Ísland tekur þátt í fyrsta skipti: Lavaforming leggur Feneyjar undir sig
Sýningin Lavaforming eftir Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt s.ap arkitekta, er fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í ár og opnar eftir 6 daga. Uppsetning á íslenska skálanum er í fullum gangi. Í ár taka 66 þjóðir þátt og sýningin stendur yfir fram í nóvember. Ísland tekur þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr í fyrsta skipti í ár.
Staðbundinni ógn breytt í auðlind
Lavaforming er saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð þar sem rennandi hraun er beislað og nýtt sem byggingarefni framtíðarborga. Þannig er staðbundinni ógn breytt í auðlind. Í skálanum sjá gestir m.a. kvikmynd þar sem fjallað er um samfélag manna árið 2150 þar sem innviðir borga, húsnæði og mannvirki, eru mótuð úr hrauni. Áhorfendur skyggnast inn í líf sex einstaklinga sem deila sögum sínum þar sem hið byltingarkennda byggingarefni, hraun, spilar stórt hlutverk.
Í okkar sögu höfum við beislað hraunrennslið líkt og við gerðum með gufuaflið á 20. öld. Við vörðum söguna með atburðum sem höfðu áhrif á þróun og tækni en markmiðið er að sýna að arkitektúr getur verið krafturinn til að endurhugsa og móta nýja framtíð. Hraunflæði getur falið í sér nóg byggingarefni fyrir grunnstoðir heillar borgar sem rís á nokkrum vikum án skaðlegrar námuvinnslu og óendurnýtanlegrar orkuöflunar.
Á bak við Lavaforming standa auk Arnhildar þau Arnar Skarphéðinsson, arkitekt og meðhöfundur, Björg Skarphéðinsdóttir, hönnuður, Sukanya Mukherjee, arkitekt, Andri Snær Magnason, rithöfundur og Jack Armitage, tónlistarmaður og hönnuður.
Mikill áhugi fjölmiðla
Erlendir sem innlendir fjölmiðlar sýna verkefninu mikinn áhuga. Sem dæmi er íslenski skálinn á topp 5 lista Financial Times, sem ráðleggur fólki að missa alls ekki af Lavaforming! Að auki hefur verið fjallað um verkefnið hjá Dezeen, World Architecture, MIT Technology Review, The Architect’s Newspaper og víðar.
Komdu með okkur til Feneyja!
Á Instagram síðu Lavaforming er hægt að skyggnast bakvið tjöldin, sjá íslenska skálann, opnunina og kynnast teyminu á bakvið verkefnið.
Frekari upplýsingar um íslenska skálann, íslenska teymið og verkefnið í heild sinni er að finna á nýopnaðri vefsíðu Feneyjatvíæringsins.