Arkitektafélag Íslands

Arkitektafélag Íslands starfar í þeim tilgangi að stuðla að góðum arkitektúr í landinu, efla samvinnu félagsmanna og standa vörð um hagsmuni þeirra. Hægt er að hafa samband við félagið með því að senda tölvupóst á netfangið ai@ai.is

Frá og með 1. janúar 2024 verður AÍ eingöngu fagfélag en ekki fag-og stéttarfélag. AÍ hefur gengið inn í Fræðagarð og hefur verið myndaður sérstakur faghópur arkitekta innan Fræðagarðs. Þar geta félagsmenn unnið að kjaramálum stéttarinnar. Frá og með 1. janúar 2024 verður ekki hægt að greiða iðgjald AÍ gegnum BHM. Réttindi í sjóðum BHM munu haldast þegar félagar flytja sig úr AÍ yfir í annað aðildarfélag BHM, að því tilskyldu að greiðsla iðgjalda verði óslitin.

Á aðalfundi Arkitektafélags Íslands 15. febrúar 2023 var samþykkt að AÍ myndi einblína á hlutverk sitt sem fagfélag og hætta að vera fag-og stéttarfélag. Sterkustu rökin fyrir því að leggja niður stéttarfélag AÍ liggja í því að AÍ hefur ekki bolmagn til að sinna því að vera framúrskarandi stéttarfélag. Skrifstofa AÍ hefur síðan 2017 sinnt því að vera bæði skrifstofa stéttarfélagsins AÍ og fagfélagsins AÍ. Nú er komin nokkra ára reynsla á starfsemi AÍ sem stéttarfélags og fagfélags og hefur reynslan kennt okkur að það er snúið að reka bæði AÍ sem fag-og stéttarfélag. Kjarabarátta hefur mikið breytst á undanförnum árum og í sjónmáli eru enn meiri og gagngerri breytingar en við höfum áður séð. Sú þjónusta sem stéttarfélög eiga að veita sínum félagsmönnum krefst sífellt meiri sérþekkingar og lögfræðiþekkingar. Til að geta sinnt félagsmönnum okkar sem best og sinnt faginu sem best þykir stjórn farsælast að stéttarfélagshluti félagsins sé betur komið fyrir hjá sérhæfðum aðilum á því sviði.

Spurt og svarað

Réttindi í sjóðum BHM?

Ef valið er að flytja sig til einhverra þeirra stéttarfélaga sem eru innan BHM þá munu áunnin réttindi í sjóðum BHM haldast, að því tilskyldu að greiðsla iðgjalda verði óslitin.

Hvað er Fræðagarður?

Fræðagarður er langstærsta aðildarfélagið innan BHM. Fræðigarður er öflugt stéttarfélag sem veitir persónulega þjónustu og er í forsvari fyrir félagsfólk varðandi kjör og réttindi. Félagar í Fræðagarði starfa bæði hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Iðgjaldagreiðsla Félagsgjald Fræðagarðs er 0,95% af heildarlaunum. Stéttarfélagsnúmer Fræðagarðs er 679.

Hvað er faghópur arkitekta innan Fræðagarðs?

Innan Fræðagarðs hefur verið stofnaður faghópur arkitekta. Faghópur arkitekta innan Fræðagarðs er vettvangur þeirra sem vilja starfa að kjaramálum arkitekta. Megintilgangur hópsins er að standa vörð um kjör og réttindi arkitekta og endurmenntun þeirra. Auðvelt er að flytja sig yfir úr AÍ yfir í Fræðagarð. Það er gert hér með því að sækja um aðild og upplýsa launafulltrúa/yfirmann um að þú hafir skipt um stéttarfélag. Í umsókn um aðild að Fræðagarði er dálkur þar sem hægt er að koma athugasemdum á framfæri. Þar mælum við með að félagsmenn skrifi að þeir séu að flytja sig frá AÍ yfir í Fræðagarð.

Félagsmenn sem eru í Sjúkrasjóði arkitekta?

Hluti af félagsmönnum AÍ eru í Sjúkrasjóði arkitekta, bæði þeir sem eru í aðildarfélagi AÍ gegnum BHM og þeir sem greiða fagfélagsgjöld. Það að félagsmenn gætu bæði verið í BHM og verið í sjúkrasjóði arkitekta var sérstakur samningur sem gerður var milli BHM og AÍ á sínum tíma. Nú þegar AÍ gengur úr BHM fellur þessi samningur úr gildi. Það gerir það að verkum að þeir félagsmenn sem eru í Sjúkrasjóði arkitekta (iðgjald greitt af vinnuveitanda), hyggjast gera það áfram en óska jafnframt eftir því að ganga í stéttarfélag, þurfa að láta sinn vinnuveitanda vita, þar sem þá þarf að greiða iðgjald í tvo sjúkrasjóði.

