Letur sem form
– Studio Studio
Studio Studio samanstendur af hönnuðunum Arnari Frey Guðmundssyni og Birnu Geirfinnsdóttur. Helstu verkefni þeirra eru á sviði bókahönnunar, týpógrafíu, heildarútlits og ritstjórnar. Auk þess hafa þau fengist við kennslu, bæði erlendis og við Listaháskóla Íslands, þar sem Birna gegnir hlutverki fagstjóra í grafískri hönnun.
Letur fyrst og fremst
Birna og Arnar Freyr lærðu bæði grafíska hönnun við LHÍ auk þess sem Birna lauk MA-námi í bókahönnun frá háskólanum í Reading í Bretlandi. Þau hafa bæði unnið við og sinnt verkefnum innanlands og utan, tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og sýningum og nú nýlega stýrt stuttum námskeiðum í Þýskalandi. „Við höfum mikinn áhuga á letri og leturnotkun og nálgumst flest okkar verkefni týpógrafískt. Letur getur bæði miðlað upplýsingum í formi texta og verið myndlýsing. Nálgunin getur því oft orðið mjög abstrakt,“ segir Arnar.
Það getur verið mikið þolinmæðisverk að vinna með texta en það er mikilvægt að skilja mismunandi tilgang og hlutverk þess texta sem unnið er með hverju sinni. „Við reynum að setja okkur inn í efnið, oft gefst ekki tími til að lesa textann orð fyrir orð, ef um mjög langan texta er að ræða, en við reynum að ná röddinni í textanum, hvernig hann er skipulagður og byggður upp og svo að finna úrlausn sem hæfir,“ segir Birna. Bæði eru þau sammála um að markmiðið sé að sameina handbragð, hugmyndafræði og rannsókn og að allir þættir hvers viðfangsefnis skipti máli þegar komi að því að skapa sannfærandi heildarmynd. „Öll verkefni krefjast ákveðinnar endurskoðunar og það er erfitt að búa til stílsnið sem virkar þvert á verkefni,“ segir Arnar: „Það er auðvitað mjög gefandi að ögra fyrirfram ákveðnum formum og finna nýjar leiðir í framsetningu.“
Mikilvægi týpógrafíu er óumdeilanlegt að þeirra mati og Birna útskýrir það nánar: „Týpógrafíu er oft ruglað saman við leturhönnun, það væri kannski hægt að útskýra muninn í stuttu máli með því að segja að týpógrafía sé hönnun með letri en leturhönnun er, eins og nafnið gefur til kynna, hönnun á letri. Þegar þú ert að vinna að bók sem er aðallega samfelldur texti ertu að vinna mest með lesanleika textans, hversu auðvelt eða þægilegt er að lesa hann – hvað eru línurnar langar, línubilið mikið, er hann vinstri- eða aljafnaður? Hvernig er orðum skipt? Hvaða eiginleikar í uppsetningunni stuðla að því að hann flæði sem best? Með læsileika er átt við upplýsingar sem þú þarft að ná á knöppum tíma, á borð við merkingar og skilti. Eitthvað sem er á stærri skala og þarf að vera læsilegt svo þú áttir þig strax á inntakinu. Týpógrafía er þess eðlis að þú átt ekkert endilega að taka eftir henni.“
Týpógrafía er þess eðlis að þú átt ekkert endilega að taka eftir henni.
Mikilvægi samtalsins
Verkefni stúdíósins eru af mjög fjölbreyttum toga þó að flest þeirra séu unnin fyrir menningarstofnanir, listasöfn og listamenn. Fyrr á þessu ári kom til að mynda út yfirlitsbók með verkum Rögnu Róbertsdóttur myndlistarkonu, gefin út af þýsku bókaútgáfunni DISTANZ, sem Studio Studio vann í nánu samstarfi við Rögnu.
Samstarfið hófst á ítarlegu samtali en undirbúningur og vinnsla verkefnisins tók um það bil eitt og hálft ár. „Við þekktum verk Rögnu og vissum að það væri áhugi fyrir því að gefa út yfirlitsbók. Það skiptir miklu máli að hafa áhuga á viðfangsefninu og leyfa sér að vera forvitinn,“ segir Arnar og heldur áfram: „Þegar hjólin voru farin að snúast fengum við aðgang að myndasafni hennar og flokkuðum feril hennar í ellefu kafla, eins konar þemu fremur en tímaröð, í nánu samstarfi við hana.“ Efnið spannaði 33 ár af ferli Rögnu og því er óhætt að segja að verkefnið hafi verið yfirgripsmikið. „Vinna af þessum toga er alltaf mest gefandi, þegar við höfum tök á að vera þátttakendur frá upphafi verkefnisins til enda, þar sem allir eru í virku samtali og láta sig verkið varða,“ segir Arnar. „Krefjandi textaverkefni þar sem unnið er með marglaga og flóknar upplýsingar eru einnig mjög gefandi,“ segir Birna og vísar í uppsetningu þeirra á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem Crymogea gaf út árið 2015.
„Við vinnum líka mikið með öðrum hönnuðum og myndskreytum. Nokkur verkefni hafa til dæmis byggt á sérhönnuðu letri og við höfum þá fengið leturhönnuði til liðs við okkur,“ segir Arnar og nefnir Húsavík öl og Svavarssafn í því samhengi en í báðum tilfellum unnu Studio Studio með leturhönnuðum hjá Universal Thirst. „Útfærslan á letri Húsavík öl verður nokkuð myndræn og margir stafanna nokkuð abstrakt,“ bætir Birna við: „Í tilfelli Svavarssafns vildum við endurspegla andstæður í myndheimi Svavars sjálfs í letrinu en formuppbygging þess er nokkuð óhefðbundin og ólíkum formheimum skeytt saman.“
Prentið og endanleikinn
„Við reynum alltaf að finna viðeigandi miðil fyrir þær upplýsingar sem við erum að vinna með, það kemur alveg fyrir að bók verður ekki fyrir valinu heldur eitthvað annað,“ segir Birna.
Aðspurð ítreka þau mikilvægi prentsins á tímum stafrænnar miðlunar sem stöðugt sækir á. „Okkar tilfinning er að það sé ennþá á einhvern hátt meiri endanleiki í prentinu. Texta sem birtist á netinu er auðvelt að breyta og uppfæra, textinn er alltaf opinn, en að gera breytingu á prentuðu efni er mun flóknara ferli. Báðir miðlar eiga auðvitað fullkomlega rétt á sér,” segir Birna og Arnar bætir við: „Það er líka áhugavert með tímann. Í ákveðnu samhengi endist bókin lengur. Ef ég fer til dæmis inn á heimasíðu sem hefur ekki verið uppfærð lengi þá hugsa ég frekar að það sé ekkert að gerast, þetta sé dautt. En bókin breytist aldrei og mér finnst hún aldrei vera dauð.“
Það er líka áhugavert með tímann. Í ákveðnu samhengi endist bókin lengur. Ef ég fer til dæmis inn á heimasíðu sem hefur ekki verið uppfærð lengi þá hugsa ég frekar að það sé ekkert að gerast, þetta sé dautt. En bókin breytist aldrei og mér finnst hún aldrei vera dauð.