Þetta snýst um grundvallaratriðin
– Ólafur Elíasson
Verk Ólafs Elíassonar myndlistarmanns hafa vakið athygli um allan heim en einkennismerki þeirra er frjáls leikur á mörkum myndlistar, arkitektúrs og hönnunar.
EKKI GÓÐUR Í MÖRGU
Þegar við hittumst var Ólafur nýkominn úr flugi frá Kaupmannahöfn þar sem hann hélt sýningu á tískuvikunni til þess að kynna sólarorkuverkefnið sitt, Little Sun, sem hann setti á laggirnar til að þjónusta samfélög sem ekki hafa greiðan aðgang að orkulindum (sjá littlesun.com).
Aðgreining milli myndlistar, arkitektúrs og jafnvel vélfræði er óljós í verkum þínum. Er það meðvituð ákvörðun?
Ég reyni að sýna því virðingu að ég er myndlistarmaður og verð að viðurkenna að það er það eina sem ég er eitthvað góður í. Ég stofnaði arkitektastofu með verkefnastjóranum mínum sem ég hef unnið lengi með, Sebastian Behmann, í ljósi þess að sem arkitekt getur hann einfaldlega gert hluti sem ég get ekki. Þess vegna starfa 100 manns á vinnustofunni minni. Ég gerði allt sjálfur í gamla daga þegar ég var einn. Það var mikilvægt augnablik þegar ég uppgötvaði að það er betra að fólk sem veit hvað það er að gera takist á við það sem ég er ekki góður í. Það þýðir að ég stend í raun eftir með listræna stjórnun.
Ég er með pólitískan ráðgjafa sem er virkilega fær í sínu fagi og ég hringi í hann þegar ég þarf að setjast niður í nokkra klukkutíma til þess að öðlast skilning á flóknu vandamáli sem vefst fyrir mér. Þegar ég var yngri hélt ég að ég væri frábær í öllu. Seinna hef ég áttað mig á því að það er ekki sérlega margt sem ég er góður í.
Ég reyni að sýna því virðingu að ég er myndlistarmaður og verð að viðurkenna að það er það eina sem ég er eitthvað góður í.
NÁTTÚRAN SEM SLÍK ER EKKI LENGUR TIL
Ef maður ætti að finna eitt gegnumgangandi þema í verkum þínum gæti það verið náttúran í víðasta skilningi þess orðs.
Frá upphafi hef ég tekist á við þá rótgrónu hugmynd að hægt sé að aðgreina menningu og náttúru – sem er í raun ekki til. Þannig að ég tel að náttúran, sem einangrað fyrirbæri, sé ekki lengur til. Við erum lífverur en það hvernig við höfum notað meðvitund okkar og heila til að þróast er menningarlegt fyrirbæri. Það mætti því segja að reynsla af listaverki sé að einhverju leyti náttúruleg, vegna þess að það hvernig augu okkar virka er tæknilega séð líffræðilegt ferli, en það hvernig við búum til merkingu úr því sem við sjáum er menningarlegt ferli.
Ég er hrifinn af Íslandi meðal annars vegna þess að ég heillast af fossum, regnbogum, birtunni og því hvernig þessi fyrirbæri hafa mótað okkur. Ég hrífst af fossum ekki einvörðungu fossanna vegna, ég hef áhuga á sambandi okkar við þá. Það má segja að ég hafi ekki áhuga á náttúru fossins heldur hvernig hann hefur áhrif á mig sem manneskju. Ég hef líka mikinn áhuga á félags- og náttúruvísindunum sem búa þarna að baki og myndi segja að áhugi minn á arkitektúr falli í þennan flokk líka. Ég hef ekki sérlega mikinn áhuga á því hvernig hús er byggt – ég hef áhuga á virkni hússins, formi þess og líðan fólksins inni í því. Hvernig þessir þættir geta skapað nýja reynslu sem endurskilgreinir híbýli og gestrisni.
TEYGJANLEGT SAMBAND VIÐ NÁKVÆMNI
Ólafur vann með arkitektinum Einari Þorsteini í áraraðir og í sameiningu gerðu þeir verk á borð við By Means Of a Sudden Intuitive Realization (1996), sem er staðsett við nútímalistasafnið Inhotim í Brasilíu, og 8900054 (1996), sem var óður til Buckminster Fuller og stendur fyrir utan nútímalistasafnið Arken í nágrenni Kaupmannahafnar. Meginviðfangsefni Einars undir lok ævi hans og ferils var gullinfangið, eða fimmföld samhverfa, sem var einn helsti innblásturinn að hönnun Ólafs fyrir Hörpu tónlistarhús.
Samband þitt við Einar Þorstein var sérstakt. Að hvaða leyti hafði hann áhrif á þig?
Einar var framsýnn hugsuður sem hafði nýstárlegar hugmyndir um samband mannkyns og náttúrunnar sem á sínum tíma voru róttækar. Ég kunni vel að meta heimssýn hans jafnvel þótt hún væri mjög útópísk. Það er svo lítið rými fyrir þessa tegund hugsunar en hún er mjög mikilvæg. Hann var með magnaða hugmynd um að setja þak á hálendið og búa til nýtt samfélag. Eins klikkað og það kann að hljóma þá gæti þetta orðið að veruleika á tímum róttækra búsetuforma. Hans áskorun var að hann var í raun 100 árum á undan sínum samtíma.
