Þrjú íslensk verk tilnefnd til Mies van der Rohe verðlaunanna

3. febrúar 2021

Búið er að opinbera tilnefningar til  European Union Prize for Contemporary Architecture – Mies van der Rohe Award fyrir árið 2022. Drangar, Guðlaug og þjónustuhús við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra er þau íslensku verk sem eru tilnefnd. 

449 verk frá 279 borgum í 41 landi hljóta að þessu sinni tilnefningu til hinnar virtu Mies van der Rohe verðlaunanna. 

Hér eru íslensku verkin sem eru tilnefnd: 

Drangar eftir Studio Granda

Drangar eftir Studio Granda hlaut á dögunum Hönnunarverðlauna Íslands 2020 en það er nýtt gistiheimili byggt á gömlum grunni, staðsett á Snæfellsnesi. Hannað af arkitektastofunni Studio Granda sem var stofnuð af þeim Margréti Harðardóttur og Steve Christer árið 1987.

Guðlaug á Langasandi eftir Basalt Arkitekta

Guðlaug er heit laug staðsett í grjótgarðinum á Langasandi á Akranei. Guðlaug er á þremur hæðum en þriðja hæðin næst áhorfendastúku er útsýnispallur, þar undir á annarri hæð er heit setlaug og sturtur ásamt tækjarými og á fyrstu hæð er grunn vaðlaug. Á milli hæðanna eru tröppur sem einnig mynda tengingu á mill bakkans og fjörunnar. Hönnuð af Basalt Arkitektum, stofnuð árið 2009 af Sigríði Sigþórsdóttur, Hrólfi Karl Cela og Marcos Zotes. 

Þjónustuhús við Hafnarhólma á Borgarfirði eystri eftir Andersen & Sigurdsson Arkitektar

Aðstöðuhús við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Hannað af Andersen & Sigurdsson Arkitektar, stofnuð árið 1997 af Ene Cordt Andersen og Þórhalli Sigurðssyni.

Mies van der Rohe verðlaunin eru ein virtustu byggingarlistarverðlaun í heimi. Þau voru sett á stofn árið 1987 af Evrópusambandinu og Stofnun Mies van der Rohe í Barcelona og er ætlað að vekja athygli á því sem best er gert í evrópskri byggingarlist og koma allar byggingar sem er við tveimur árum fyrir afhendingu til greina. 

Verðlaunin eru veitt fyrir arkitektúr sem sýnir fram á einstakt félagslegt, menningarlegt og tæknilegt samhengi.

Dagsetning
3. febrúar 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Arkitektúr
  • Mies van der Rohe