Hönnuðir eiga að vera forvitnir og spyrja spurninga

Thelma Rut Gunnarsdóttir úrskrifaðist með BA í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2023 og síðan þá hefur verið brjálað að gera, bókstaflega. Hún fór í starfsnám til London, stofnaði töskumerkið Suskin með Karítas Spanó og tók þátt í tískusýningu LHÍ Young Talents of Fashion á síðasta HönnunarMars með eigið merki. Thelma Rut er Hönnuður í fókus sem er fastur liður hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, þar sem hönnuðir og arkitektar eru teknir tali.
„Það er algjört lykilatriði að vera með rými til þess að halda sköpunarkraftinum á lífi,” segir Thelma Rut. Hún segir mjög mikilvægt fyrir sig að sköpunarrýmið sé ekki inni á heimilinu, heldur staður þangað sem hægt er að beina allri orku og tíma til að búa til eitthvað nýtt. Annað sem skipti sköpum hjá henni eftir skólann var að fara í starfsnám til London. „Ég var hjá hönnuði sem heitir Jamie McKenna og á merkið Callon London. Þar lærði ég ótrúlega mikið, til dæmis að prjóna og gera snið fyrir prjónavél. Jamie er mjög upptekin af slow fashion og alvöru handverki (e. craftmanship) sem rímar mjög vel við mínar áherslur í hönnun. Hvert smáatriði skiptir miklu máli og ég var oft heila viku að vinna kannski bara eina ermi á peysu.“
Skiptir máli að efla menningu og hreyfa við fólki
Talið berst að hraðtísku og hægari tísku. Thelma segir að hægtíska og það að vanda handverk og útfærslu á hverju einasta smáatriði sé eitthvað sem margir fatahönnuðir í dag leggi mikla áherslu á. „Mér finnst ekkert endilega æðisleg tilhugsun að framleiða meira efni en er til í heiminum í dag og hef sjálf ekki áhuga á fjöldaframleiðslu. Heimurinn allur er ekki kominn þangað en draumurinn er að þetta breytist og ég vil vera hluti af þeirri breytingu sem vonandi er að eiga sér stað, að fólk kunni betur að meta gæði,” segir hún og bætir við að það skipti máli að halda áfram að efla menningu og upplifanir sem hreyfa við fólki á einn eða annan hátt. „Þar vil ég leggja allt mitt af mörkum og gera það vel.“ Thelma bætir við að gæði í fatahönnun séu ekki síst fólgin í því að nostra við smáatriði og vanda sig við hvert handtak. „Fólk gleymir því stundum að öll föt og fylgihlutir eru búin til með ótal handtökun hönnuða og framleiðanda. Föt verða meira virði þegar við áttum okkur á vinnunni sem liggur að baki þeirra.“






Fötin sem við klæðumst stórt tjáningarform
Thelma Rut var ein af sex fatahönnuðum Young Talents of Fashion sem sýndu útskriftarlínu sína í Landsbankanum á síðasta HönnunarMars. Óhætt er að segja að fötin hennar hafi vakið athygli en henni tekst afar vel að gera skvísuföt út prjóni og hekli. „Ég fattaði dálítið seint hvað prjón og hekl hefur alltaf talað til mín og þá meikaði svo mikinn sens að hekla alla lokalínuna mína. Báðar ömmur mínar prjónuðu mjög mikið og þessi tækni heillar mig. Það spilar klárlega inn í að alast upp Íslandi þar sem þetta handverk á sterkar rætur.“ Hennar hönnunarferli einkennist af einlægni, þolinmæði og tjáningu. „Að vinna hverja einustu flík ítengingu við eigin líkama og stíl getur líka verið berskjaldandi. Flíkur eru það sem er næstokkur, liggja upp við húðina á okkur og klæðnaður er stórt tjáningarform á því hver við erum og hvaðan við komum. Persónulegur stíll hvers og eins hefur alltaf heillað migog setur lit inn í mitt hönnunarferli.Hvert ferli hefur kennt mér mikið um sjálfan mig og þróað með mér lausnamiðaða hugsun,þolinmæði og forvitni.“ Þó hún nefni forvitni vill hún þróa með sér enn meiri forvitni. „Mér finnst mikilvægt að hönnuðir séu forvitnir um umhverfi sitt og spyrji spurninga.“
Gefur mest þegar fötin lifna við á öðrum
Áhugi Thelmu á fatahönnun kviknaði þegar hún byrjaði að hanna föt á sig sjálfa en hún pælir mikið í því hvernig er hægt að hanna á kvenlíkamann og ýkja kvenlegar línur. „Svo finnst mér svo geggjað að taka eitthvað sem er sveitó einsog ullin og búa til eitthvað úr henni sem mér finnst klæðilegt og komplimenterar kvenlíkamann. Það er þetta með að finna rétta klassið, láta tvo hluti sem passa ekki saman, virka.“ Sem hönnuður segir hún að það gefi henni allra mest þegar fólk fer í föt frá henni og bara lýsist upp. „Það er svo langmest gefandi í þessu öllu að sjá hvernig föt hjálpa fólki að tjá sig og gefa því auka sjálfstraust. Það er minn helsti drifkraftur.“








