„Við gerum okkur grein fyrir að það er töluverð óvissa“

3. nóvember 2020

HönnunarMars 2021 fer fram dagana 19-23 maí en búið er að opna fyrir umsóknir á hátíðina. Þórey Einarsdóttir, stjórnandi hátíðarinnar var í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun þar sem hún ræddi um hátíðina.

HönnunarMars er stærsta kynningarafl íslenskrar hönnunar og mun fara fram í 13 sinn í maí 2021. Í samtali við Rás 2 greinir Þórey frá því að undirbúningur fyrir hátíðina sé farinn af stað en að teymið geri sér grein fyrir óvissunni sem komandi mánuðir hafi í för með sér.

Við gerum okkur grein fyrir að það er töluverð óvissa. Það verður mikill sveigjanleiki í ferlinu og útfærslu á hátíðinni. Það eru spennandi tímar núna að sjá hvað við ætlum að gera í maí. Við vitum ekki það sem við vitum ekki núna.

Þórey Einarsdóttir, stjórnandi HönnunarMars

Opnað var fyrir umsóknir á HönnunarMarsí gær en frestur til að sækja um rennur út 30. nóvember. Samfélag hönnuða er verulega öflugt, að mati Þóreyjar. Fáir eru jafn vel í stakk búnir til að laga sig að breyttu landslagi og takmörkunum með skapandi lausnum. „Þetta er landslið í að leysa mál og koma með lausnir svo við bíðum spennt að sjá hvað kemur inn,“ segir Þórey í samtali við Rás 2.

Þórey Einarsdóttir ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ráðherra, Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra á fyrsta degi HönnunarMars í júní 2020.
designmarch
Dagsetning
3. nóvember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir
Ljósmyndir
Kevin Pages

Tögg

  • Greinar
  • HönnunarMars