Námskeið fyrir hönnuði og arkitekta hjá Endurmenntun Háskóla Íslands

1. febrúar 2024

Félögum í fagfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs býðst 20% afsláttur af tveimur námskeiðum á vormisseri hjá Endurmenntun HÍ. Um er að ræða námskeið í öllum námskeiðsflokkum, að undanskildum námskeiðum með erlendum sérfræðingum og námskeiðum sem tilheyra lengra námi.

Skráning fer fram á heimasíðu Endurmenntunar og til að virkja afsláttinn þarf að skrá kóða sem hefur verið sendur öllum félögum í fréttapósti. Vantar þig kóðann? Sendu póst á info@honnunarmidstod.is.

Námskeið sem gætu vakið áhuga

Áhrif umhverfis innandyra á líðan og heilsu fólks

Flestir verja stórum hluta tíma síns innandyra. Umhverfi innandyra er samspil ólíkra þátta og hefur mismunandi áhrif á fólk. Þannig hefur umhverfið heima önnur áhrif en vinnuumhverfið, það er ólík upplifun að vera í skóla eða á sjúkrahúsi, í verslun eða leikhúsi.

Á námskeiðinu verður rætt vítt og breitt um áhrif umhverfis innandyra á líðan og heilsu fólks og verða fjölbreyttar gerðir umhverfis skoðaðar. Velt verður vöngum yfir því hvernig bæta megi gæði umhverfis og þannig stuðla að vellíðan og bættri heilsu.
Tilgangur námskeiðsins er að vekja þátttakendur til umhugsunar um sálræn áhrif umhverfis innandyra. Einnig að sýna lærðum sem leiknum hvernig nýta megi þekkingu umhverfissálfræði til að hanna og skipuleggja mannvænna umhverfi innandyra.
Lögð verður áhersla á umræður og skoðanaskipti en leitast verður við að ræða málin út frá íslenskum veruleika.

Á námskeiðinu er fjallað um 

 • Upplifun fólks af fjölbreyttu umhverfi innandyra.
 • Sálræn áhrif ýmissa þátta, t.d. hávaða, birtu, gróðurs, lita, skipulags/hönnunar, listaverka.
 • Hvernig ólíkir persónuleikar upplifa sambærilegt umhverfi. 
 • Mikilvægi góðs umhverfis innandyra fyrir heilsu og velferð.

Ávinningur

 • Aukinn skilningur og vitund um sálræn áhrif umhverfis.
 • Aukin þekking á samspili fólks og umhverfis.
 • Aukinn skilningur á mikilvægi þess að huga að sálfræðilegum áhrifum umhverfis innandyra þegar kemur að skipulagi og hönnun þess.
 • Þekking á leiðum til að auka sálræn gæði umhverfis.

Kennari: Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði

Skipulag og hönnun - sálræn áhrif af náttúru og byggðu umhverfi á líðan

Á námskeiðinu verður rætt um þau áhrif sem náttúra og manngert umhverfi getur haft á líðan fólks. Fjallað er um hvernig megi bæta gæði umhverfis og þannig stuðla að vellíðan og bættri heilsu. Námskeiðið er ætlað hönnuðum sem vilja auka þekkingu sína á því hvernig hanna megi manngert umhverfi sem eykur vellíðan og heilbrigði fólks.

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að kynna, skoða og ræða áhrif náttúru og byggðs umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega líðan fólks út frá umhverfissálfræði. Umhverfissálfræði er víðfeðm og mjög rísandi grein innan sálfræðinnar. Hún hefur ótalmarga snertifleti og hefur því nýst afar vel í þverfaglegri vinnu af ýmsu tagi.

Tilgangur námskeiðsins er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi sálrænna áhrifa umhverfisins í hinu daglega amstri. Jafnframt að sýna hvernig nýta megi þekkingu umhverfissálfræðinnar til sköpunar á manngerðu umhverfi.
Lögð verður áhersla á umræður og skoðanaskipti en leitast verður við að ræða málin út frá íslenskum veruleika.

Á námskeiðinu er fjallað um 

 • Samspil umhverfis, streitu og sálfræðilegrar endurheimtar.
 • Sálræn áhrif af manngerðu umhverfi; umlykingu og fjölbreytileika, mælikvarða og hlutföll, menningu og staðaranda.
 • Sálræn áhrif náttúru og grænna svæða.

Ávinningur

 • Aukinn skilningur og vitund um sálfræðileg áhrif umhverfis.
 • Aukin þekking á samspili fólks og umhverfis.
 • Aukinn skilningur á mikilvægi þess að huga að sálrænum áhrifum umhverfis þegar kemur að skipulagi og hönnun þess.
 • Þekking á leiðum til að auka sálræn gæði umhverfis.

Kennari: Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði

Karakterhönnun - teikninámskeið með Ara Yates

Hefur þú áhuga á að teikna, skrifa barnabækur og/eða teiknimyndasögur? Langar þig að læra að búa til heillandi og áberandi karaktera og efla karakterhönnun þína? Ertu þú með sögu í maganum og langar að hanna karaktera fyrir hana? Þá er þetta námskeið fyrir þig!

Þátttakendur fá kennslu í undirstöðuatriðum karakterhönnunar, fá að spreyta sig á mismunandi tólum og aðferðum og læra að búa til heillandi karaktera fyrir barnabækur, teiknimyndasögur o.fl. Námskeiðið er hugsað fyrir þá sem hafa áhuga á og einhverja kunnáttu í teikningu en vilja koma sköpun sinni á næsta stig. Námskeiðið hentar einnig vel þeim sem eru með sína eigin sögu (eða drög að sögu) og vantar karaktera fyrir hana. Ef þú ert teiknari og langar til að laða að þér rithöfunda með sýnishornum af teikningum af heillandi karakterum þá er þetta námskeið einnig góður staður að byrja á.
Þátttakendur sem eru með sínar eigin sögur geta hannað karaktera fyrir þær, þau sem ekki eiga eigin sögu fá afhenta sögu og hanna karaktera út frá henni, rétt eins og ef þau væru ráðin til að hanna karaktera af rithöfundi eða útgáfufyrirtæki. Þátttakendur æfa sig í því að vinna eins og atvinnuteiknarar og auka þannig sjálfstraust sitt og reynslu. Að loknu námskeiðinu ættu þátttakendur að hafa öðlast meiri skilning á karakterhönnun og myndað grundvöll til áframhaldandi sköpunar.

Á námskeiðinu er fjallað um 

 • Karakterhönnun og mikilvægi hennar.
 • Mismunandi aðferðir og vinnutól ásamt notkunarmöguleikum þeirra.
 • Uppsetningu í tölvu og undirbúning til útgáfu.

Ávinningur

 • Aukinn skilningur á karakterhönnun.
 • Reynsla í að hanna karaktera út frá sögu.
 • Reynsla í að fullklára teikningar sem hægt er að nota í ferilmöppu.
Dagsetning
1. febrúar 2024
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

 • Greinar
 • Fagfélög