Hátíðarkveðja Arkitektafélags Íslands

19. desember 2022
Pipardvergurinn //Tripoli og KRADS
Pipardvergurinn //Tripoli og KRADS

Árið 2022 hefur verið viðburðarríkt. Töluverðar breytingar urðu á skrifstofu félagsins þegar Helga Sjöfn Guðjónsdóttir kvaddi hana í vor. Við þökkum Helgu Sjöfn innilega fyrir gott starf en hún hafði unnið ötullega fyrir félagið í alls 18 ár.  Eins og fyrr deilir Arkitektafélag Íslands húsnæði með Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, sem eins og flestir vita er í eigu Arkitektafélags Íslands, Félags húsgagna og innanhússarkitekta, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Félags vöru- og iðnhönnuða, Leirlistafélags Íslands, Fatahönnunarfélags Íslands, Textílfélagsins, Félags íslenskra gullsmiða og Félags íslenskra teiknara.

 

Viðburðir á vegum AÍ

Arkitektafélagið stóð fyrir þónokkrum viðburðum á árinu og var dagskrárnefnd mjög öflug.

Samkeppnir á árinu

Hugmyndasamkeppni um skipulag á Breið-,,Falin perla framtíðar“

Auglýsing Tillögur

Hönnunarsamkeppni um framtíðarbókasafn miðborgarinnar

Auglýsing Tillögur

Hugmyndasamkeppni um Torfunef á Akureyri

Auglýsing Tillögur

Hugmyndasamkeppni -Reykjanesbraut og svæðiskjarni í Smára | Þverun, uppbygging og tengingar

Auglýsing Tillögur

Þróunaráætlun Faxaflóahafnir – Valferli

Auglýsing

Hönnunarmars

Að venju tók AÍ þátt í HönnunarMars. Í ár stóð AÍ fyrir tveimur viðburðum. Annarsvegar málstofum í samstarfi við Norræna húsið sem báru heitið, Kvenkyns frumkvöðlar og Sögulegar byggingar, og hinsvegar viðburðinn, Hlaupið um arkitektúr, þar sem félagsmenn hlupu með áhugasömum 6 km hring um borgina. 

Málstofurnar voru tveggja þátta annars vegar kynnti hópur sérfræðinga sögu og verk norrænna kvenkyns arkitekta sem teljast brauðryðjendur á sínu sviði og hinsvegar voru endubætur á sögulegum húsum skoðaðar í tilefni af endubótum sem eiga sér nú stað í Norræna húsinu.

Hlaupið um arkitektúr er tekið upp að danskri fyrirmynd. Engin leiðsögn fylgdi hlaupunum en leiðin var úthugsuð þar sem hlaupið var hugsað sem upplifunarhlaup þar sem þröng stræti, víðar götur, skuggi, sól, viður, steinsteypa, ál, gamalt og nýtt spiluðu aðalhlutverkið.

Öryrkjabandalagið - Góð hönnun er fyrir alla

Fimmtudaginn 5. maí á 61 árs afmæli Öryrkjabandalagsins, var í húsi Grósku, skrifað undir samstarfsyfirlýsingu Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), Arkitektafélags Íslands (AÍ), Félags íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Félags húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélags Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð. Í kjölfarið voru skipulagðar þrjár málstofur með yfirskriftinni Góð hönnun er fyrir alla. Tvær þeirra fóru fram í desember en sú þriðja verður haldinn 27. janúar á nýju ári.

 

 

Fundur norrænu arkitektafélaganna

Alþjóðlegt samstarf er gríðarlega mikilvægt fyrir félag eins og AÍ. Á meðan covid stóð yfir voru norrænir fundir haldnir sem fjarfundir og var fyrsti fundur eftir covid nú haldinn í Stokkhólmi. Þar tók á móti okkur Tobias Olsson, framkvæmdastjóri sænska arkitektafélagsins en fulltrúar AÍ á fundinum voru Gerður Jónsdóttir, frkv.stj. AÍ og Jóhanna Höeg, ritari stjórnar. Eitt af umræðuefnum fundarins var alþjóðlega ráðstefnan UIA2023 en hún verður haldin í Kaupmannahöfn í júlí næstkomandi.

