Fyrsta vörulína Miklo frumsýnd í Mikado

30. nóvember 2023

Íslenska hönnunarstúdíóið Studio Miklo frumsýnir fyrstu vörulínu sína í versluninni Mikado. Vörulínan samanstendur af handmótuðum munum úr steinleir sem einkennast af hringlaga formum án upphafs og enda.

STUDIO MIKLO er hönnunarteymi stofnað árið 2021 af hönnuðunum Helgu Björk Ottósdóttur og Hjördísi Gestsdóttur. Studio Miklo vinnur á mörkum myndlistar og hönnunar og er ferlinu leyft að ráða ferðinni á milli mismunandi efnisheima hverju sinni. Vörurnar í nýju línunni eru handmótaðar og því engin vara nákvæmlega eins. Öll framleiðslan fer fram á Íslandi.

Opnunin fer fram í Mikado Reykjavík á Hafnartorgi í dag, fimmtudaginn 30. nóvember, kl. 17:00 - 18:00. Mikado Reykjavík er hönnunarrými og lífstílsverslun með sterka áherslu á japanska og skandinavíska fagurfræði.

Hönnunarteymið Studio Miklo, Helga Björk Ottósdóttir og Hjördís Gestsdóttir
Dagsetning
30. nóvember 2023
Höfundur
Klara Rún Ragnarsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun