Lista- og hönnunarhátíðin Rusl Fest fer fram dagana 27. júní - 2. júlí
RUSL FEST er lista og hönnunarhátíð í Gufunesi, nýju skapandi hverfi Reykjavíkurborgar. Hátíðin leggur áherslu á hringrásarhugsun í samhengi menninga, lista og hönnunar með sérstaka áherslu á byggingariðnaðinn. Vikulöng hátíðin samanstendur af vinnustofum, viðburðum, sýningum, fyrirlestrum og tónleikum.
Fúsk vinnustofan í Gufunesi er sjálfstæð hugsjónadrifin rannsóknarstofa. Vinnustofan sjálf er 1200m² skemma en svæðið byggist svo upp á minni einingum sem eru sem studíó fyrir skapandi einstaklinga.
Öll starfsemin er samfélagslega rekin og eru í samstarfi við Reykjavíkurborg, Unga Umhverfissinna, Reykjavík Tool Library, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Nordic Culture Fund, auk þess var hópurinn útnefndur sem listahópur Reykjavíkur árið 2022.
Reksturinn er rekinn í gegnum non-profit félagasamtök og hefur öll uppbygging verið unnin í sjálfboðaliðastarfi. Teymið brennur fyrir menningarlegri grasrótaruppbyggingu í þessu ört stækkandi hverfi og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi þróun í Gufunesi.
Vinnustofur
„Trash Sounds er vinnustofa á vegum rannsóknarstofunnar Intelligent Instruments Lab við Listaháskóla Íslands. Um er að ræða vikulangt og ögrandi námskeið þar sem við lærum að hanna og spila á gervigreindarhljóðfæri búin til úr endurunnum efnum.
Þátttakendur öðlast hagnýta reynslu á því helsta sem hljóðfærahönnun býður upp á í dag og læra allt frá grunni um tæknina sem felst í rauntíma forritun á hljóði, skapandi gervigreind sem hægt er að stjórna með hreyfingu, gagnvirka hljóðhönnun, efnislega hljóðfærasmíði og tilraunakennda hönnun.
Á hverjum degi fá þátttakendur kennslu í einu af ofantöldum atriðum. Þá nýtum við það sem við höfum lært til þess að umbreyta rusli í lifandi hljóðfæri. Jafnframt munum við spinna og flytja tónlist á hverjum degi á hinum og þessum stöðum í Gufunesi.
Við bjóðum byrjendur sem og þau sem eru lengra komin velkomin, hvort sem þið eruð tónlistarfólk eða finnst einfaldlega skemmtilegt að skapa. Sérstaklega velkomið er fólk sem tilheyrir hópum sem ekki eiga marga fulltrúa í heimi tækni og tónlistar. Saman munum við búa til vinalegt umhverfi þar sem við hlustum og lærum hvert af öðru.“
„Á þessari vinnustofu munu þátttakendur elda mat úr hráefnum sem myndu annars fara á haugana. Þessi leið til matseldar bjargar fullkomnlega ætum matvælum og hráefnum frá því að teljast til úrgangs og endurlífgar þau með nýjum tilgangi. Jafnframt munum við fræðast um gnægð villtra matvæla sem vaxa á Íslandi (hugsaðu með þér magnið af villtum jurtum, grænmeti, þangi og borgarjurtum sem vaxa og dafna ár hvert og nýtast ekki til matar.) Þátttakendur uppgötva mismunandi leiðir til varðveislu matvæla (gerjun, súrsun, þurrkun). Við snertum einnig á viðfangsefnum eins og moltugerð, vistrækt (permaculture) og borgargarðyrkju.
Saman skoðum við möguleika okkar og könnum tækifæri og hindranir staðbundinna aðstæðna. Við skoðum hvað við getum gert, sem einstaklingar og sem samfélag, til minnka matarsóun eftir fremsta megni, ná fram sjálfbærari framtíð matvælaframleiðslu og tryggja aukið mataröryggi á Íslandi.
