Innflutningsboð Studio Allsber og opnun sýningarinnar Sund í Hönnunarsafni Íslands

2. mars 2022

Laugardaginn 5. mars kl. 15:00 býður Hönnunarsafn Íslands í innflutningsboð hjá Studio Allsber og á opnun sýningarinnar SUND en báðar sýningar opnuðu á tímum samkomutakmarkana og því kjörið að fagna nú þegar öllu hefur verið aflétt.

Studio allsber samanstendur af vöruhönnuðunum Agnesi Freyju Björnsdóttur, Silvíu Sif Ólafsdóttir og Sylvíu Dröfn Jónsdóttur. Samtöl fólks í sundlaugum og samband manna og fugla munu koma við sögu í hönnunarferlinu sem lýkur með uppskeruhátíð á HönnunarMars 2022, sem fer fram dagana 4. - 8. maí.

Sýningin SUND nær yfir tímabilið frá sundvakningunni við upphaf 20. aldar til dagsins í dag. Sagan sem hún segir af sundlaugamenningu er um leið ylvolg sagan af íslensku nútímasamfélagi með léttri angan af klór og hveralykt, gufuslæðu og skvampi.

„Það koma mörg svið hönnunar við sögu í sundlaugamenningu en fyrst og fremst skoðum við sundið sem samfélagshönnun, því laugarnar hafa mótað samfélag og menningu fólksins í landinu í meira en öld – og þetta er ótrúlega merkileg saga sem sýningin gerir skil," segir Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður og annar sýningarstjóra í samtali við Fréttablaðið hér.

Sýningarstjórar er sem fyrr segir Brynhildur ásamt Valdimar T. Hafstein, þjóðfræðingi. Grafísk hönnun: Ármann Agnarsson og Helgi Páll. Sýningin er styrkt af Safnasjóði

Dagsetning
2. mars 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarsafn Íslands
  • Fagfélög