Minn HönnunarMars - Edda Kristín Sigurjónsdóttir

Nú er HönnunarMars er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn. Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.

Hér eru þær sýningar sem Edda Kristín Sigurjónsdóttir, hönnuður og annar ritstjóra fréttabréfsins Edda og Greipur, ætlar ekki að láta framhjá sér fara

Hið íslenska tvíd / Kormákur og Skjöldur

Næsti þáttur í skúespili Kormáks og Skjaldar verður hér kynntur. Sem mikill aðdáandi vandaðs handverks, þykir mér mikið fagnaðarefni að nú sé loksins hafin aftur framleiðsla á vaðmáli úr íslenskri ull, nosturslega er hugað að öllu eins og þeirra spjátrunga er vísa. Framtakið er gott og verður vonandi smitandi og til þess að framleiðsla á efnivið verði æ meir staðbundin. Ég ætla að halda upp á fimmtugsafmælið mitt í klæðskerasniðinni tweed dragt, það eru enn nokkur ár í það en ég er byrjuð að safna. Það verður veisla. 

Hljómur Hlemmtorgs

Ég man hvað þetta svæði var sjúskað þegar ég var unglingur og þar var fátt að sækja annað en sveitta góða pizzu í skúrnum og næsta strætó heim. Nú hefur aldeilis orðið bragarbót á og ég er spennt að hlusta og horfa inn í plön framtíðarinnar fyrir þetta svæði sem teygir miðborgina í austur. Fæ mér ábyggilega bita á Skál í mathöllinni í leiðinni.

Okið

Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var glöð þegar ég sá að Okið opnaði í Gerðubergi. Þetta upplifunar- og þátttökurými fyrir unglinga, sem er hópur sem betur mætti sinna í borgarumhverfinu, er kærkomið og mjög svalt framtak. Bara nafnið sjálft gefur til kynna hugsunina á bakvið verkefnið og gerir foreldrið mig forvitna um hvað þar leynist og hvað það getur gefið þeim sem sækja efra Breiðholtið heim.

Genki Instruments

Genki Instruments virðast einfaldlega vera að gera svo svala hluti að ég ætla ekki að missa af þessum fréttum úr framtíðinni. Á sama tíma og ég óttast allar þessar þráðlausu bylgjur og tíðnifikt, 5G meira en allt, þá er ég um leið agndofa og dáleidd af undrum hátækninnar og samruna hennar inn í okkur. Þarna verður hægt að fá innsýn inn í sköpunarferlið og rýna inn í kannski fullkomlega óþarfa en mögulega stórkostlega möguleika.

Kynntu þér dagskrá HönnunarMars á heimasíðu hátíðarinnar hér og gerðu þinn eigin HönnunarMars! 

Sjáumst á HönnunarMars!

Tögg

  • HönnunarMars
  • Greinar
  • MinnHönnunarMars