Vinnustofan fer fram í fullbúnu fageldhúsi FÚSK í Gufunesi. Hún er ætluð öllum þeim sem eru áhugasamir um betri nýtingu matvæla og rís hugur við þeirri matvælasóun sem viðgengst í dag. Vinnustofan stendur öllum til boða óháð starfsgrein og fyrri reynslu. Við munum vinna og læra saman, í virðingarfullu og öruggu umhverfi. Við viljum að þátttakendur hafi virk áhrif á dagskrá smiðjunnar jafnóðum og því mun dagskráin taka breytingum á meðan að á henni stendur.“
“Hönnunarhópurinn Slökkvistöðin býður öllum áhugasömum um arkitektúr og sjálfbærni að taka þátt í skapandi og “hands-on” vinnustofu á Rusl hátíðinni. Hver þátttakandi eða hópur vinnur að því að þróa sína eigin tilraunakenndu hönnun og/eða kerfi. Við stefnum að því að búa til módel úr endurunnum efnum í raunstærð t.d. gólf, þakkerfi, stól eða framhlið. Eftir að hafa búið ný verðmæti úr hráefnum sem áður voru álitin rusl munu þátttakendur yfirgefa vinnustofuna með nýjar hugmyndir til að að nota í framtíðarverkefnum, í formi teikninga og kolefnissporssamanburðar.
Í vinnustofunni er unnið með arkitektúr og sjálfbærni að leiðarljósi. Við endurvinnum “rusl” -efni sem annars yrði fargað í tilraunakennda byggingahluta í skalanum 1:1.“
„FÚSK leitar af þúsundþjalasmiðum, utangarðsómögum, auðnuleysingjum og annars konar flökkufólki og förukonum. Vinnustofan snýst um uppbyggingu á svæðinu, hands-on lausnir og nýtingu afgangsefna úr byggingar- og kvikmyndaiðnaðinum. Byggingariðnaðurinn skilur eftir sig eitt stærsta kolefnisfótspor heims og er því stappfullur af möguleikum á nýjum leiðum til endurnýtingar, endurvinnslu og minnkun á óþarfa sóun. Vinnustofan er unnin í samstarfi við menningarrýmin Institut for X (DK) og Blivande (SE).
“Don’t accept the city as it is. Create your own spaces and environments and make the city your own” (This is X, 2015: 387)“
„Vegglist getur haft víðtæk og mögnuð margföldunaráhrif fyrir samfélagið. Hverfi sem mega muna sinn fífil fegurri glæðast nýju lífi með tilkomu fallegra vegglistaverka. Þannig er gömlum og niðurníddum hverfum gefið nýtt upphaf sem eykur líkurnar á að þau vaxi og dafni í stað þess að vera rifin niður til nýbyggingar. Innkoma listaverka hvetur íbúa til þess að rækta nærumhverfi sín með viðhaldi og uppbyggingu og virkar sem innspýting fyrir samfélagið í heild.
RUSL fest býður upp á 5 daga vinnustofu þar sem kafað er í hefðbundnar aðferðir skilta- og vegglistamálunar. Vinnustofan er tvíþætt:
1. Farið er yfir grunnatriði skiltagerðar. Hver og einn þátttakandi hannar sitt eigið skilti og kynnist mismunandi penslum, pensilstrokum, litablöndunaraðferðum, uppstækkun og málun leturs.
2. Í seinni hluta vinnustofunnar er farið yfir öll grunnatriði vegglistamálunar. Þátttakendur læra að yfirfæra hannanir frá skissu á vegg og mála svo vegglistaverk í sameiningu innan á svæðisins.
Notast verður við fundið efni, svo sem málningu og við sem ellegar yrði hent. Afurð vinnustofunnar er samfélagslegt listaverk sem sendir sterk skilaboð til allra sem það sjá. Öllum er frjálst að taka þátt í námskeiðinu óháð færnisstigi.“