Vonandi bæta dag einhvers og gera heiminn aðeins fallegri

Sigurður Oddsson starfar sem hönnunarstjóri og grafískur hönnuður hjá Aton. Í næstum tvo áratugi hefur hann starfað í hönnunarbransanum bæði í Reykjavík og New York. Næsta víst er að flestir Íslendingar kannist við eitthvað af hans verkum, hvort heldur sem er verðlauna plötukover eða Samfylkingarrósina. Hann er hönnuður í fókus hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
„Áhugi minn á hönnun kviknaði þegar ég var unglingur á kafi í tónlist, aðallega þungarokki en ég var í nokkrum þungarokkhljómsveitum, Snafu, Future Future og seinna á bassa í Mínus í nokkur ár. Ég dróst alltaf að sjónrænu hliðinni, var að teikna lógó fyrir hljómsveitirnar, skoða bæklingana og byrjaði snemma að hafa skoðun á því hvað mér fannst flott,“ útskýrir Siggi. Sjónræni heimurinn togaði í hann snemma og eftir nám í Menntaskólanum í Hamrahlíð útbjó hann möppu til þess að sækja um í LHÍ í grafískri hönnun. „Þessi umsóknarmappa í Listaháskólann inniheldur mjög vandræðalegt stöff fyrir mig en blessunarlega komst ég inn. Í LHÍ opnaðist heill heimur gegnum námið og ekki síður vini mína og samnemendur. Það var mikill metnaður og smitandi orka okkar á milli. Þetta var rosalega dýrmætur tími.“






Man vel eftir fyrsta borgaða gigginu
Siggi vann samhliða skólanum en kennarinn hans, Gunnar Vilhjálmsson grafískur hönnuður og einn af stofnendum Universal Thirst letursmiðju, mælti með honum í ákveðið verkefni. „Það var að hanna plötukover fyrir hljómsveitina Hjaltalín sem var fyrsta borgaða giggið mitt,“ segir hann. Örlögin höguðu því þannig að Siggi hannaði tvö önnur plötukover fyrir Hjaltalín til viðbótar en eitt þeirra hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2021 ásamt Gabríel Bachmann og Matthías Rúnar Sigurðsson fyrir Úlfabarnið.
Það er ekki hægt að sleppa því að spyrja Sigga aðeins út í Úlfabarnið, verðlaunaplötuna. „Þetta var alveg ruglað, að fá Matthías til að höggva fisíska styttu úr basalti sem mun lifa næstu tíu eða tuttugu þúsund ár. Það lætur manni líða vel, sérstaklega af því margt sem við grafískir hönnuðir gerum er ekkert sérstaklega lífseigt.“








Vildi verða pínulítill fiskur í risastórri tjörn
Siggi starfaði um árabil á stofunni Jónsson & Le‘macks og var bæði farsæll og þekktur hönnuður. „Ég var kominn í fína stöðu, hafði notið velgengni og unnið einhver verðlaun. En það blundaði alltaf í mér sá draumur að vinna í alþjóðlegu hönnunarsamfélagi og verða pínulítill fiskur í risastórri tjörn. Ég vissi að ef ég ætlaði að gera það í alvörunni þyrfti ég að flytja út. Allir þeir bestu í þessu fagi í heiminum starfa eða hafa starfað í New York — og sem betur fer deildum við konan mín þessum draumi, að búa í New York, stækka sjóndeildarhringinn og upplifa annan menningarheim.“ Úr varð að þau létu slag standa og fluttu fjölskylduna til Bandaríkjanna.






