Ýrúrarí og Flétta opna sýninguna Þæfingur

27. september 2022

Þæfingur er samstarfsverkefni Fléttu, hönnunarstofu og textílhönnuðarins Ýrúrari þar sem afskurðir frá íslenskum prjónaverksmiðjum eru nýttir. Verkin eru gerð í nálaþæfingarvél við Textílsetrið á Blönduósi og eru alfarið mótuð úr ullarafgöngum. Sýningin opnar í Epal gallerý á Laugarvegi 7 fimmtudaginn 29. september. 

Verkefnið hófst með tilraunavinnu á textílsetrinu sumarið 2022 þar sem þær þróuðu aðferð við að nýta ullarafskurði sem að öðrum kosti hefðu verið sendir erlendis til endurvinnslu. Með verkefninu vonast hönnuðirnir til að skapa farveg fyrir ullarafgangana hér á landi.

Ýrúrarí hefur verið starfandi nú í um 10 ár en hún hefur vakið mikla athygli fyrir endurvinnslu á ósöluhæfum peysum sem safnast hjá Rauða krossinum á Íslandi.

Að Fléttu standa vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir en þær hafa unnið saman að endurnýtingu og endurvinnslu hráefna síðan 2014. 

Verkefnið hlaut þróunarstyrk úr Hönnunarsjóði vorið 2022.

Dagsetning
27. september 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun