Safnanótt á Hönnunarsafni Íslands: Opnun, smiðja og vinnustofur
Á Safnanótt, föstudaginn 3. febrúar, verður mikið um að vera á Hönnunarsafni Íslands, ný fastasýning Hönnunarsafnið sem heimili opnar, vinnusmiðja fyrir fjölskyldur, Fallegustu bækur í heimi sýning og opin vinnustofa.
Á sýningunni Hönnunarsafnið sem heimili má finna í kringum 200 dæmi um íslenska hönnun en safneign Hönnunarsafns Íslands telur í heild um 5000 muni frá árinu 1900 til dagsins í dag.
Sýningin er sett upp sem grunnmynd af heimili en líkt og á heimilum fólks má sjá þar hlið við hlið muni frá mismunandi tímabilum. Húsgögn, borðbúnaður, fatnaður, bækur og textíll frá ólíkum tíma koma saman og varpa ljósi á brot af því sem íslenskir hönnuðir og handverksfólk hefur skapað.
Heimilið er í sífelldri þróun. Stöðugt er verið að færa til, skipta út og breyta. Sköpun heimilis er lifandi ferli án endapunkts, en heimilið er fyrst og síðast sköpun þeirra sem þar búa. Smekkur, sem getur mótast af ýmiss konar áhrifaþáttum í lífi hvers og eins, er það sem gefur hverju og einu heimili sín sérkenni.
Í mörg horn er að líta á heimili og ýmislegt getur komið upp á. Sama má segja um uppsetningu sýningar en í lok desember lak þak í sýningarsal safnsins. Því er einungis hægt að opna hluta sýningarinnar að þessu sinni. Það er ekki öruggt að setja upp muni í stofuhluta sýningarinnar fyrr en viðgerð hefur farið fram. Stofan stendur því tóm og minnir okkur á hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að hlúa vel að heimilum og líka safnastarfi.
Á opnuninni munu söngkonan Jelena Ciric ásamt Ásgeiri Ásgeirssyni gítarleikara og harmonikkuleikaranum Margréti Arnardóttur leika heimilislega tónlist í stofunni.
Allir viðburðir og aðgangur ókeypis.
Sýningarstjórar: Anna Dröfn Ágústsdóttir, Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir.
Opin vinnustofa
Ada Stańczak keramikhönnuður verður að störfum á Hönnunarsafninu á Safnanótt. Til að koma henni og gestum í stuð flytja hljóðlistamennirnir Otto og Carlo tónlist í vinnustofunni í anddyri safnsins.
Þegar Ada flutti til Íslands fyrir fimm árum kviknaði áhugi hennar á því að rannsaka hvernig íslenskur efniviður eins og leir, jarðvegur, hraun og steinar geta haft áhrif á það að tilheyra ákveðnum stað eða landi. Hún lauk námi í menningarfræðum frá Háskólanum í Varsjá og keramiknámi frá Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Hér er hægt að lesa meira.
Heimurinn heima - vinnusmiðja.
Hönnuðirnir Auður Ösp Guðmundsdóttir og Kristín María Sigþórsdóttir stýra smiðju fyrir krakka á öllum aldri (alla fjölskylduna sem sagt!). Þátttakendur setja sig í spor hönnuða og uppfinningamanna og búa til húsgögn í ímyndað heimili.
Fallegustu bækur í heimi
Best Book Design from all over the World keppnin hefur verið haldin frá árinu 1963 með það að markmiði að hvetja til aukins alþjóðlegs samtals um bókahönnun. Annað árið í röð stendur FÍT í samstarfi við Hönnunarsafnið fyrir sýningu á bókunum á Pallinum í Hönnunarsafninu.
Að þessu sinni bárust inn bækur frá 30 löndum. Fjórtán bækur voru verðlaunaðar og sýningin samanstendur af þessum bókum.
Í ár var það bókin On the Necessity of Gardening. An ABC of Art, Botany and Cultivation sem hlaut aðalverðlaunin en hún kemur frá Hollandi og er hönnuð af Bart de Baets.