Dýrmæt reynsla
Að fara frá því að starfa í litlum bransa í Reykjavík, þar sem allir þekkja alla, og hefja störf í New York þar sem samkeppnin er margfalt meiri er ákveðið sjokk. „Þetta var ástand sem ég sóttist eftir og fékk svo mjög fast í andlitið. Að vera einn af tuttugu þúsund hönnuðum, sem eru allir jafngóðir, er mjög humbling reynsla,“ segir Siggi en bætir við að þessar aðstæður hafi líka kallað fram metnað til þess að verða betri og gera stærri hluti. „Ég byrjaði hjá hönnunarstofu sem heitir Hugo & Marie sem vinnur bæði í digital vefhliðinni en líka branding og sjónrænu ásýndinni en ég var aðallega þeim megin í fyrirtækinu. Þarna fékk ég mörg spennandi verkefni, vann m.a. fyrir Apple, Saint Laurent, Equinox íþróttamiðstöðina og nýtt rauðvíns vörumerki sem kallast Ink Grade.“ Tíminn flaug eðlilega í Stóra eplinu, en svo gerðist dálítið sem fæst okkar vilja muna í smáatriðum. „Covid tíminn var crazy í New York. Hillur tæmdust og það voru risa raðir útum allt. Allir Íslendingar sem við þekktum í borginni fóru heim innan tveggja mánaða en við drógum það. Á endanum tókum við síðustu vélina sem flaug til Keflavíkur frá Boston. Þetta var dálítið einsog heimsendamynd, fjölskyldan hlæjandi og grátandi til skiptist, að gönna á bílaleigubíl til Boston að ná síðustu vélinni heim!“






Ísland eftirá í fjarvinnu
Eftir Covid fór fjölskyldan aftur til New York en þá hóf Siggi störf hjá JKR, alþjóðlegu branding fyrirtæki með starfsstöðvar um allan heim. „Þar var mér aftur hent í djúpu laugina. Við unnum í endurhönnun á Bud Light, gerðum nýtt útlit fyrir Manischewitz sem er risi á bandarískum markaði, búið að vera til í 150 ár.“ Siggi átti góð ár hjá JKR og hrósar bandarískum vinnumarkaði sérstaklega fyrir að vera framarlega í fjarvinnu. „Covid faraldurinn gjörbylti öllu vinnuumhverfi þar. Það var alvanalegt að vera á fundum með fólki víða um heim. Einn í LA eða Miami, annar í London og svo einhverjir í New York og aldrei neitt mál. Ég vann oft marga mánuði í senn frá Frakklandi. Á Íslandi er það enn þannig að allir þurfa að mæta í Borgartúnið á fund. Þetta er dálítið hamlandi og mér finnst að Ísland gæti lært betur á fjarvinnu. Í mínum bransa er hvort eð er allt samstarf og við erum alvön að vinna þétt saman inni í sama forritinu. Þá skiptir ekki máli hvort fólk situr við borðið sitt í vinnunni eða einhvers staðar annars staðar.“
Hönnunin á að vera aðalatriðið
Talið berst að auglýsingabransanum á Íslandi og ljóst er að Siggi hefur skoðanir. „Ég hef áhuga á hönnun og hönnunarbransanum en minni áhuga á auglýsingabransanum. Mig langar að breyta þessu í tungumálinu og fara að tala um hönnunarbransann og færa þannig fókusinn á hönnun sem aðalatriði. Þetta eru tveir ólíkir heimar; hönnun og auglýsingar. Hönnunarstofur vinna í kjarnaelementum hjá fyrirtækjum og móta allt sjónrænt kringum þau, raddblæ og hanna allt sem viðkemur því hvernig fyrirtæki stíga fram, hvar og hvenær sem er. Hönnun er langtímahugsun en auglýsingar eru meira til skamms tíma, eitthvað sem kallar á stundarathygli.“






