Samsýning, fyrirlestrar, hönnunar Pubquiz og klúðurkvöld meðal þess sem er á  fjölbreyttri dagskrá Hönnunarþings á Húsavík

19. september 2023

Dagana 28. - 30. september fer fram í fyrsta sinn Hönnunarþing, hátíð vöruhönnunar á Húsavík og nágrenni. Þar gefst  almenningi kostur á að kynna sér fag hönnuðarins og  áhersla lögð á mikilvægi vöruhönnunar í samfélaginu og hvernig hún hefur mótað okkar daglega líf. 

Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af sýningum bæði innlendra og erlendra hönnuða ásamnt fræðandi fyrirlestrum á borð við kynningu á sögu vöruhönnunar, fyrirlestrum um verk og feril hönnuða, mikilvægi fagsins í daglegu lífi, snertifleti vöruhönnunar og gervigreinda og kynningu Listaháskóla Íslands á stefnu og kennslu fagsins svo eitthvað sé nefnt. 

Vinnustofur og námskeið verða haldin fyrir börn og fullorðna. Einnig munu nemar í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vinna að verkefni á svæðinu og sýna afrakstur þess á hátíðinni. Viðburðir á borð við hönnunar pub quiz, sófaspjall um misheppnaða hönnun, skemmtun í GeoSea ásamt tónleikum og gleðskap munu gera hátíðina líflega og skemmtilega. Þeir sem sækja fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar gefst einnig fullkomið tækifæri til að virða fyrir sér hinar fögru náttúruperlur svæðisins en ekki síst nokkrar af hönnunarperlum svæðisins á borð við Sjóböðin á Húsavík, Jarðböðin í Mývatnssveit og hin nýju Skógarböð á Akureyri. 

Yfirlit yfir dagskrá Hönnunarþings

Fimmtudagur 28. sept

16:30 - Rúta frá Stéttinni í Svörtuborg, Rangá

Takmarkaður sætafjöldi. Pantanir hjá johanna@hac.is

17:00-18:30 - Fyrirlestraröð í sal Svörtuborgar

Fyrirlestraröð í sal Svörtuborgar. Fram koma Anna Diljá, Petra Lilja, AaltoAalto studio, Hugdetta og Stefán Pétur.

18:30-19:30 - 1+1+1 Opnar sýningu í sal Svörtuborgar

Samnorræna hönnunarteymið 1+1+1 sýnir nýja og eldri muni

19:30-21:00 - Léttar veitingar í boði í sal Svörtuborgar

21:00-22:30 - Hönnunar Pubquiz og Bingó í sal Svörtuborgar

Pubquiz og bingó tengt vöruhönnun fyrir lengra komna

Föstudagur 29. Sept

12:00-15:00 - Frá hugmynd að veruleika

Sófaspjall með ráðgjöfum SSNE á Stéttinni um styrki og hvernig hugmyndir verða að veruleika.

17:00-17:30 - Opnunarhátíð Hönnunarþings á Stéttinni

Hönnunarþing verður formlega sett á Stéttinni. Léttar veitingar, öll velkomin!

17:30-21:00 - Opnun samsýningar

Samsýning hönnuða á Stéttinni og í verðbúðinni. Íslenskir og erlendir hönnuðir koma og sýna verk sín.

Laugardagur 30. sept

10:00-13:00 - Hönnunarþing barna

Öll börn velkomin á Stéttina á stutt og skemmtilegt námskeið í vöruhönnun. Kynning og hönnunarvinnustofur.

10:00-17:00 - Samsýningar Hönnunarþings opnar

Sýningarrými á Stéttinni og í Verbúðinni.

12:30-13:30 - Hanna Dís með námskeið fyrir fullorðna

Skemmtileg vinnusmiðja þar sem Hanna Dís leiðir þátttakendur í gegnum ferlið og fegurðina við strágerð. Þátttakendur geta að hámarki verið átta og því er nauðsynlegt að skrá sig á studio@hannawhitehead.com

14:30-15:30 - Sigurjón Pálsson spjallar við gesti um hönnun

Hvað er vöruhönnun? Sigurjón sest með kaffibolla á Stéttinni og fjallar um mikilvægi vöruhönnunar og áhrif hennar á okkar daglega líf. Kleinur og kaffi og opið inn á sýningu.

15:30-16:00 - Listaháskóli Íslands

Fyrsta og þriðja ár vöruhönnunardeildar Listaháskóla Íslands sýnir afrakstur sinn eftir vikulanga vinnustofu hér á Húsavík. Einnig verður Rúna Thors lektor í vöruhönnun með kynningu á Listaháskólanum og verkum nemanda. Hvetjum alla áhugasama til að mæta.

17:30-19:00 - Gleði í GeoSea

20:00-21:00 - Klúðurkvöld

Hönnuðir segja frá verkefnum sem mistókust eða klúðruðust á einhvern hátt. Mikið gaman, mikið fjör.

Hægt er að kynna sér betur heildardagskrá hátíðarinnar hér 

Dagsetning
19. september 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun
  • Fagfélög