Sérhannaðar sundferðir Hönnunarsafns Íslands

1. júní 2022

Hönnunarsafn Íslands býður upp á þrjár sérhannaðar sundferðir í ferðagjöf í tengslum við sýninguna Sund sem nú stendur yfir í safninu. Almenningur getur nálgast ferðirnar á síðunni Sundferðir og valið sundferðalag um Vestfirði, Vesturland eða Suðurland. 

Á síðunni er vegakort sem sýnir í hvaða röð er mælt með að fara í laugarnar. Þar má einnig finna ýmsan fróðleik svo sem upprunalegan tilgang lauganna og séreinkenni ásamt fallegu myndefni sem lýsir stemningunni á hverjum stað. Vefsíðan er blanda fróðleiks og skemmtunar og ætti að kveikja áhuga á ferðafyrirkomulagi sem er rakið að stunda á Íslandi.

Verkefnið fékk styrk úr nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2021. Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins var leiðbeinandi í verkefninu en að því komu þrír háskólanemar þær Katrín Snorradóttir nemandi í MA í Þjóðfræði , Móna Lea Óttarsdóttir og Ragnheiður Stefánsdóttir nemendur í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands.

Nemendurnir fóru sjálfar í allar laugarnar, hittu gesti og umsjónamenn lauganna og fræddust um hvern stað fyrir sig.

Kynntu þér málið á sundferdir.com

honnunarsafn
Dagsetning
1. júní 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarsafn Íslands