HönnunarMars 2024 í apríl

21. júní 2023

HönnunarMars verður haldinn í sextánda sinn um allt höfuðborgarsvæðið dagana 24. - 28. apríl 2024. HönnunarMars er hátíð hönnunar og arktitektúrs þar sem fjölbreyttar og forvitnilegar sýningar, viðburðir og samtöl veita þátttakendum og gestum innblástur og innsýn í nýjar lausnir og skapandi hugmyndir sem takast á við áskoranir samtímans.

Dagskrá hátíðarinnar spannar allt frá arkitektúr, grafískrar hönnunar til fatahönnunar, vöruhönnunar, stafrænnar hönnunar og allt þar á milli. Hátíðin er ein af borgarhátíðum Reykjavíkur og hefur farið fram árlega frá árinu 2009, þetta verður því í sextánda sinn sem gestum gefst tækifæri til að kynnast því sem er gerast í hönnun og arkitektúr þvert á fögin. 

Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks er lykilviðburður hátíðarinnar og fer fram miðvikudaginn 24. apríl í Hörpu. Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir innblástur og samtal um helstu þróun og breytingar knúin áfram af hönnun og arkitektúr - og ein sú skemmtilegasta!

Rifjaðu upp stemminguna frá HönnunarMars 2023 hér:

Almennt um HönnunarMars:
HönnunarMars er hönnunarhátíð þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti. HönnunarMars boðar nýjungar og óvænta nálgun. Hátíðin er lífleg höfn hugmynda, ólíkra sjónarmiða og þekkingar, hreyfiafl sem auðgar og bætir samfélagið.

Hátíðin er skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og hefur farið fram árlega síðan árið 2009. Hún er eitt helsta kynningarverkefni íslenskrar hönnunar og arkitektúrs innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi.

Mörg hundruð viðburðir, sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar eru ár hvert, skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arkitektum, fyrirtækjum og stofnunum en þátttakendur eru um 400 talsins á hverju ári auk þess sem þátttaka erlendra gesta eykst með hverju árinu.

HönnunarMars er ein af fáum hönnunarhátíðum í heiminum þar sem ólíkar fagreinar hönnunar og arkitektúrs koma saman, allt frá fatahönnun til vöruhönnunar, arkitektúrs, grafískrar hönnunar, textílhönnunar, leirlistar, þjónustuhönnunar, stafræn hönnunar svo dæmi séu nefnd.

HönnunarMars 2023 í myndum

Dagsetning
21. júní 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir
Ljósmyndari
Aldís Páls

Tögg

  • Greinar
  • HönnunarMars