Ljósaslóð og útilistaverk lýsa upp náttmyrkrið á Vetrarhátíð 2021

4. febrúar 2021

Vetrarhátíð 2021 hefst í dag og stendur til 7. febrúar næstkomandi. Áhersla verður lögð á ljóslistaverk utandyra og á útilistaverk í borgarlandinu. Reykjavíkurborg og Orka Náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu nýlega fyrir samkeppni um ljósverk og leika tvö þau hlutskörpustu lykilhlutverki í Ljósaslóð Vetrarhátíðar 2021.

Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki en það er slóð ljóslistaverka sem liggur um miðborgina. Ekki verður um neina formlega opnun að ræða á hátíðinni né heldur fjölmenna viðburði. Fólk er hvatt til þess að skoða verkin á sínum eigin hraða og virða sóttvarnarreglur sem í gildi eru. Safnanótt verður frestað til vorsins en hætt hefur verið við sundlauganótt.

Ljósaslóð Vetrarhátíðar

Ljósaslóð Vetrarhátíðar lýsir upp skammdegið á skapandi hátt og myndar skemmtilega gönguleið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll og að Ráðhúsi Reykjavíkur.

Rúmlega 20 ljóslistaverk lýsa leiðina og verður þeim varpað á byggingar og glugga öll kvöld hátíðarinnar frá kl. 18-21. Óvænt ljóslistaverk má finna á leiðinni á veggjum, í gluggum og í húsasundum og er ljósaslóðin unnin í samvinnu við hina Seyðfirsku hátíð List í ljósi sem vakið hefur athygli jafnt innanlands sem utanlands síðustu ár.

Reykjavíkurborg og Orka Náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu nýlega fyrir samkeppni um ljósverk og leika tvö þau hlutskörpustu lykilhlutverki í Ljósaslóð Vetrarhátíðar 2021.

Þetta eru verkin Samlegð/Synergy  eftir Katerina Blahutova og Þorstein Eyfjörð Þórarinsson sem vann fyrsta sæti. Verkið er í garðinum við listasafn Einars Jónssonar.

Hitt verkið ber heitið Truflun/Interference eftir Litten Nystrøm og Harald Karlsson sem verður varpað á Hallgrímskirkju.

Útilistaverk á Höfuðborgarsvæðinu

Í stað Safnanætur þá verður lögð áhersla á útilistaverkin á Höfuðborgarsvæðinu og verður boðið upp á leiðsagnir. Lýst verða upp nokkur svæði þar sem gefur að líta mörg útilistaverk  og vakin er athygli á sérstöku appi listasafns Reykjavíkur þar sem er hægt að kynna sér öll útilistaverk Reykjavíkurborgar.

Dagskrá Vetrarhátiðar 2021 má nálgast hér.

Dagsetning
4. febrúar 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vetrarhátíð
  • Reykjavík