Teymi Suskin óvænt match
Þessar pælingar með að tvinna saman tvö ólík element og láta þau virka er grunnurinn að Suskin (https://suskin.is/), töskumerki sem hún og Karítas Spanó eiga saman. „Við Karítas erum mjög ólíkar, algjörlega svart og hvítt. Við kynntumst í LHÍ og fórum saman í skiptinám til Parísar. Þar bjuggum við saman í sardínuboxi, sváfum í sama rúmi og eyddum öllum sólarhringum saman.“ Hún segir að tíminn í París hafi verið ágætis tilraun á það hvernig vinnusamband þeirra myndi virka – sem það hefur sannarlega gert. „Við erum klárlega óvænt match og úr varð eitt fallegasta vinasamband sem ég á. Við höfum starfað saman í 2 ár og gengið alveg sjúklega vel. Ef önnur fer að efast, byrjar hin að peppa og öfugt.“
Hægtíska og alvöru handverk
Efnið fyrir fyrstu Suskin töskurnar fundu Thelma og Karítas í listageymslu í útjaðri Parísarborgar. „Þetta var einhvers konar Sorpa slash Góði hirðirinn þar sem mátti finna allt milli himins og jarðar. Við enduðum á deadstock leður svæði þar sem við keyptum efnið í fyrstu töskurnar ásamt allskonar skrúfum og öðru dóti sem okkur fannst henta,“ útskýrir hún. Framleiðsluferlið hefur þróast og nú skipta þær stöllur við leðurframleiðslu sem selur deadstock leður eða afgangsleður frá stórum merkjum einsog Gucci og Balenciaga. „Þau sendu okkur ótal myndir af efnum og við völdum ólíka liti og áferð. Útkoman er skemmtileg, efnið endist auðvitað mjög vel og við höldum fast í okkar trú á hægtísku og alvöru handverk.“ Það er óhætt að segja að viðtökurnar á töskunum hafi verið góðar. „Við vorum búnar að vinna svo lengi í þessu, pæla í hverju einasta smáatriði og standa fast með því sem við trúum á! En við vorum bara alls ekki að búast við svona góðum viðbrögðum!“ Þegar þetta er ritað er fjöldi Suskin töskur þarna úti sem vekja athygli í hvívetna, hver með sitt einstaka útlit – og von er á fleirum.
Þó framtíðin liggi ekki fyrir í smáatriðum er næsta víst að Thelma Rut hefur ýmislegt á prjónunum, bókstaflega. „Okkur Karítas dreymir um að finna stúdíó og hanna fatalínu, svo klárlega held ég áfram að hekla og lifa í flæði.
Klárum þetta með því að spyrja Thelmu Rut hver er uppáhalds flíkin hennar. „Það er hvítt plíserað pils með blúndu yfir mjaðmirnar sem ég keypti á nytjamarkaði í París árið 2022. Pilsið talar mjög mikið við minn persónulega stíl og hef ég gengið í því nánast alla daga síðan.