Ef stefnt er að því að ganga í stéttarfélag og hætta greiðslum í Sjúkrasjóð arkitekta er hægt að greiða í sjúkrasjóð stéttarfélagsins og Sjúkrasjóð arkitektafélagsins í ákveðinn tíma, oftast 6 mánuði, þar til réttindi í hinum nýja sjúkrasjóði hafa áunnist og þar með hætt að greiða í Sjúkrasjóð arkitekta. Einnig er heimildarákvæði í gr. 2. í úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM vegna félagsfólks sem flyst á milli sjúkrasjóða. Það segir að stéttarfélag geti greitt eingreiðslu sem nemur 1% af heildarlaunum sl. 6 mánaða og öðlast félagsmaður þá frá upphafi rétt til sjúkradagpeninga. Réttur til annarra styrkja ávinnst með hefðbundnum hætti.

Eins og lög gera ráð fyrir þá er hverjum og einum frjálst að velja það stéttarfélag sem viðkomandi telur best þjóna sínum kjararéttindum. Í tilfelli arkitekta sem greiða í Sjúkrasjóð arkitekta getur það hins vegar verið aðeins flóknara mál.  Margir atvinnurekendur hafa kosið að greiða 1,5% iðgjald í Sjúkrasjóð arkitekta fyrir sitt starfsfólk, í stað 1% iðgjalda í flesta aðra sjúkrasjóði. Ástæðan fyrir því er sú að þegar um langvinnandi veikindi starfsfólks  er að ræða þá hefjast greiðslur sjúkradagpeninga mun fyrr úr Sjúkrasjóði arkitekta en úr öðrum sjúkrasjóðum sem þýðir að atvinnurekendur greiða sjúkradagpeninga úr eigin vasa í mun styttri tíma en annars.

Miðað við núverandi kjarasamninga þurfa atvinnurekendur hins vegar að meta fleiri atriði en ákvæði sjúkrasjóða um sjúkradagpeningagreiðslur þegar meta á hvað sé hagstæðast fyrir rekstur þeirra.

Nú sem aldrei fyrr er þörf á símenntun starfsfólks til að fyrirtæki haldi samkeppnishæfni sinni. Atvinnurekendur ættu því að taka inn í myndina hagræðið af greiðslum úr endurmenntunarsjóðum BHM sem atvinnurekendur geta líka sótt fjármagn í gegn 0,7% iðgjaldi í starfsþróunarsjóð BHM.

Hvað ef ég vil fara í annað stéttarfélag en BHM?

Við færslu aðildar frá BHM til stéttarfélags utan BHM falla réttindi í sjóðum BHM niður. Þau sem velja þá leið þurfa því að kanna hjá viðkomandi stéttarfélagi hvernig réttindi séu tryggð á yfirflutningstímabili.

Hvað þarf ég að gera?

Nú þurfa þau sem átt hafa aðild að kjaradeild AÍ, og greitt í sjóði BHM, að óska eftir því við vinnuveitanda sinn að greitt verði aðildargjald í annað aðildarfélag BHM (Fræðagarð, FÍN eða annað) en einnig að greitt verði árgjald til AÍ ársfjórðungslega.

Það mun í sumum tilvikum hafa í för með sér aukinn kostnað því iðgjald til AÍ sem innheimt hefur verið í gegnum BHM hefur verið 1% af launum. Eftir breytingar þarf viðkomandi félagsmaður að greiða árgjald til AÍ, sem nú er 58.500 kr, en einnig aðildargjald til viðkomandi stéttarfélags, sem hjá FÍN er 0,65% af launum og 0,95% hjá Fræðagarði.

Í Fræðagarði er þegar til staðar faghópur arkitekta.

AÍ sem fagfélag

Þessar breytingar eru gerðar til þess að allur kraftur félagsstarfsins nýtist til að efla AÍ sem fagfélag. Við gerum því ráð fyrir að þau sem hafa greitt árgjald sitt í gegnum BHM vilji halda áfram aðild að AÍ. Þau sem ekki óska eftir áframhaldandi aðild að AÍ þurfa þá að melda sig út úr félaginu með tölvupósti á ai@ai.is.

Samningar

Kjarasamningur Fræðagarðs og Samtaka atvinnulífsins

Almennt um samninga

Stéttarfélög gera kjarasamninga við ríkið, sveitarfélög, einstök fyrirtæki eða Samtök atvinnulífsins (SA) sem eru samtök fyrirtækja á almennum markaði. Kjarasamningur kveður á um lágmarks kjör starfsmanna. Heimilt er að semja um betri kjör en ákvæði kjarasamninga segja til um.