Stóra verkefnið að hugsa til langs tíma
Fyrirtækið sem Siggi starfar hjá í dag Aton er strategísk samskipta- og hönnunarstofa. Vinnuferlið er ákveðinn rannsóknarleiðangur. Siggi segir skipta máli að komast að kjarnanum og átta sig á því hvað viðkomandi fyrirtæki stendur fyrir og því samfélagi sem það starfar í. „Hvernig er kúltúrinn, hvern ertu að tala við, hver er samkeppnin, fyrir hvað stendurðu, hverju er áhugavert að segja frá og hvernig gæti það litið út? Þetta þarf að kjarna vel. Það er auðvelt að búa til fallega grafík og lógó sem þýða ekkert en stóra verkefnið er að búa til tól og strategíu til langs tíma. Mig langar að umbylta markaðnum frá því að vera auglýsingamiðaður yfir í að vera langtíma branding miðaður. Heimurinn virkar ekki lengur þannig að ein sjónvarpsauglýsing nái til allra. Í dag skiptir máli að vera með vörumerki sem er bæði staðfast og sveigjanlegt og tekur á sig ólík form eftir miðlum. Og vörumerkið þarf bæði að standa út og vera auðþekkjanlegt, hvar sem það birtist.“
Samspil lista og peninga
Eins og rakið er að ofan kemur Siggi úr listaheiminum. Sú spurning kviknar hvort ekki sé togstreita á milli listar og fjármagns. „Jújú, mitt fag snýst um að einhver borgar alltaf reikninginn,“ segir hann en bætir við að það hjálpi lítið hönnunarferlinu að hafa það sem helsta markmið að viðskiptavinur græði sem mesta peninga. „Ég reyni að halda fókusnum á því hvers vegna ég sé að gera þetta og hvers vegna ætti þetta að vera til? Mitt markmið er að gera upplifun fólks í umhverfi sínu ánægjulegri og kannski, vonandi bæta dag einhvers um eitt prósent og fegra heiminn aðeins. Kannski láta einhvern líta tvisvar og hugsa að þetta sé áhugavert eða fallegt. Mitt fag er stundum í ætt við umhverfissálfræði, að stuðla að því að fólki líði vel með því að búa til eitthvað fallegt enda veitir fegurð gleði.“
Það liggur beint við að spyrja hvort það sé eitthvað fyrirtæki eða bransi sem Siggi vill ekki starfa fyrir eða fegra? „Ég myndi alltaf segja nei við einhverju fáránlegu en ég hef samt aldrei fengið tilboð um það. Á hinn bóginn hef ég reynt að sníða hjá því að vinna fyrir fyrirtæki sem ég deili ekki gildum með en til að gæta heiðarleika er miklu meira af góðum fyrirtækjum en vondum á Íslandi.“






Gervigreindin einhvers konar töfraskófla
Siggi Odds tók nýlega þátt í opnum fyrirlestri á vegum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Grósku um gervigreindartæknina. Hver er hans skoðun? „Fólk er enn að læra á gervigreindartæknina og prófa sig áfram, ég held að fæstir séu farnir að nota hana með markvissum hætti. Línan í dag er að þetta sé nýtt tól í verkfærakistuna. Í mínum huga er þetta mitt á milli þess að vera töfrasproti, sem getur gert allt, og skófla. Einhvers konar töfraskófla. Til þess að geta notað þetta af ráði verðurðu að vita hvað þú ert að gera, hvað þú vilt gera með þetta og í hvaða tilgangi. Gervigreindin er samansafn af öllu sem hefur verið sett í hana hingað til, og er þannig takmörkuð af því sem hefur verið gert áður. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þegar við hugsum fram á veginn séum við með þessa takmörkun hennar í huga og höldum áfram að þróa hugmyndir og menningu áfram, gefum í með frumleikann, svo það bætist nú eitthvað í mengið. Annars er hættan að framþróun sjónrænnar menningar hreinlega stöðvist.“
Í lokin horfum við í baksýnisspegilinn yfir verkefni síðustu áratuga. Hvað stendur uppúr? Kannski nýtt lógó Samfylkingarinnar, rósin, sem hefur verið áberandi síðustu misseri? „Það var skemmtilegt verkefni sem talaði við mín gildi og hefur sterka merkingu fyrir fullt af fólki. Ætli ég hafi ekki teiknað hundrað rósir þangað til hún kom alveg rétt út,“ segir Sigurður Oddsson grafískur hönnuður að lokum.



