Björg Torfadóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Arkitektafélags Íslands

Björg Torfadóttir er nýr framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands og tekur við starfinu af Elísu Jóhannsdóttur, en í ágúst munu þær vera báðar á skrifstofu félagsins.
Björg Torfadóttir er með BA í stjórnmálafræði frá HÍ og master í verkefnastjórnun (MPM) frá HR. Síðastliðin sex ár hefur Björg unnið fyrir utanríkisáðuneytið, nú síðast sem sérfræðingur í mannauðsdeild ráðuneytisins. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri við RIFF alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík og þar áður sem verkefnastjóri hjá HB Granda.
Bjargar bíða fjölbreytt og spennandi verkefni á næstunni og má þar telja fund norrænu arkitektafélaganna sem fram fer á Íslandi í október, spennandi samkeppnir, uppfærslu á siðareglum auk þess sem von er á heimsfrægum arkitektum til landsins á næstu mánuðum.
Við þökkum Elísu fyrir vel unnin störf og bjóðum Björgu velkomna til starfa. Óhætt er að segja að veturinn framundan sé spennandi.