Einar bjó yfir þeirri náðargáfu að sjá heiminn margtóna og í mörgum víddum. Sýn hans var sjaldnast metin að verðleikum og honum mistókst að vissu leyti að skapa sér starfsferil, sem ég hugsa að hafi verið vegna þess að arkitektasamfélagið á Íslandi var mjög einangrað og hvorki tók hann inn né kunni að meta hann. Það má líka segja að hann hafi verið erfiður en ég hugsa að á vinnustofu listamanns séu ólík sjónarmið metin meira en það sem þarf til þess að reka arðbæra arkitektastofu. Einar átti sinn eigin alheim í einu horninu í stúdíóinu og allir vissu hvenær óhætt var að nálgast hann og hvenær ekki. Hann gat verið mjög erfiður í langan tíma en svo komu tímabil þar sem hann var bæði elskulegur og sjarmerandi.
Við deildum sameiginlegum áhugamálum: algebru, rúmfræði og kristallafræði. Einn af mörgum hæfileikum hans var að hann átti ekki í erfiðleikum með að ræða form og flókna rúmfræði. Jafnvel þótt hann væri mjög hæfileikaríkur á sviði stærðfræði átti Einar að sama skapi í teygjanlegu sambandi við stærðfræðilega nákvæmni. Hann var aldrei hræddur við að kreista horn ef það passaði ekki alveg [hlær]. Ég myndi gera nákvæmlega það sama vegna þess að fyrir mér snýst þetta meira um grundvallaratriði. Við Einar hlógum oft að þessu. Okkur fannst verkefni aldrei vera rangt vegna þess að stærðfræðin gekk ekki upp – okkur fannst frekar að stærðfræðin hefði ekki þróast í takt við það sem við vorum að vinna að.
Okkur fannst verkefni aldrei vera rangt vegna þess að stærðfræðin gekk ekki upp – okkur fannst frekar að stærðfræðin hefði ekki þróast í takt við það sem við vorum að vinna að.
MIÐLÆGUR MENNINGARGEIRI
Nýlegri verk eftir Ólaf eru meðal annars Cirkelbroen í Kaupmannahöfn og Fjordenhus – fyrsta byggingin sem hönnuð er að öllu leyti af Studio Olafur Eliasson – en þar voru 970.000 múrsteinar notaðir við byggingu fjögurra hringja sem skarast og tengjast við höfnina í Vejle í Danmörku. Ólafur hefur unnið með stórfyrirtækjum í einkageiranum á borð við BMW og Louis Vuitton en vinnur núna að vörum fyrir Little Sun-verkefnið í samstarfi við IKEA.
Þú virðist vera kominn meira út í hönnun og arkitektúr en áður…
Bygging Fjordenhus var mjög stór framkvæmd og í því ferli hafði ég mikinn áhuga á spurningum varðandi skynjun, mannslíkamann og rýmiskenningar síðustu hundrað ára. Við Sebastian og arkitektateymi stúdíósins unnum með verkfræðingum, efnissérfræðingum, umhverfisfræðingum, sérfræðingum í orkunotkun og við hljóðinnsetninguna nutum við krafta sérfræðings á sviði sinfóníuflutnings. Samanlagðir hæfileikar þessara sérfræðinga tóku verkefnið upp á annað stig. Ég einblíni að miklu leyti bara á listrænu möguleikana og sérfræðingarnir hjálpa mér að gera þá að veruleika.
Ég lít ekki svo á að menningargeirinn sé að færast nær einkageiranum en ég held að einkageirinn eigi í basli með að viðhalda traustri ímynd og mikilvægi vörumerkja og teygi sig því í auknum mæli til hins svokallaða menningargeira. Í þessu samhengi er mikilvægt að mínu mati að menningargeirinn, ég þar með talinn, nýtur velgengni vegna þess að hann er traustvekjandi. Menningargeirinn gengur ekki út á að græða á fólki heldur vinnur hann í þeirra þágu.
Ég hef í raun upplifað miklar breytingar á því hlutverki sem menning leikur í borgaralegu samfélagi. Í fyrsta skipti er myndlist ekki framúrstefnuleg – í þeim skilningi að hún sé á undan sínum samtíma eða útópía. Menning er orðin mikilvægur liður í að viðhalda stöðugleika samfélaga. Við skulum ekki vanmeta þá staðreynd að það vinna fleiri manneskjur í menningargeiranum í Evrópu en við bílaframleiðslu. Sem efnahagslegt afl ættum við að hætta að hugsa um menningargeirann sem jaðarfyrirbæri í samfélagsgerðinni.
HVERNIG VIÐ LIFUM SKIPTIR MÁLI
Er mikilvægt fyrir þig að verkin þín hafi pólitísk áhrif?
Ég held að þetta snúist um að vera meðvitaður og finnast maður tilheyra samfélagi. Þegar maður upplifir útskúfun fer manni að finnast að eigin skoðanir og athafnir skipti engu máli. Þá hættir þú að kjósa og aftengist. Ég held að þessar andstæðu samfélagslegu fylkingar, popúlisminn, öfga-hægri og öfga-vinstri, séu afsprengi þess að fólk upplifi að það sé útilokað og enginn hlusti á það.
Eitt það besta sem hönnun og menning, og líka það sem við köllum borgaralegt traust, getur leitt af sér er tilfinningin að tilheyra. Ég hef þess vegna áhuga á að skapa tungumál, hönnun og list sem hlúir að þessari tilfinningu, að það sem við gerum, hvernig við sjáum heiminn og hvernig við lifum skipti virkilega máli.
Viðtalið birtist fyrst í 8. tbl. HA, 2018