Fatahönnunarfélag Íslands
FÍ er fagfélag fatahönnuða á Íslandi. Markmið þess er að efla samheldni meðal þeirra sem starfa við fatahönnun á Íslandi og standa vörð um réttindi félagsmanna. Félagið leggur áherslu á að stuðla að öllu því er til framfara horfir í greininni og að efla hugvit innan íslenskrar fatahönnunar. Félagið leggur sig fram við að upplýsa almenning um fatahönnuði og þeirra starfsvettvang.
Indriði Guðmundsson
Indriði var mikill talsmaður fatahönnunarverðlauna á Íslandi. Honum þótti mikilvægt að félagið ætti sína eigin uppskeruhátið þar sem félgsmenn hittust, ræddu málin og fögnuðu saman.
Indriði var fagmaður fram í fingurgóma og helgaði sig leitinni að hinu fullkomna sniði. Hann lagði gríðarlega áherslu á gæði og fagmennsku og eins og hann lýsti sjálfur seldi hann ekki skyrtur, heldur uppáhaldsskyrtur. Hann sagðist leitast við að gera fullkomnar flíkur, fjöldaframleiddi eftir gömlum aðferðum og bar mikla virðingu fyrir handverkinu ásamt sköpunarferlinu sjálfu.
Indriði lagði auk þess mikið upp úr efnisvali. Gott dæmi um það eru bindin hans, en hann framleiddi 14 tegundir af svörtum bindum og lá munurinn á þeim í vefnaðinum.
Ferill Indriða
Indriði kenndi klæðskurð við Iðnskólann í Reykjavík árin 1994-2000 og síðar við Listaháskóla Íslands. Árið 1995 fór hann til Dublin og nam hjá Des Leech, heldri manna klæðskera, en þar skrifaði hann kennslubók í efnisfræðum. Á þessum árum vann hann einnig sem klæðskeri fyrir kvikmyndir eins og Bíódaga, Djöflaeyjuna og Benjamín dúfu ásamt búningagerð fyrir Þjóðleikhúsið, leikhópinn Augnablik og Hinn Íslenska dansflokk.
Árið 2000 hóf Indriði störf sem sjálfstætt starfandi sniðagerðarmaður fyrir íslenska hönnuði og verslanir. Má þar nefna Spakmannsspjarir, ELM og GK. Indriði var einn af stofnendum Fatahönnunarfélags Íslands.
Árið 2003 stofnaði Indriði verslun við Skólavörðustíg í Reykjavík. Þar verslaði hann með skyrtur og annan herrafatnað sem framleiddur var undir hans eigin nafni. Árið 2006 flutti hann verslun sína til Kaupmannahafnar og rak hana þar til hann lést þann 30. desember sama ár.
Meginmarkmið Indriðaverðlaunanna
Með verðlaununum vill Fatahönnunarfélag Íslands veita hönnuðum viðurkenningu fyrir starf sitt og framlag til íslenskrar fatahönnunar og beina ljósi að því besta sem er að gerast í íslenskri fatahönnun hverju sinni. Verðlaunin eiga að auka vitund og virðingu fyrir íslenskri fatahönnun.
Fyrirkomulag
Fimm manna dómnefnd, sem skipuð er af stjórn Fatahönnunarfélags Íslands, velur verðlaunahafann. Skilyrði er að meirihluti dómara séu hönnuðir. Dómnefndin skilar inn skriflegum niðurstöðum þar sem rök eru færð fyrir valinu.
Við val á hönnuði er litið til þeirra fatahönnuða sem eru með heilsteyptar fatalínur, hafa verið virkir ár seinustu tveim árum fyrir afhendingu verðlaunanna og þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Verðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar og því eru gæði og fagmennska lykilorð við val hönnuðar, hvort sem kemur að hugmyndum eða frágangi.
Indriðaverðlaunin 2018
- Dómnefnd 2018
- Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður og handhafi Indriðaverðlauna 2015, Dainius Bendikas aðjúnkt í fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands, Ellen Loftsdóttir, stílisti, Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands og María Kristín Jónsdóttir ritstjóri HA.
