Fullt hús og mikil stemning á fyrsta fyrirlestri haustsins

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur fyrir opnum fyrirlestrum í vetur um áhugaverð málefni sem snúa að hönnun og arkitektúr.
Fullt hús var á fyrsta viðburði vetrarins en næsti fyrirlestur er þann 15. október nk. kl. 9 og ber heitið Nýtt efni og endurnýtt. Þar verður fjallað um nýskapandi efnisnotkun og hvernig arkitektar og hönnuðir skapa ný efni og endurnýta önnur. Skráningarhlekk á fyrirlestur 15. október má finna hér.
Þann 24. september sl. ræddum við hins vegar gervigreind útfrá ýmsum sjónarhornum. Fjórir hönnuðir og arkitektar voru með snörp erindi um sína sýn og notkun á gervigreindartækninni. Þau voru: Kristján Örn Kjartansson, arkitekt KRADS, Daniel Zarem, vöruhönnuður Össur, María Guðjohnsen, þrívíddarhönnuður og Sigurður Oddsson, grafískur hönnuður Aton.
Safa Jemai, framkvæmdastjóri Víkonnekt tók þátt í umræðum eftir erindin með framsögufólki sem Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi CCP stýrði af kostgæfni. Hönnuðir, arkitektar, fjölmiðlafólk og annað áhugafólk lét sig ekki vanta á viðburðinn en fullt var útúr dyrum í stóra salnum í Grósku eins og meðfylgjandi myndir sýna.














