Þessi jólaköttur étur einungis sætindi

Verslunin Rammagerðin hefur staðið fyrir þeirri skemmtilegu hefð síðan 2020 að fá hönnuði til að hanna sína eigin útgáfu af jólakettinum. Jólaköttur ársins er lentur en að þessu sinni var hönnunin í höndum mæðginanna Aldísar Einarsdóttur leirkerasmiðs og Davíðs Georgs Gunnarssonar arkitekts.
„Snemma í hönnunarferlinu vildum við einblína á handrennsluna,“ útskýra mæðginin og því sérstaklega mikil áhersla lögð á þróun formsins. „Einnig kom snemma til tals að gripurinn yrði gæddur einhverri fúnksjón sem gerir það að verkum að hægt er að stilla honum upp við mismunandi tilefni. Í þessari útgáfu étur kötturinn því einungis sætindi en ekki börn. Hver köttur er handrenndur og mótaður af mikilli alúð og virðing fyrir góðu handverki liggur á bakvið hvern grip,“ segja þau Aldís og Davíð Georg.





Sigrún Halla Unnarsdóttir verslunarstjóri Rammagerðarinnar segir að þessi skemmtilega hefð verslunarinnar, að biðja hönnuði að hanna köttinn hafi byrjað fyrir sex árum. „Rammagerðin selur hönnun og handverk frá fjölmörgum íslenskum hönnuðum og hefur gert það síðastliðin 85 ár, svo við þurfum ekki að leita langt eftir frábærum hönnuðum til samstarfs. Aldís hefur selt börur sínar hjá Rammagerðinni í fjölmörg ár og Davíð Georg hefur svo bæst í hópinn en við sækjumst jafnan eftir fagmennsku og frumlegheitum.“
Aðspurð um jólavertíðina sem nú er brostin á segir Sigrún Halla að hún leggist vel í starfsfólkið. „Rammagerðin er sannkallað jólagjafahimnaríki, stútfullt af íslenskri hönnun og handverki. Jólakötturinn er rúsínan í pylsuendanum hjá okkur en svo erum við með vörur frá Fischersundi ilmhúsi sem nýlega vann Verk ársins á Hönnunarverðlaununum. Jólakertin frá þeim eru ómissandi yfir hátíðarnar. Við hvetjum alla til að kíkja í miðbæinn af aðventunni!“