Niðurstaða dómnefndar 2018
„Spaksmannsspjarir er rótgróið fatamerki á Íslandi sem hefur frá upphafi verið þekkt fyrir gæði og mikla fagmennsku. Flíkurnar eru tímalausar, hugmyndafræði og heildarútlit er mjög sterk og Björg hugar vel að öllum öllum smáatriðum auk þess að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi.“
Indriðaverðlaunin 2015
- Dómnefnd 2015
- Erna Hreinsdóttir, ritstjóri á Nýju lífi og stílisti, Eyjólfur Pálsson, húsgagnaarkitekt, fyrir hönd Epal, Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Katrín María Káradóttir, fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands og verðlaunahafi Indriðaverðlaunanna 2013 og Linda Björg Árnadóttir fyrir hönd fagráðs Fatahönnunarfélags Íslands.
Niðurstaða dómnefndar 2015
"Indriðaverðlaunin eru veitt í þriðja skiptið í ár og eru þau veitt fatahönnuði sem að hefur með vinni sinni lagt áherslu á fagmennsku og vönduð vinnubrögð í anda Indriða Guðmundssonar klæðskera. Áður hafa verðlaunin verið veitt Steinunni Sigurðardóttur og Katrínu Káradóttur. Dómnefndinn komst einróma að þeirri niðurstöðu að sá/sú sem að verðlaunin skildi hljóta árið 2015 væri Bergþóra Guðnadóttir fyrir hönnun sína á fatamerkinu Framers Market."
Indriðaverðlaunin 2013
- Dómnefnd 2013
- Í dómnefnd sátu Halla Helgdóttir, Eyjólfur Pálsson, Erna Bergman, Steinunn Sigurðardóttir og Linda Björg Árnadóttir.
Niðurstaða dómnefndar 2013:
“Í ár hlýtur sá fatahönnuður Indriðaverðlaunin sem þykir hafa skarað fram úr á árunum 2011-2012. Dómnefnd komst að þeirri niðurstöðu að veita ætti Katrínu Maríu Káradóttur verðlaunin árið 2013 fyrir störf sín í faginu bæði hérlendi og erlendis, bæði fyrir hönnun og kennslu við fatahönnunardeild LHÍ.
Katrín María Káradóttir, menntaður klæðskeri og fatahönnuður, hefur í starfi sínu lagt mikla áherslu á vandaða sníðagerð, gæði, efni og frágang. Hún hefur starfað sem hönnuður fyrir erlend fyrirtæki s.s John Galliano, Lutz, Thomas Engelhart, Bali Barette og Martine Sitbon. Einnig hefur hún starfað fyrir íslensku fyrirtækin Andrea Mack og Ella en hún hefur verið yfirhönnuður Ella frá upphafi. Hún hefur starfað sem kennari við Listaháskóla Íslands í allmörg ár og er núna deildarstjóri fatahönnunardeildarinnar.
Hún hefur skilið eftir fingrafar klæðskerans á allri sinni vinnu sem einkennist af metnaði og fagmennsku.”
Indriðaverðlaunin 2011
- Dómnefnd 2011:
- Í dómnefnd sátu Halla Helgdóttir, Eyjólfur Pálsson, Anna Clausen, Valgerður Helga Schopka og Linda Björg Árnadóttir.
Niðurstöður dómnefndar 2011:
"Við val á hönnuði var litið til þeirra fatahönnuða sem eru með heilsteyptar fatalínur, hafa verið virkir á árunum 2009 og 2010 og þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði.
Verðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar og því eru gæði og fagmennska lykilorð við val hönnuðar, hvort sem kemur að hugmyndum eða frágangi. Dómnefndin telur að meginmarkmið verðlaunanna sé að leggja áherslu á góða og metnaðarfulla hönnun þar sem fagurfræði, vönduð efni og frágangur er í fyrirrúmi.
Niðurstaða dómnefndarinnar var að veita Steinunni Sigurðardóttur verðlaunin í ár. Dómnefndin var sammála um að hönnun Steinunnar sé metnaðarfull og að hún hafa skarað fram úr á sviði fatahönnunar. Hennar hönnun stendur bæði fyrir gæði og fagmennsku.
Steinunn hefur átt langan og farsælan feril sem hönnuður og hefur haft veruleg áhrif á fatahönnun á Íslandi."