Minn HönnunarMars - Elísabet Gunnarsdóttir

Elísabet Gunnarsdóttir

Nú er HönnunarMars er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn. Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.

Hér eru þær sýningar sem Elísabet Gunnarsdóttir, viðskiptafræðingur og bloggari ætlar ekki að missa af í ár

ÍSLENSK FLÍK

Verkefnið sem er unnið af félagi íslenskra fatahönnuða heillar mig. Hugmyndin er frábær og í anda nútímans að nota almenning með í verkið (ég elska allt með perrsónulega tengingu). Gestir hátíðarinnar eru hvattir til að klæðast íslensku og merkja #íslenskflík á samfélagsmiðlum. Ég mun klárlega taka þátt og sem Íslendingur búsett erlendis þá reyni ég ávallt eftir fremsta megni að bera íslenska hönnun. Ég er alltaf svo ótrúlega stolt ef ég er spurð útí mínar flíkur ef ég get sagt frá íslenskum uppruna þeirra.

Farmers Market x Blue Lagoon

Spennandi verkefni þessara tveggja áberandi íslensku fyrirtækja sem eru ekki að leiða saman hesta sína í fyrsta sinn. Samstarfslína þar sem áhersla er lögð á liti lónsins og svæðisins í kring. Ég held að við getum flest verið sammála um að litirnir eru einstaklega fallegir og á sama tíma svo íslenskir - hlakka til að sjá afraksturinn.

Hildur Yeoman - Cheer up

Ég elska Hildi Yeoman sem listamann og fatahönnuð og læt mig aldrei vanta á  hennar sýningar. Nýja línan hennar er litrík og sumarleg eins og hún hafi vitað að HönnunarMars yrði óvart í júní þetta árið.

Það sem það er ólíklegt að sólin leiki við okkur á Hönnuarmars (held samt ennþá í vonina) þá er hægt að sækja sumarið og sólina í klæðin og ég held að Hildur hjálpi okkur þar.

Kynntu þér dagskrá HönnunarMars á heimasíðu hátíðarinnar hér og gerðu þinn eigin HönnunarMars!

Sjáumst á HönnunarMars!

Tögg

  • HönnunarMars
  • Greinar
  • MinnHönnunarMars