DesignTalks 2022 - Susanne Vos, stafrænn fatahönnuður

19. apríl 2022

Susanne Vos, stafrænn fatahönnuður, kemur fram á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.

Susanne Vos er stafrænn fatahönnuður hjá stafræna hátískuhúsinu The Fabricant og brautryðjandi innan WEB3, nýs veraldarvefs sem leggur áherslu á að höfundarréttur efnis liggi hjá einstaklingum í stað fyrirtækja. Susanne útskrifaðist frá Willem de Koonig Academy í Rotterdam þar sem hún lagði áherslu á hvernig hægt væri að endurnýta eldri flíkur og vinna þær í nýju samhengi. Hönnun hennar hverfist ávallt um spurninguna hvað flíkur séu og af hverju við klæðumst þeim. Í verkum sínum vinnur Susanne klæðnað í þrívíddarforritum þar sem hún blandar saman bakgrunni sínum í fatahönnun og klæðskurði. Susanne gekk til liðs við The Fabricant fyrir tveimur árum og starfar með stofnanda og sköpunarstjóra Amber Jae Slooten að uppbyggingu fyrirtækisins. 

Stafræna tískuhúsið The Fabricant, kannar mörkin á milli tísku og tækni og er brautryðjandi í nýrri tegund fatahönnunar, þ.e. fatnaði sem fyrirfinnst einungis í stafrænum heimi, aldrei í raunheimi. Markmið tískuhússins er að sýna fram á að föt þurfa ekki að vera framleidd efnislega til þess að vera til. The Fabricant trúir því að stafrænn tískuheimur opni á óteljandi nýjar skapandi leiðir, langt út fyrir mörk raunheimsins, auk þess sem stafræn tíska eykur sjálfbærni og dregur úr neikvæðum umhverfisáhrifum tískuiðnaðarins. Stafræn tíska er vítt og ókannað svið þar sem hið áður ómögulega er nú mögulegt og vettvangur þar sem hver og einn hefur fullt frelsi til þess að vera skapandi og leika sér með persónulega tjáningu í tísku. The Fabricant hefur starfað með mörgum alþjóðlegum fyrirtækjum og hönnuðum á borð við Puma, Adidas og Sadie Clayton.

DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu og stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp. 

Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.

Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.”
- Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.

Búið er tilkynna þau Arnhildi Pálmadóttur, arkitektGabriela Sánchez y Sánchez de la Barquera, sköpunarstjóra, Aamu Song og Johan Olin, listamenn og hönnuði hjá Company,  Anders Lendager, arkitekt, framkvæmdastjóra og stofnanda Lendager Group,  Liam Young, leikstjóra og sci-fi arkitekt, Giorgiu Lupi, upplýsingahönnuð og partner hjá PentagramStefán Laxness, arkitekt og fræðimann og Valdís Steinarsdóttir, hönnuð.

Það stefnir í fjölbreyttan dag í Hörpu þann 4. maí  - fylgstu með hér er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022.

DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar sem í ár breiðir úr sér um höfuðborgarsvæðið dagana 4. - 8. maí!

Dagsetning
19. apríl 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • DesignTalks
  • HönnunarMars