Sjá frekar hér

 

Norrænn fundur samkeppnisnefnda

Í september komu fulltrúar norrænna samkeppnisnefnda og fulltrúar frá Eistlandi til landsins á fund með samkeppnisnefnd AÍ. Samkeppnisnefnd og stjórn AÍ hafa unnið ötullega að því að uppfæra samkeppnisgögn AÍ og því ekki síður mikilvægt nú en áður að bera bækur sínar við það sem er að gerast annarsstaðar í nágrannaríkjum okkar. Fundurinn var mjög góður og góð tengsl sem mynduðust milli aðila.

Sjá frekar hér

 

Hringborð hringrásarinnar

Hringborð hringrásarinnar er samstarfsverkefni AÍ, MHA, EFLU og Grænni byggðar. Megin markmið verkefnisins er að efla þverfaglegt samtal um innleiðingu hringrásarhönnunar og -hugsunar í íslenskan byggingariðnað. Verkefninu var hrint úr vör á HönnunarMars með fyrirlestri frá Anders Bang Kiertzner sem er forstöðumaður hjá Lendager og sérfræðingur í hringrásarhönnun. Verkefnið hlaut styrk úr Aski mannvirkjarrannsóknarsjóði.

 

Skráning á verkum íslenskra arkitekta-Rannsóknarsjóður námsmanna

Arkitektafélag Íslands í samstarfi við LHÍ og Hönnunarsafn Íslands hlutu á árinu styrk frá Rannsóknarsjóði námsmanna til skráningu á verkum íslenskra arkitekta. Verkefnið var til þriggja mánaða og unnu þrír nemar frá LHÍ vinna að skráningu teikningasafna þriggja íslenskra arkitekta, þeirra Albínu Thordarson, f. 1939, Jes Einars Þorsteinsson f. 1934 og Geirharðs Þorsteinssonar, f. 1934, d. 2017 í sumar. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á HönnunarMars 2023.

Samkeppnir og AÍ

Samkeppnisnefnd, stjórn og framkvæmdastjóri AÍ hafa verið að vinna ötullega að því að uppfæra samkeppnisgögn félagsins. Meðal annars hefur verið lögð mikil vinna í að uppfæra kafla um höfundarétt með mikilli aðstoð frá lögfræðingi Myndstefs, Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur. Uppfærð gögn verða kynnt á aðalfundi félagsins sem haldinn verður miðvikudaginn 15. febrúar 2023.

UIA 2023 og Feneyjartvíæringur

Alþjóðleg ráðstefna arkitektafélaganna verður haldin í Kaupmannahöfn í júlí nk. UIA2023. Þetta er gríðarlega stór ráðstefna og búast Danir við alls 10.000 gestum víðsvegar að. Kristján Örn Kjartansson, arkitekt, er fulltrúi Íslands í vinnuhóp fyrir þessa ráðstefnu en auk hans hafa Sigríður Maack, formaður AÍ og Gerður Jónsdóttir, frkv.stj. unnið heilmikla vinnu í kringum þessa ráðstefnu en verkefnið Design in nature, sem unnið var af MHA verður eitt af verkefnunum ráðstefnunnar.

Unnið hefur verið ötullega að því síðastliðin ár að kveikja áhuga íslenskra stjórnvalda á þátttöku í arkitektúr tvíæringnum í Feneyjum. Nýverið var send skýrsla sem unnin var að MHA til menningar-og viðskiptaráðuneytisins og er bjart yfir mönnum að Ísland geti fljótlega orðið þátttakandi í arkitektúr tvíæringnum.

 Við hlökkum til ársins 2023 með þér!

Dagsetning
19. desember 2022
Höfundur
Gerður Jónsdóttir

Tögg

  • Arkitektúr