Paul Bennett og Hildigunnur Sverrisdóttir eru nýjir deildarforsetar í hönnun og arkitektúr hjá Listaháskóla Íslands

28. ágúst 2020

Paul Bennett, yfirhönnuður og stjórnandi hjá IDEO, hefur verið ráðinn í stöðu deildarforseta hönnunardeildar og Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt hefur verið ráðin deildarforseti arkitektúrdeildar hjá Listaháskóla Íslands. Þetta kom fram í tilkynningu frá skólanum í gær.

Paul Bennett er í fararbroddi í hönnunarsamfélaginu og þekktur fyrir að hvetja til framsýnnar hugsunar í listum og örva nýsköpun og þróun í gegnum hönnunarnám. Paul er talsmaður þess að hönnun sé hreyfiafl og að hún, ásamt virkri þátttöku samfélagsins og stjórnvalda, leiki lykilhlutverk til jákvæðra breytinga í þjóðfélaginu.

 „Við störfum í alþjóðlegu umhverfi og stefnum ávalt að sem mestum mögulegum gæðum í kennslu og kennsluaðferðum og því erum við himinlifandi að fá Paul Bennett í okkar raðir,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans í frétt á heimasíðu skólans um ráðninguna.
„Námið og kennsluaðferðir okkar eru í stöðugri þróun og jafn framsækin sýn og sú sem Paul býr yfir styður okkur í þróunar- og gæðastarfi skólans. Sú staðreynd að hann mun áfram sinna störfum sínum á alþjóðavísu með sama hætti og hann hefur gert er mikill akkur fyrir okkur sem stofnun og síðast en ekki síst fyrir nemendurna.“

Paul kom fyrst til Íslands 2008 þegar Íslendingar stóðu í miðju efnahagshruni til þess að flytja erindi um hlutverk hönnunar í efnahagsbreytingum á Hönnunarmars. Hann var heillaður og innblásinn af þeim einstaka anda sem ríkti hér landi, af frumkvöðlahugsun og sköpunarkraftinum. Hann hefur því sótt Ísland reglulega síðan. 

„Ég hef komið nokkuð oft til Íslands og tækifærin sem hér felast koma betur og betur í ljós og COVID-19 hefur styrkt þá skoðun mína," segir Paul í tilkynningunni „Í fyrsta lagi, er tækifærið til að móta huga næstu kynslóðar á tímum þar sem samfélagið er opið fyrir slíku og þarfnast breytinga, auk þess að vinna að því á stað sem er lítill, móttækilegur og brennur fyrir þessum nauðsynlegu breytingum. Í annan stað veit ég að horft er til hönnunarsamfélagsins og krafta þess í samtali við menntastofnanir og stjórnvöld og hvernig hægt sé að koma slíkum hugmyndum í framkvæmd. Margir kollegar mínir, þar á meðal David Kelley, stofnandi d-school í Stanford, deilir þessari sýn minni og hefur verið mér mikill innblástur. Ég er spenntur að vinna með starfsfólki Listaháskólans að þessum hugmyndum auk þess að halda áfram starfi mínu hjá IDEO. Ég hef tækifæri til að koma alþjóðlegu sjónarmiði á framfæri innan Listaháskólans og í íslensku samfélagi sem og að koma starfi Listaháskólans á framfæri á alþjóðavísu.“

Í hlutverki sínu sem deildarforseti mun Paul m.a. eiga í samtali við nemendur og starfsfólk Listaháskólans um hvað hönnun og hönnunarnám getur fært samfélaginu. Eins mun hann beita sér í fjáröflun og fyrir auknum sýnileika skólans bæði innanlands og á heimsvísu.

Frá skólastarfi í arkitektúrdeild háskólans.

Hildigunnur Sverrisdóttir hefur verið ráðin deildarforseti arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands. Hún lauk Cand.Arch.-gráðu frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og hefur starfað sem hönnuður á arkitektastofum auk þess að starfa sjálfstætt sem fræðimaður, ráðgjafi og listrænn stjórnandi á fagsviði arkitektúrs og manngerðs umhverfis. Hún er virkur rannsakandi en eftir hana hafa birst fjölda greina og bókakafla á fagvettvangi arkitektúrs og á breiðari vettvangi lista auk þess sem hún hefur umtalsverða reynslu af þverfaglegu samstarfi í fjölbreytilegum verkefnum.

Hildigunnur hefur umfangsmikla reynslu af kennslu og akademískum störfum. Hún hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands frá 2006 og var fagstjóri og aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild frá 2012 til 2015. Þá hefur hún verið gestakennari víða erlendis m.a. við Yale School of Architecture, Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn, KTH í Stokkhólmi, UIB í Bergen og UCLA og MIT háskólana í Bandaríkjunum. 

Hildigunnur hefur setið í ráðum og nefndum m.a. á vegum LHÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Arkitektafélagi Íslands og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. 

iceland_university_of_the_arts
Paul Bennett ráðinn deildarforseti hönnunardeildar LHÍ // IUA welcomes IDEO chief creative officer Paul Bennett as department head of Design https://www.lhi.is/frettir/paul-bennett-hefur-verid-radinn-i-stodu-deildarforseta-honnunardeildar. https://www.lhi.is/frettir/paul-bennett-new-head-design-department
Dagsetning
28. ágúst 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Listaháskóli Íslands