Arkitektafélag Íslands (AÍ) og Samtök arkitektastofa (SAMARK), hafa gert með sér kjarasamning sem gildir fyrir félagsmenn AÍ sem aðild eiga að kjaradeild félagsins og starfa hjá fyrirtækjum sem aðild eiga að SAMARK. Lagður er til grundvallar kjarasamningur 17 aðildarfélaga BHM og SA en vikið frá honum í ákveðnum atriðum sem tilgreindir eru í viðauka.

Æskilegt væri að AÍ gerði einnig kjarasamning fyrir félagsmenn sína sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum.

Launamál, tryggingar og orlof

Launakjör háskólamanna ráðast af því sem um semst á markaði. Umsamin laun milli vinnuveitanda og starfsmanns skulu endurspegla vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns, svo og innihald starfsins og þá ábyrgð sem starfinu fylgir. Gæta skal ákvæða jafnréttislaga við launaákvarðanir.

Finna má tölulegar upplýsingar um launaþróun á almennum markaði á vefsíðu Hagstofu Íslands á slóðinni https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/laun-og-tekjur/

Ennfremur gerir BHM reglulega launakannanir meðal félagsmanna aðildarfélaga sinna þar sem spurt er um laun og aðra þætti sem tengjast kjörum og starfsumhverfi þeirra. Kjarakönnun BHM var síðast framkvæmd árið 2016. Sjá nánar hér.

Breytingar á ráðningarkjörum, umfram það sem leiðir af lögum eða kjarasamningum, skal staðfesta í ráðningarsamningi.

Réttindi

Starfsmenn eiga almennt rétt á launum í veikindum eftir því sem kveðið er á um í  lögum eða samið er um í kjarasamningi. 

Í kjarasamningi BHM er réttur til launa í veikindum háður því hversu lengi starfsmaður hefur unnið hjá viðkomandi vinnuveitanda.

Á fyrsta starfsári ber vinnuveitanda að greiða tvo daga fyrir hvern unnin mánuð. Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda greiðast 2 mánuðir á föstum launum á hverjum 12 mánuðum. Eftir 5 ára starf hjá sama vinnuveitanda greiðast 4 mánuðir og 6 mánuðir eftir 10 ára starf hjá sama vinnuveitanda á hverju 12 mánaða tímabili.

FYRIR LAUNAGREIÐENDUR

Til að greiða í sjóði BHM verður viðkomandi launþegi að vera félagsmaður í Fræðagarði eða öðru aðildarfélagi BHM. BHM innheimtir félags- og sjóðagjöld fyrir aðildarfélög sín.

Fyrir þá starfsmenn sem eru félagsmenn í einhverjum af aðildarfélögum BHM ber launagreiðendum að senda skilagreinar til BHM. Skilagreinar skulu vera fyrir hvern launamánuð með sundurliðun á öllum iðgjöldum til stéttarfélaga fyrir hvern launþega til Bókunar- og innheimtumiðstöðvar BHM, fyrir gjalddaga þ.e. 15. hvers mánaðar. Áríðandi er að rétt númer og heiti stéttarfélags komi fram á skilagreinum og að útreikningur iðgjalda sé réttur m.v. viðeigandi kjarasamning. Iðgjöld eiga að reiknast af launatekjum og skila þarf inn skilagreinum mánaðarlega.

Kröfur stofnast í netbanka þegar skilagrein hefur borist nema óskað hafi verið eftir öðrum greiðslumáta eða ef ávallt hefur verið millifært. Eigi greiðsla sér ekki stað fyrir eindaga eru reiknaðir dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags. Gjalddagi er 15. dagur næsta mánaðar eftir launamánuð en eindagi síðasti virki dagur gjalddaga mánaðar.

Launagreiðendur standi skil á eftirfarandi:            (% af heildarlaunum)

  • Félagsgjöld Fræðagarðs                                             0,95%         
  • Sjúkrasjóður BHM                                                       1%
  • Orlofssjóður BHM                                                       0,25%
  • Starfsmenntunarsjóður BHM                                     0,22%
  • Starfsþróunarsetur háskólamanna                           0,70%    (valkvætt)

Sjá nánar hér.

SJÁLFSTÆTT STARFANDI

Sjálfstætt starfandi aðilar verða sjálfir að standa skil á ofangreindu ásamt sköttum og gjöldum, svo sem staðgreiðslu skatta, lífeyrissjóðsgreiðslum og tryggingum, ásamt því að senda viðeigandi gögn inn til stofnana. 

Mikill munur er á stöðu sjálfstætt starfandi aðila og launþega, en lög og kjarasamningar tryggja launþegum ýmis réttindi sem sjálfstætt starfandi eru ekki tryggð, s.s. orlofs- og desemberuppbætur, orlof, slysatryggingu, rétt til launa í veikindum og á almennum frídögum.
Eins má nefna að við gjaldþrot verkkaupa eiga verktakar ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðasjóði launa. Þrátt fyrir að greitt sé tryggingagjald hafa sjálfstætt starfandi takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun (VMST) .

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar hér.