Ýrúrarí með smiðju í skapandi fataviðgerðum í Hönnunarsafni Íslands

26. febrúar 2021

Textílhönnuðurinn og listakonan Ýr Jóhannsdóttir eða Ýrúrarí býður upp á opnar smiðjur í skapandi fataviðgerðum í Hönnunarsafni Íslands. Fyrsta smiðjan er um helgina.

Smiðjan býður upp á verkfæri, efnivið og aðstöðu fyrir útsaum, prjón, þurr þæfingu, vélsaum og ýmiskonar fræðsluefni um fataviðgerðir. Þátttakendur eru hvattir til að mæta með flíkur sem þarf að lappa upp á eða breyta. Einnig er í boði að taka að sér peysu sem þarfnast viðgerða frá fatasöfnun Rauða Krossins á Íslandi. Ef þátttakendur eru með sína eigin hugmynd að fataviðgerð er um að gera að koma með eigið garn eða efnivið fyrir viðgerðina.

Ýrúrarí er með opna vinnustofu á Hönnunarsafni Íslands þessa dagana.

Þátttakendur þurfa ekki að hafa neina reynslu af fataviðgerðum til að taka þátt. Gert er ráð fyrir því að ef börn vilja taka þátt komi þau í fylgd fullorðins.

Vegna mikils áhuga á smiðjunni er ekki lengur hægt að hafa smiðjuna jafnt opna þar sem plássið rýmir takmarkaðann fjölda. Því verða þátttakendur að skrá sig með því að senda tölvupóst á yrj1992@gmail.com
Næstu smiðjur eru: sunnudaginn 28. febrúar kl. 12.15-15 - þriðjudaginn 9. mars kl. 17-19.30 - sunnudaginn 14. mars kl. 12.15-15. Fleiri dagsetningar koma inn síðar.

Þátttakendur geta fengið aðstoð á bæði íslensku og ensku en verkefnið er hluti af lokaverkefni Ýrar úr Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Dagsetning
26. febrúar 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Textílhönnun
  • Hönnunarsafn Íslands