Ýrúrarí sýnir peysu með öllu á HönnunarMars
Kannast einhver við pylsuát sem fer úr böndunum, tómatsósuslettur og klístur út á kinn? Þjóðarréttur Íslendinga, pylsa með öllu, varð kveikjan að sýningu sem textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, a.k.a. Ýrúrarí, stendur fyrir í samstarfi við Rauða kross Íslands á HönnunarMars. Sýndar verða breyttar peysur sem eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir mannlegum óhöppum í fyrra lífi en með óvæntri úrvinnslu gefur Ýrúrarí þeim möguleika á framhaldslífi.
„Fatasöfnun Rauða krossins óskaði eftir samstarfi en ég hef undanfarin ár verið með áherslu á endurnýtingu í verkum mínum. Textílaðferðir á borð við prjón, útsaum og fatalitun höfða til mín. Ég leyfi mér að gera tilraunir og taka áhættur með efnivið sem annars hefði verið flokkaður sem sorp.“
Ýr er þekkt fyrir að miðla sögum í gegnum sköpun sína og er þemað gjarnan sveipað hugleiðingum um textílneyslu. „Þegar ég hóf að rýna í flíkurnar sem voru álitnar ósöluhæfar vegna slæms ástands, leiddi ég hugann að því hvað bjó að baki skaðans, hver raunverulega sagan væri. Í ferlinu við að laga og umbreyta peysunum fann ég útlitsgöllunum svo nýjan farveg. Sósublettir fengu nýtt útlit, götin ágerðust, hnökrar, lykkjuföll, slettur og flekkir heyrðu sögunni til.“ Afraksturinn eru einstakar flíkur sem líkjast helst talandi textílskúlptúrum.
Húmor, leikgleði og sterkir litir eru einkennandi fyrir hönnun Ýrúrarí sem hefur vakið verðskuldaða athygli og heimsþekktar tónlistarkonur á borð við Miley Cyrus og Erykah Badu hafa klæðst endurunnum peysum eftir hana: „Ég tek sjálfa mig ekkert alltof alvarlega og það blasir við í verkum mínum. Húmor gerir hönnun bæði aðgengilegri og skemmtilegri að mínu mati.“