalist, að farið verði á rúntinn með myndlistarmanninum og tónlistarmanninum Loga Höskuldssyni (Loji) sem er mikill áhugamaður um arkitektinn. Annars eru hönnuðirnir Bobby Breiðholt og Helga Dögg Ólafsdóttir að setja upp bók um kappann, Kjartan Hreinsson ljósmyndari velur allar ljósmyndirnar og ég er bara ekki að trúa því að það sé ekki til bók um Sigvalda, Sigvaldahús.
Efnasmiðjan; maus, vas og verðmæti
Eigum við ekki öll í ástar/haturs sambandi við lúpínur? Flestir hafa skoðun á lúpínu sem gefur litlum plöntum ekkert breik og þekur stór og oft ört stækkandi svæði. Flókið samband og þróun á sterku umhverfisvænu trefjaefni úr lúpínuplöntunni er því afar spennandi að mínu mati. Efnasmiðjan er vinnustofa Elínar S Harðardóttur og Ingu K Guðlaugsdóttur, vöruhönnuða og ég kíki þangað til að kynna mér þetta nýja trefjaefni.
Kristín Þorkelsdóttir
Kristín Þorkelsdóttir hannaði fjölmargar umbúðir um matvæli og er höfundur peningaseðla og þjóðþekktra merka. Eins og segir í kynningu þá liggja að baki hvers þjóðþekkts verks Kristínar Þorkelsdóttur ógrynni af skissum, tilraunum og pælingum, sem ekki hefur verið safnað saman til sýningar fyrr en nú. Þarna eiga að vera kunnugleg og áður óséð verk sem samanlagt umbreyttu ungri myndlistarkonu í einn helsta brautryðjanda landsins á sviði grafískrar hönnunar. Það segir jafnframt í bæklingi að fáir hér á landi hafa skilað af sér jafn mörgum listaverkum, sem tekið er sem sjálfgefnum og Kristín enda verk hennar hvað mest áberandi við hinar hversdagslegustu aðstæður, svo sem inni í ísskápum landsmanna.