The Nordic Report 03 - víðtæk samantekt um sjálfbæra neyslu og framleiðslu á Norðurlöndum

13. nóvember 2020

SUSTAINORDIC, samnorrænn vettvangur sem beinir sjónum að sjálfbærri neyslu og framleiðslu á Norðurlöndunum í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, fagnar útgáfu skýrslunnar The Nordic Report 03 sem varpar ljósi á framúrskarandi norræn dæmi um sjálfbæra framleiðslu og neyslu og hvetur um leið til alþjóðlegrar þróunar á þessu sviði.

Norðurlöndin eru leiðandi þegar kemur að sjálfbærri þróun og tilgangur vettvangsins er að safna saman og dreifa góðum fyrirmyndum og dæmum um sjálfbærar leiðir á alþjóða vettvangi.

Útgáfu The Nordic Report 03 verður fagnað þann 17. nóvember næstkomandi með rafrænum hætti á heimasíðu Sustainordic.
Í fyrri skýrslunum voru góð verkefni og aðferðir frá Norðurlöndunum dregin fram í dagsljósið en í þriðju skýrslunni er markmiðið að veita lesandanum dýpri innsýn og skilning á málefninu með dæmum og viðtölum. Í tólf köflum er fjallað um allt frá  breyttri hugmyndafræði frá línulegs til hringrásar hagkerfisins, samfélags án rusls og flutninga og matvæli framtíðar.

Markmið Sustainordic er að hafa jákvæð og hvetjandi áhrif á framþróun í norrænni og alþjóðlegri stefnumótun á sviði sjálfbærni. Skýrslan varpar ljósi á vandamálin og fjallar um lausnir til að veita innblástur og hvetja lesendur til aðgerða. 

Umfjöllunarefnin og viðmælendur frá Íslandi í The Nordic Report 03 eru Gunnar Sveinn Magnússon, sérfræðingur í sjálfbærri þróun hjá Íslandsbanka, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um sjálfbæra þróun, vöruhönnuðirnir Birta Rós Brynjólfsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir frá Fléttu hönnunarstúdíó og Dr. Kristinn R. Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við HR og stjórnandi Vitvélastofnunar Íslands.

sustainordic

Rafrænn útgáfufögnuður fer fram á heimasíðu verkefnisins Sustainordic þann 17. nóvember næstkomandi  kl. 12 (+GMT).

Þar verða panelumræður þar sem Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um sjálfbæra þróun verður í góðum hópi úr viðmælendahópi skýrslunnar.

Ef við værum meðvitaðri um að nota rökhugsun og skapandi hugsun meira og með markvissari hætti, gætum aukið samstarf og miðlað hugmyndum þvert á geira og sérgreinar, held ég að okkur tækist betur að skapa sterkari framtíðarsýn fyrir atvinnulífið.

Úr viðtali í skýrslunni við Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu, miðstöðvar um sjálfbæra þróun

sustainordic

Að Sustainordic koma auk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, ArkDes og Form/Design Center frá Svíþjóð, Design Forum Finland, DOGA frá Noregi og Dansk Design Center. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Sustainordic hefur nú gefið út 3 skýrslur þar sem er að finna viðtöl og umfjöllun um ólík verkefni landanna sem öll eiga það sameiginlegt að vinna með sjálfbærni að leiðarljósi.

Skýrslurnar má nálgast á skrifstofu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Grósku, Bjargargötu 1, 102 Reykjavík eða senda tölvupóst á info@honnunarmidstod.is

Dagsetning
13. nóvember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Sustainordic