Stefnumót hringrásar - opinn fundur í Grósku

11. janúar 2023

Þverfaglegt samtal um innleiðingu hringrásarhagkerfisins í byggingariðnaði í Grósku þann 19. janúar frá kl. 14:30 - 16:00. Samtalið fer fram í Grósku í Vatnsmýri og er öllum opið. 

Innleiðing á hringrásarhugsun í byggingariðnaðinum er aðkallandi verkefni þar sem mikil þörf er á að efla og styrkja þverfaglegt samtal allra fagaðila sem koma að virðiskeðjunni.

Samtalið hefst á ávarpi frá Guðrúnu Ingvarsdóttur, forstjóra FSRE og svo koma innlegg frá tveimur erlendum sérfræðingum, þeim Helle Redder Momsen, stjórnanda hjá Nordic Sustainable Construction og Alexander van Leersum, framkvæmdastjóra Build to Impact.

Í kjölfarið verða panelumræður frá fjölbreyttum hópi hagaðila sem fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir stýrir. Í panel verða:

  • Borghildur Sturludóttir,  deildastjóri hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar
  • Friðjón Sigurðsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Reitum
  • Halldór Eiríksson, formaður Samark
  • Hermann Jónasson, forstjóri HMS
  • Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Íslandsbanka.

Helle Redder Momsen er stjórnandi hjá Nordic Sustainable Construction, norræns samstarfs um sjálfbærar byggingar, og býr yfir víðtækri þekkingu á öllum núverandi reglugerðum, rannsóknum og verkfærum sem verið er að þróa og innleiða á Norðurlöndunum til að takast á við núverandi kolefnisfótspor byggingargeirans. Nordic Sustainable Construction leggur sitt af mörkum til framtíðarsýnar á sviði byggingariðnaðarins og miðar að því að gera Norðurlöndin að leiðandi svæði hvað varðar sjálfbærar og samkeppnishæfar byggingar og húsnæði með lágmarks umhverfis- og loftslagsáhrif. 

Alexander van Leersum er verkefnastjóri framkvæmda í Rotterdam í Hollandi og ber ábyrgð á að koma af stað hringrásarkerfi hjá sveitarfélaginu. Markmið verkefnisins er að gera umhverfi sem flýtir fyrir uppbyggingu og notkun ólíkra hringrásakerfa í Hollandi. Þetta er m.a. gert með því að skilgreina markmið og tilgang hvers hringrásarkerfis, betrumbæta hvernig það virkar og tryggja stöðugleika þess.  Alexander er framkvæmdastjóri Build to Impact og Concreet Projectmanagent B.V. í Hollandi. Hann hefur bæði fræðilegan og verklegan bakgrunn í að vinna að flóknum þverfaglegum verkefnum og nýjungum í byggðu umhverfi. 

Verkefnið Hringborð hringrásarinnar stendur að samtalinu en það eru Arkitektafélag Íslands, Efla, Grænni byggð, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við SI, FSRE og Reykjavíkurborg sem standa að verkefninu sem hefur það að markmiði efla og styrkja þverfaglegt samtal um innleiðingu hringarásarhagkerfisins í byggingariðnaði á Íslandi, þar sem auðlindanotkun er rauður þráður.

Verkefnið er unnið með styrk frá Aski Mannvirkjarannsóknarsjóði.

Dagsetning
11. janúar 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög