Árið 2022 í hönnun og arkitektúr

28. desember 2022
Frá afhendingu Hönnunarverðlauna Íslands 2022 í Grósku. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Nú þegar líður að áramótum er tilvalið að líta yfir farinn veg og skoða  hvað stóð upp úr árið 2022 á sviði hönnunar og arkitektúrs. Árið sem byrjaði í Covid ástandi endaði á því að springa út með fjölmörgum spennandi verkefnum og viðburðum. Hér er stiklað á stóru á því sem bar hæst. 

Yfirlit yfir hönnuði og arkitekta fór í loftið 

Í febrúar var nýtt yfirlit yfir starfandi hönnuði og arkitekta kynnt á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs. Markmiðið er að auka sýnileika og auðvelda aðgengi og leit að hönnuðum og arkitektum. Leitarvél síðunnar er upplýsandi og leiðbeinandi um fjölbreytt störf og verkefni á sviði hönnuða og arkitekta. Allir hönnuðir og arkitektar sem skráðir eru á síðuna eru í fagfélögum hönnuða og arkitekta hér á landi.
Síðan er hönnuð af Studio Erla & Jónas og Studio Studio og unnin af KODO. Yfirlitið er bæði á ensku og íslensku.

Kíktu við hér.

Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Ráðherra kynnti sér málefni hönnunar og arkitektúrs í Danmörku og Noregi

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs skipulagði ferð í apríl 2022 fyrir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, til Kaupmannahafnar og Osló með það að markmiði að skoða hvernig haldið er utan um málefni hönnunar og arkitektúrs í þeim löndum og til að sækja innblástur til að efla þessar greinar á Íslandi. Með í för voru fulltrúar Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu.

Ferðin var árangursrík og upplýsandi og ráðherra fékk höfðinglegar mótttökur. Meðal annars var fundað með Jan Christian Vestre, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, þar sem lagðar voru fram tillögur um að skapa nýjan samstarfsvettvang þeirra aðila á norðurlöndum sem vinna að málefnum hönnunar og arkitektúrs. Mikil tækifæri felast í aukinni samvinnu Norðurlandanna þegar kemur að skapandi greinum og nýsköpun, m.a. í ljósi áherslna á hið nýja Evrópska Bauhaus.

Meira hér.

Mótun nýrrar stefnu stjórnvalda á sviði hönnunar og arkitektúrs

Í vor hóf menningar- og viðskiptaráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir vinnu við gerð nýrrar stefnu á sviði hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs  Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið sem ætlað er að auka lífsgæði, skapa verðmæti og auka sjálfbærni með markvissri áherslu á málefni hönnunar og arkitektúrs.

Stefnan er unnin í breiðu samráði og þvert á ráðuneyti og öflugur hópur fag- og hagaðila hefur komið að vinnunni á öllum stigum. Hún birtist í samráðsgátt stjórnvalda í sumar og fyrirhugað er að hún líti dagsins ljós í byrjun árs 2023.

Lestu meira hér.

HönnunarMars 2022 án takmarkana

Í fyrsta sinn í tvö ár fór HönnunarMars hátíðin fram án allra takmarkana dagana 4. - 8. maí. Yfir 100 sýningar, 400 þátttakendur og 250 viðburðir veittu innsýn inn í það helsta sem er að gerast á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi og gáfu gestum ferskan innblástur inn í framtíðina.

Meira hér.

Loksins aftur DesignTalks!

Alþjóðlega ráðstefnan og lykilviðburður HönnunarMars, DesignTalks, fór fram fyrir fullu húsi í Hörpu þann 4. maí. DesignTalks hefur ekki verið á dagskrá hátíðarinnar síðustu tvö ár, vegna Covid, og var því kærkomið að geta haldið ráðstefnuna og opnað hið alþjóðlega samtal á nýjan leik eftir heimsfaraldur. Fjöldi alþjóðlegra og innlendra fyrirlesara steig á svið á DesignTalks 2022, sem var undir listrænni stjórn Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur. Umræðum dagsins stýrði Marcus Fairs, stofnandi og ritstjóri Dezeen en kynnir var fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir. 

Dagskráin veitti gestum innblástur inn í nýja tíma frá skapandi hugsuðum og framtíðarrýnum sem vörpuðu ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr geta verið lykiltæki í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga þegar kemur að áskorunum samtímans.

Meira hér.

Ráðstefnunni var í fyrsta sinn streymt í gegnum fjölmiðlasamstarfsaðila hátíðarinnar Dezeen sem hægt er að horfa á hér.

Skapalón - þættir um hönnun og arkitektúr

Skapalón eru þættir um hönnun og arkitektúr fyrir ungt fólk. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og List fyrir alla hlutu styrk úr Barnamenningarsjóði 2021 og fengu RÚV og 101 Production til liðs við sig við framleiðslu þáttanna. Þáttunum er ætlað að höfða til ungmenna þar sem ljósi er varpað á ólíkar hönnunargreinar með aðgengilegum og áhugaverðum hætti. Þættirnir eru fjórir talsins og voru sýndir á RÚV á þriðjudagskvöldum í maí 2022. 

Miðstöðin var til ráðgjafar um innihald þáttana en Logi Pedro, tónlistarmaður og nemi í vöruhönnun í LHÍ var þáttastjórnandi. Meðal viðmælenda má nefna Hafstein Júlíusson og Karitas Sveinsdóttur vöru, og innanhússhönnuði hjá Haf Studio, Arnar Má Jónsson, fatahönnuð, Snæfríð Þorsteins, grafískan hönnuð, Lindu Björg Árnadóttur, fatahönnuð, Óskar Arnórsson, arkitekt, Garðar Eyjólfsson, vöruhönnuð, Sigríði Sigþórsdóttur, arkitekt, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur vöruhönnnuði hjá Stúdíó Fléttu og Sigurð Oddsson, grafískan hönnuð.

Horfðu á þættina hér.

Brimketill. Mynd: Júlía Brekkan

Hönnun í norrænni náttúru

Í byrjun árs gaf Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við systurstofnanir á Norðurlöndum, út dæmi um leiðir og lausnir í hönnun sem ýta undir náttúruupplifun og náttúruvernd á vefsíðunni NatNorth.is. Markmið verkefnisins Hönnun í náttúru er að auka þekkingu, efla gæði, og sýna með dæmum hvernig beita má hönnun og arkitektúr til að takast á við náttúrutengdar áskoranir sem Norðurlönd standa frammi fyrir út frá sjónarhóli ferðamennsku og sjálfbærni. 

Stjórnandi verkefnisins er Anna María Bogadóttir sem er unnið í samstarfi við hönnuði og sérfræðinga frá Danmörku, Finnlandi, Grænlandi, Íslandi og Noregi þar sem rýnt er í arfleifð, samtímaverkefni og mögulegar framtíðarlausnir. Á síðunni má finna sjötíu dæmi um hannaða áfangastaði frá Norðurlöndum sem eru aðgengilegir almenningi og stuðla að aðgengi allra- eða greiða leið að stöðum sem áður voru óaðgengilegir.

Kíktu við hér.

Hönnunarsjóður

Hönnunarsjóður úthlutaði alls 42,5 milljónum til 48 ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs á árinu sem er að líða. Alls bárust 183 umsóknir í sjóðinn um 406 milljónir. Alls úthlutaði sjóðurinn 28 ferðastyrkjum árið 2022. 

Fyrri úthlutun

Seinni úthlutun

Búið er að opna fyrir umsóknir í fyrri úthlutun ársins 2023 hjá Hönnunarsjóði. Umsóknarfrestur er til 7. febrúar.
Allar upplýsingar má nálgast hér.

Hönnunarverðlaun Íslands 2022

Það var mikið um dýrðir í Grósku þann 17. nóvember þar sem fjöldi gesta fögnuðu framúrskarandi hönnun og arkitektúr á Hönnunarverðlaunum Íslands. 

Dagurinn hófst með innsýn inn í þau verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár og umræðum sem Rúna Thors, hönnuður og lektor við hönnunardeild Listaháskóla Íslands og Bergur Finnbogason, creative director hjá CCP stýrðu. Í kjölfarið fór fram verðlaunaafhending þar sem Plastplan hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2022, Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt var valinn Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlaunanna og Fólk Reykjavík hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta afhenti heiðursverðlaunin og aðalverðlaun kvöldsins og Árni Sigurjónsson, formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins afhenti viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. Bergur Finnbogason sá um að stýra verðlaunaafhendingunni sjálfri. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Sjáðu myndir frá Hönnunarverðlaunum Íslands 2022 hér.

Hæ/Hi - Designing Friendship

Sýningin Hæ/Hi: Designing Friendship var frumsýnd þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði hana í sýningarrýminu Stak á HönnunarMars í maí. Sýningin var síðan sett upp í Maria Bianco Gallery í Seattle í október í tengslum við Taste of Iceland. Sex íslenskir hönnuðir/hönnunarteymi fóru vestur um haf til að fylgja sýningunni eftir og efla samstarfið og vináttu við bandarísku hönnunarteymin. 

Hæ/HI sýningin átti upphaflega að vera á dagskrá HönnunarMars árið 2020, en vegna Covid þá varð ítrekað að fresta verkefninu. En loks tveimur árum síðar náði vináttan að blómstra þegar hönnuðirnir frá Seattle sóttu íslensku hönnuðina heim á HönnunarMars í vor og þegar íslensku hönnuðirnir fóru til Seattle í tengslum við Taste of Iceland þar í borg. 

Úrval hönnuða og hönnunarteyma frá vinaborgunum sýndu verk sem unnin voru út frá vináttu.

Lestu meira hér.

FÍT keppnin 2022

Félag íslenskra teiknara stendur árlega fyrir fagverðlaununum FÍT með það að markmiði að verðlauna það besta sem gert er á sviði grafískrar hönnunar og myndlýsinga á Íslandi. Í ár fóru verðlaunin fram í lok apríl en félagið stóð fyrir sýningu verkum verðlaunahafa á HönnunarMars i byrjun maí.

Hér má lesa um sigurvegara FÍT keppninnar 2022.

Hönnunarlaun 2022

Úthlutunarnefndir Launasjóðs listamanna úthlutaði níu hönnuðum starfsalaunum úr launasjóði hönnuða. 50 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 488 mánuði. Þeir hönnuðir sem hlutu laun að þessu sinni voru: Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, Arnar Már Jónsson, fatahönnuður, Birta Rós Brynjólfsdóttir, vöruhönnuður, Hrefna Sigurðardóttir, vöruhönnuður, Rán Flygenring, hönnuður, Ýr Jóhannsdóttir, textílhönnuður, Hrafnkell Birgisson, vöruhönnuður, Hildigunnur H. Gunnarsdóttir, grafíkur hönnuður og Sólveig Dóra Hansdóttir, fatahönnuður. 

Lestu meira hér.

Þetta er aðeins brot af því sem var um að vera á árinu en allar fréttir má finn hér á heimasíðu okkar.

Gleðilegt ár frá stjórn og starfsfólki Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Dagsetning
28. desember 2022
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög