Saga íslenskrar leirlistar á Hönnunarsafni Íslands

24. nóvember 2019 | 13:00

Inga Sigríður Ragnarsdóttir heldur fyrirlestur um sögu íslenskrar leirlistar frá árinu 1930-1970 núna á sunnudaginn, 24. nóvember kl. 13 í Hönnunarsafni Íslands í tengslum við skráningu á keramiksafni Önnu Eyjólfsdóttur.

Inga Sigríður vinnur nú ásamt Kristínu G. Guðmundsdóttur, listfræðingi að rannsókn á þessu tímabili og fyrirhugað er að gefa út bók á næsta ári í tilefni af því að þá verða 90 ár liðin frá því að framleiðsla hófst á leirmunum á Íslandi í Listvinahúsinu.Inga Sigríður útskrifaðist úr keramikdeild Myndlista- og handíðaskólans og fór síðan í framhaldsnámi til Munchen í keramik og skúlptúr. Hún hefur starfað sem leirlistamaður og kennt sem stundakennari við Myndlistarskólann í Reykjavík. Inga Sigríður er dóttir Ragnars Kjartanssonar leirkerasmiðs, eins og það var kallað, sem lærði hjá Guðmundi frá Miðdal og var einn af meðstofnendum Funa og seinna einn af stofnendum Glit.